Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[19:06]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi upplýsa hv. þm. Loga Einarsson um að við höfum auðvitað verið að fylgja eftir áhersluatriðum sem hafa verið mótuð í fyrri stefnu. Ég nefni til að mynda stefnuna frá 2014–2018. Þar var lögð áhersla á að það ætti að styðja betur við Hönnunarmiðstöð og Hönnunarsjóð. Við höfum tekið það markvisst til greina og stóraukið alla samvinnu við Hönnunarmiðstöð. Við höfum verið að styrkja og auka fjármuni í Hönnunarsjóð og ég hef lagt mikla áherslu á að nýta það sem hefur áður verið gert, jafnvel þótt maður hafi ekki sjálfur leitt viðkomandi ráðuneyti á sama tíma. Ég get upplýst hv. þingmann um það að sú myndlistarstefna sem ég vonast líka til að við getum klárað á þessu þingi er algerlega unnin þannig að við erum að nýta þá vinnu sem fyrir var. Ég tel að það sé alger sóun á hugviti að byrja með autt blað þegar önnur vinna er til staðar og hef lagt ákveðinn metnað í að endurnýta það sem við teljum að sé gott og til farsældar fremur en að nýta það ekki. Því er ýmislegt sem við höfum verið að gera. Hins vegar höfum við verið að kynna með markvissari hætti nýja aðferðafræði í tengslum við þessar greinar þannig að við séum að sinna þeim öllum jafn vel. Það er alveg langt í land í ýmsum þeirra, til að mynda varðandi fjárveitingar, en þetta er alla vega vísir að markvissari og skilvirkari vinnu.