154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Það gleður mig að heyra að þetta er í farvegi og ég vona að það þýði að aðgerðirnar komi í kjölfarið. Af því að hæstv. ráðherra talar annars vegar um uppstokkun og nýja hugsun í gerð námsgagna og síðan fjármagnið sjálft sem, ef ég skildi ráðherra rétt, er þarna einhvers staðar inni í áætluninni, falið, þá langar mig að beina athyglinni að þessu með uppstokkunina; við gerð námsgagna, er það þá þannig að það eigi að fara út í það að treysta einkaaðilum fyrir námsgagnagerð? Þá á ég við sérfræðinga á ákveðnum málefnasviðum, kennarana sjálfa ef út í það er farið, og losa um þetta heljartak sem hið opinbera hefur haft á útgáfu námsefnis. Er samstaða um það innan ríkisstjórnarinnar og er það eitt af því sem má vænta í þessum breytingum sem ráðherra ætlar að leggja fram á haustmánuðum?