154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að vera hér í umræðu um PISA. Það er þannig að Ísland kemur ofboðslega vel út í nær öllum alþjóðlegum samanburði um velsæld, hagsæld, hamingju og guð má vita hvað. En því miður er mælikvarðinn sem OECD gefur út varðandi nám og námsárangur í PISA ekki nægjanlega góður. Ég veit að hæstv. ráðherra deilir þessum áhyggjum. Ég er alls ekki að segja að PISA sé eitthvað alfa og ómega um gæði menntakerfisins okkar en það er alveg ljóst að það er algerlega óásættanlegt að lestrarhæfni íslenskra barna sé ekki meiri en raun ber vitni á þeim mælikvarða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þær aðgerðir sem hann hyggst ráðast í til að bæta árangur okkar og bæta stöðu grunnskólanna í landinu.