154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Það er ýmislegt jákvætt að finna í alla vega orðalagi fjármálaáætlunar varðandi markmið ríkisstjórnarinnar sem þar eru útfærð. Á bls. 172 segir, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið á leikskóla- og grunnskólastigi er að börn og ungmenni finni til vellíðunar og öryggis í öllu skóla- og frístundastarfi sem byggist á inngildandi skólastarfi með það að markmiði að þau búi yfir skapandi og gagnrýninni hugsun, félagsfærni og annarri hæfni á námssviðum leik- og grunnskóla.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það fjármagn og þær aðgerðir sem til stendur að fjármagna í þágu móðurmálskennslu barna sem hafa ekki íslensku að móðurmáli. Ástæðan fyrir því að ég spyr út í þetta er sú hversu gríðarlega mikilvægt það er að börn viðhaldi móðurmáli sínu þegar þau eru að læra annað tungumál og yfir höfuð. Móðurmál er í raun tungumálið sem við lærum fyrir fjögurra til sex ára aldur. Sjálf hef ég alla ævi heyrt talað um mikilvægi móðurmálsins en svo ég tali nú á persónulegum nótum þá áttaði ég mig fyrst almennilega á hvað átt er við með því þegar ég kynntist manni sem hafði flúið sín heimkynni sex ára gamall og í raun ekki komist í tengsl við móðurmál sitt síðan þá. Þetta gerði honum nánast ókleift að læra nýtt tungumál og hamlaði honum algerlega í öllu sínu lífi sem fullorðinn. Í Svíþjóð er fjármögnun móðurmálskennslu hluti af rammanum í skólastarfi sem dæmi. Á Íslandi er engin sjálfstæð fjármögnun móðurmálskennslu svo ég viti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að bæta úr þessu í ljósi þess sem hér hefur komið fram, að fjöldi og fjölbreytni barna af erlendum uppruna sem eiga annað tungumál að móðurmáli hefur vaxið og mun fara vaxandi á næstu árum.