154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:55]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi móðurmálskennslu og við höfum stutt við bakið á samtökunum Móðurmál sem hafa með veikum mætti verið að reyna að sinna þessu hér á höfuðborgarsvæðinu eins og þau hafa getað. Staðreyndin er að heilt yfir hefur ríkisvaldið ekki verið að gera mikið þegar kemur að svona beinni þjónustu inn í grunnskóla- og leikskólakerfið. Þetta hefur verið á hendi sveitarfélaga sem hafa haft nokkuð frjálsar hendur í þessu. Þetta er náttúrlega fjármálaáætlun sem við erum að ræða núna, stóru rammarnir, og við erum að gera ráð fyrir því að geta stigið fastar inn, m.a. í samstarfi við þau sveitarfélög, eins og Reykjavíkurborg, sem hafa verið að gera vel þegar kemur að inngildingu og aðlögun að íslensku samfélagi í skólakerfinu. Við gerum ráð fyrir að geta skalað það upp og aukið þjónustu og stuðning við skólana allt í kringum landið. Það á eftir að koma í ljós hversu langt við komumst fyrir það fjármagn og þann tíma sem innleiðingin tekur og er verið að vinna áætlanir um það núna í samstarfi við nýja Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hvort við getum komist alla leið varðandi móðurmálskennsluna líka. Ég held að það verði erfitt miðað við rammann sem við erum að vinna eftir en það mun væntanlega skýrast betur þegar fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós.