144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

292. mál
[16:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við skoðum þessi mál mjög vel og ef menn vilja hafa lögin eins og þau eru þá þurfa menn að færa skýr rök fyrir því. Ég er sammála hv. þingmanni að mikilvægt er að samkeppni sé á sem flestum sviðum þó svo enginn vafi sé á því að menn hafi verið með góðan ásetning þegar þessi lög voru samþykkt eins og þau eru núna. En það er allra hluta vegna afskaplega mikilvægt að fara yfir það mál, því að það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að sóknarfærin eru mikil í íslenskum landbúnaði. Sóknarfærin felast fyrst og fremst í því að gæði vörunnar eru mikil og þá eru ekki einhver tilfinningaleg rök í því, heldur geta menn bara skoðað samanburð á íslenskum búvörum við aðrar sambærilegar vörur. Það er til dæmis áhugavert að skoða Evrópusambandið og Evrópulöndin í því samhengi. Eftir því sem ég best veit er minnst af aukefnum í íslenskum kjötvörum, þ.e. íslenskri framleiðslu, í Evrópu ef undan er skilinn Noregur. Ég held að Noregur sé með aðeins minna. En það er mun meira í þeim löndum sem hv. þingmaður vísaði til, sem eru Evrópusambandslöndin, og má auðveldlega halda því fram að það sé svipað og menn tala um ameríska kjötið, almenna ameríska kjötið, sem hormónakjöt, þá mega menn alveg eins selja erlenda Evrópusambandskjötið, sérstaklega í gömlu Evrópu, sem sýklalyfjakjöt ef við ætlum að alhæfa um þessa vöru. Auðvitað er það til í Ameríku að þar eru vörur sem menn borga misjafnlega mikið fyrir, en hormónakjöt, slíkir nautgripir, er algengt þar. Ég held fyrst og fremst að uppistaða þeirra sé eitthvað sem okkur finnst kannski ekki vera gæfulegt, þ.e. maís og annað slíkt en ekki gras, en ef menn ætla að kaupa svona vörur eins og þeir fá hér sem þeir kalla, með leyfi forseta, „grass-fed“, sem skýrir sig nú held ég sjálft, það eru bara grasbítar, þá borga menn jafnvel tvöfalt verð fyrir það miðað við hinar vörurnar. Við þurfum hins vegar að halda þessu hærra á lofti. Það er munur á kjöti og kjöti, og það er munur á mjólkurvörum eftir því hvernig þær eru. Ég lærði það um daginn til dæmis með smjörið að þegar maður er í öðrum löndum, ég er ekki að segja hérna á Íslandi, þá er kominn annar litur á smjörið og það er til komið vegna þess að viðkomandi dýr eru fóðruð á öðru en grasi. En það hefur til dæmis komið í ljós að gula smjörið þykir mjög hollt og margt eftirsóknarvert þar sem menn vissu ekki af áður. Ég segi það nú sem matgæðingur, mér líður miklu betur eftir að ákveðið gæðavottorð kom á smjör og slíkar vörur.

Mér finnst að við eigum að ræða þetta, virðulegi forseti, í þessu samhengi. Lykilatriði er að við ýtum undir nýsprota í landbúnaðinum og þó að það sé án nokkurs vafa mikilvægt að hafa stóra aðila til að halda verðinu niðri og ná einhverri stærðarhagkvæmni, þá held ég að sóknarfærin felist ekki síður og miklu frekar í smærri aðilum. Vörur til dæmis beint frá býli, þróunin hefur verið nokkuð í þá átt að fólk vill fá að vita hvaðan varan kemur sem það borðar og neytir. Sú þróun mun ekki breytast, ég held að hún muni eflast. Það eru gríðarleg sóknarfæri þegar kemur að þeim mikla ferðamannastraumi sem hér er. Við erum ekki að nýta þau sóknarfæri, virðulegi forseti, langur vegur er þar frá. Það er alveg ótrúlegt að til dæmis lambakjötið okkar skuli ekki hafa verið með í þeirri heilsubylgju sem er til staðar, með fullri virðingu fyrir verksmiðjubúum. Enginn vafi er á því að lambakjötið hlýtur að vera miklu vænlegri kostur og það er í rauninni með mikið af eiginleikum villibráðar. Við þurfum að líta á þetta í samhengi.

Ég tel að við eigum að setja í umræðunni um landbúnaðarmál meiri áherslu á gæðin. Þar liggur okkar styrkur. Við munum aldrei geta keppt í verði við þau lönd sem við berum okkur saman við, en við getum keppt í gæðum. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, þegar við erum að tala um innflutning á landbúnaðarvörum að vita hvaðan það kemur. Ég er fylgjandi því að fólk fái að velja sjálft. Ég er algjörlega meðvitaður um að það er svona almenn og svipuð stefna á Íslandi, þegar kemur að viðskiptum við landbúnaðinn, og er hjá Evrópusambandinu að Evrópusambandið er með nákvæmlega sömu viðskiptapólitík þegar kemur að viðskiptum við önnur svæði. Evrópusambandið er verndarbandalag, tollabandalag, og reynir að vernda sína markaði og er í raun með sömu áherslur og til dæmis forustumenn Framsóknarflokksins þegar kemur að viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Það er alltaf jafn kómískt að heyra þá sem eru helstu andstæðingar Framsóknarflokksins sem vilja ganga í Evrópusambandið, því að þeir ganga þá í algjört draumaland verndarstefnunnar þegar kemur að viðskiptum, ekki bara með landbúnað, heldur viðskipti almennt. Þetta er nokkuð sem allir vita sem vilja vita, og er vandinn náttúrlega núna út af TTIP-viðræðunum, sem eru viðræður milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Vandræðin eru fyrst og fremst út af verndarstefnu Evrópusambandsins sem gerir það að verkum, virðulegi forseti, að Evrópusambandið vill til dæmis ekki upplýsa Ísland eða önnur EFTA-ríki hvað er að gerast þar, við þurfum að fá upplýsingarnar frá Bandaríkjamönnum. Bandaríkjamenn vilja hafa samninginn opinn, hleypa öðrum að, en Evrópusambandið vill það ekki vegna þess að Evrópusambandið er verndarbandalag sem vill vernda gamaldags tollabandalag og er alveg óskiljanlegt að menn skuli tala um aðild að Evrópusambandinu í samhengi við viðskiptafrelsi. Þess vegna voru orð hv. þingmanns um að það væri svo stórkostlegt fyrir íslenskan landbúnað og Íslendinga að vera í Evrópusambandinu algjörlega óskiljanleg.

Og enn ein mótsögnin felst í því að stundum þegar maður heyrir talsmenn aðildarsinna sem vilja ganga í Evrópusambandið tala um að þeir vilji sjá breytingu á landbúnaðarstefnunni, þá er eins og þeir átti sig ekki á því að ef við göngum í Evrópusambandið þurfum við að borga svona nettó 10–15 milljarða eða eitthvað slíkt inn í sjóði Evrópusambandsins. Þetta hefur margoft verið tekið út af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og öðrum, enda segir sig sjálft að við sem höfum háar þjóðartekjur mundum alltaf þurfa að greiða með okkur. Þær upphæðir færu allar fyrst og fremst til evrópskra bænda, þannig að menn yrðu þá að greiða slíkar upphæðir í það og í raun miklu hærri upphæðir en menn greiða í landbúnað í dag. Við mundum þurfa að greiða það til evrópskra bænda.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að skoða þessa tillögu og aðrar sem gætu orðið til þess að efla samkeppni hér innan lands, ýta undir nýsköpun og nýta þau tækifæri sem við höfum. En ég skil bara ekki hvernig nokkrum manni dettur í hug að tala um viðskiptafrelsi og Evrópusambandið í sömu andrá. Ég skil heldur ekki, virðulegi forseti, hvernig einhverjum dettur í hug að tala í sömu andrá um það að vilja ekki greiða styrki til landbúnaðarins en vilja svo ganga í Evrópusambandið, því að það er algjörlega augljóst að ef við gengjum í Evrópusambandið yrðum við að greiða mjög háar fjárhæðir til evrópskra bænda og mun hærri upphæðir en við greiðum núna til íslenskra bænda. Þetta liggur allt saman fyrir og menn geta skoðað það ef þeir hafa áhuga á því.

Virðulegi forseti. Svona tillögur eigum við að skoða í fullri alvöru. Ég tel líka að við eigum að skoða hluti eins og þá að þegar kemur að þeim samningum sem við höfum við bændur eigum við að leggja meiri áherslu á gæði, þ.e. við eigum að umbuna þeim framleiðendum sem leggja meira upp úr gæðum og við eigum að setja okkur það markmið að hér sé slík framleiðsla. Við höfum að stórum hluta náð því, meira að segja verksmiðjubúin koma vel út í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að salmonellu og kampýlóbakter og öðru slíku. Við eigum að hafa það sem markmið þegar kemur að innlendri matvælaframleiðslu, hvort sem það er landbúnaðurinn, sama hvaða grein það er, eða sjávarútvegurinn eða önnur matvælaframleiðsla, þá eigum við að vera í fremstu röð þegar kemur að gæðunum. Við munum ekki, og það er ekkert endilega eftirsóknarvert, vera hér með ódýrustu framleiðsluna ef við berum okkur saman við lönd þar sem annað veðurfar er, við munum aldrei geta keppt við það. Svo er líka á mörgum stöðum sannarlega ekki gerðar miklar kröfur til matvælaframleiðslu. Við eigum ekki að bera okkur saman við slíkt. Við eigum að setja markið hátt þegar kemur að gæðunum. Síðan eigum við, virðulegi forseti, að reyna að hafa eins virka samkeppni og mögulegt er á öllum sviðum.

Þess vegna eigum við að skoða þessa tillögu og aðrar svipaðar, en við skulum samt ekki gleyma stóru myndinni. Ég held að mjög mikilvægt sé að við ræðum Evrópusambandsmálin og þá sérstaklega þá þætti sem aðildarsinnar vilja ekki ræða, sem snúa að því hvað Evrópusambandið er. Evrópusambandið er tollabandalag, gamaldags tollabandalag, sem hefur ekki verið að vinna að fríverslun í heiminum, það er langur vegur þar frá. Evrópusambandið, ég held að helmingurinn af fjárlögum þess fari í landbúnaðarstefnuna og sjávarútvegsstefnuna. Þar erum við til dæmis að keppa í sjávarútveginum. Við tökum gríðarlegar tekjur af sjávarútveginum. Það er engin þjóð sem hefur veiðigjöld eins og við, langur vegur þar frá. Þjóðir heimsins, sérstaklega í Evrópusambandinu, greiða almennt niður og inn í sinn sjávarútveg og við yrðum að vera aðilar að sameiginlegri sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu. Það hefur margoft verið staðfest. Ég var til dæmis að fá fundargerð, virðulegi forseti, um daginn, sem var skrifuð eftir upptökum, fundargerðin er skrifuð í kjölfarið, þar sem ég spyr forustumann úr stækkunardeild Evrópusambandsins þeirrar eðlilegu spurningar: Þyrftum við ekki að vera aðilar að sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnunni? Að sjálfsögðu var svarið: Já. Nema hvað. Við þurfum því að ræða þessi mál eins og þau eru en ekki í einhverri óskhyggjudraumi aðildarsinna.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að við ræðum þessi mál í samhengi. Ég fagna þessari tillögu og tel að við eigum að ræða hana og skoða og allar aðrar hugmyndir sem geta ýtt undir samkeppni hér á landi, sama á hvaða sviði það er. Ef tillagan verður til þess þá eigum við auðvitað að skoða það alvarlega.