Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

fjölmiðlar.

979. mál
[19:14]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, nr. 38/2011. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2018/1808, um breytingu á hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB, nr. 13/2010. Frumvarp þetta er samið í þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti sem í dag er menningar- og viðskiptaráðuneyti.

Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á stöðu fjölmiðla, einkum með tilkomu og vexti samfélagsmiðla, efnisveitna og mynddeiliveitna. Tilefni breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni var að hún fæli ekki í sér fullnægjandi vernd fyrir börn og neytendur á svokölluðum mynddeiliveitum. Þekktustu mynddeiliveitur eru Youtube og Facebook og fleiri veitur sem veita myndefni og annað slíkt.

Einnig kom í ljós ósamræmi á milli krafna sem gerðar eru til línulegrar og ólínulegrar miðlunar. Reglur tilskipunarinnar um hámark auglýsingatíma þóttu ekki þjóna tilgangi lengur og ýmis atriði sem nauðsynlegt væri að endurskoða í ljósi reynslunnar af beitingu ákvæða tilskipunarinnar.

Áhorfsvenjur einstaklinga hafa breyst og sérstaklega barna. Línulegt áhorf hefur minnkað og fólk horfir sífellt meira á efni í ólínulegri dagskrá og á mynddeiliveitum. Nauðsynlegt var talið að reglur um fyrrnefndar miðlunarleiðir yrðu samræmdar til að stuðla að jafnræði fjölmiðla óháð þeim miðlunarleiðum sem þeir nota.

Þá hefur einnig orðið gífurleg tækniþróun á undanförnum árum, sérstaklega þegar litið er til þess hvernig efni er miðlað, og því nauðsynlegt að lagaumhverfið endurspegli þær breytingar sem hafa átt sér stað.

Virðulegi forseti. Nú mun ég víkja að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að mynddeiliþjónusta falli að hluta undir lögsögu fjölmiðlanefndar og nýjar efnisreglur í fjölmiðlalögum. Þessi breyting er nýmæli þar sem með þessu eru ákveðnir þættir í starfsemi mynddeiliveitna felldir undir fjölmiðlalög þótt slíkar veitur séu ekki fjölmiðlar í eðli sínu.

Í öðru lagi er með ítarlegum lögsögureglum kveðið á um staðfesturíki mynddeiliveitna, þ.e. undir lögsögu hvaða EES-ríkis starfsemi þeirra heyrir. Þá er með ítarlegum hætti kveðið á um þær viðeigandi ráðstafanir sem mynddeiliveitur þurfi að grípa til í því skyni að vernda börn og ungmenni fyrir efni og notendaframleiddu efni sem getur haft skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska þeirra.

Óheimilt verður að dreifa efni sem hvetur til ofbeldis, haturs og refsiverðs verknaðar, og í því efni er sérstaklega tilgreind hvatning til hryðjuverka, og efni sem lýtur að kynþátta- og útlendingahatri. Að sama skapi er skerpt á sambærilegum reglum sem gilda fyrir fjölmiðla.

Hér er rétt að geta þess að reglurnar snúast ekki um að mynddeiliveiturnar ritskoði efni sem deilt er á þeirra vegum heldur að þær geri notendum sínum auðvelt að tilkynna efni sem fer gegn reglum þeirra og tilskipunarinnar. Mynddeiliveitum er skylt að grípa til viðeigandi ráðstafana ef ljóst þykir að efnið brjóti í bága við ákvæði tilskipunarinnar.

Í fjórða lagi eru breytingar á ákvæðum um upprunaland fjölmiðlaþjónustu og hvernig skuli bregðast við efni sem sjónvarpað er frá einu ríki en er beint til notenda í öðru ríki. Hér er ríkjum sem efninu er beint að og sem telja að efni brjóti gróflega gegn lögum þeirra gert auðveldara að stöðva slíkar útsendingar eða krefjast þess að upprunaríkið grípi til viðeigandi aðgerða.

Þá er gerð krafa um að 30% af framboði myndefnis eftir pöntun verði evrópsk verk og auglýsingareglur rýmkaðar þannig að hámark auglýsinga verði 20% á tilteknum tímabilum en ekki bundið við 20% á klukkustund eins og gildir nú.

Í sjötta lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fjölmiðlanefnd fái það hlutverk að gera áætlanir og ráðstafanir til að efla og þroska fjölmiðlalæsi almennings auk annarra verkefna sem varða upplýsingagjöf til Eftirlitsstofnunar EFTA og þátttöku í starfi samráðshóps evrópskra fjölmiðlaeftirlitsstofnana.

Að lokum er í frumvarpinu lagt til að nýttar séu heimildir í tilskipuninni til að setja frekari reglur en kveðið er á um þar en kveðið verður á um að aðeins þeim sem ekki stunda viðskipti sé heimilt að kosta barnaefni. Aðrar breytingar eru minni háttar.

Virðulegi forseti. Ég tel að það frumvarp sem ég mæli hér fyrir feli í sér ýmsar réttarbætur í takt við þær breytingar sem hafa orðið á undanförnum árum í fjölmiðlun og samfélagsmiðlum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.