154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilið svar. Þótt það hafi verið hreinskilið þá var það kannski ekkert sérstaklega skýrt. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er í raun ekki gert ráð fyrir því að ríkið tryggi börnum aðgengi að móðurmálskennslu. Eins og hæstv. ráðherra nefndi hefur það einmitt verið á hendi frjálsra félagasamtaka og oltið á bæði, hvað eigum við að segja, framtaki sveitarfélagsins sem um ræðir í þessum málum og líka þeim félögum sem tengjast tilteknu málsvæði, þ.e. tilteknu tungumáli. Pólska samfélagið hefur t.d. rekið Pólska skólann sem mér skilst að sé rekinn á laugardögum. Einhver þessara verkefna eru studd af hálfu ríkisins. Reyndar er Pólski skólinn nokkuð dýr, ég held að það séu um 10.000 kr. á mánuði sem foreldrar þurfa að borga fyrir hann. (Forseti hringir.) Ég vil fá að ítreka spurninguna til að fá örlítið skýrara svar. Er það rétt skilið að það sé í raun ekki gert ráð fyrir beinni aðkomu ríkisins að því að tryggja öllum börnum hér á landi móðurmálskennslu?