154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:12]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er nú erfitt að rekja svar við þessu á tveimur mínútum en ég skal gera mitt besta. (Gripið fram í.) Það er engin einföld lausn til að bæta árangur í skólastarfi. Það er ótrúlega fjölþætt þar sem þarf að stíga inn í en ég get nefnt nokkur atriði yfir aðgerðir sem við erum að vinna að. Ég held að ný þjónustustofnun sem var að taka til starfa 1. apríl, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, geti gegnt lykilhlutverki í því að aðstoða skólasamfélagið, auka ákveðna samhæfingu og vera stoð og stytta inn í skólasamfélagið allt í kringum landið og geti skipt gríðarlega miklu máli. Þessu þarf að fylgja skarpara verklag sem ég sé fyrir mér að geti komið með nýrri löggjöf um skólaþjónustu og inngildingu. Við þurfum að stórauka námsgagnaútgáfu og ef eitthvað er hef ég eilitlar áhyggjur af því að við séum ekki með alveg nógu mikið svigrúm í þessari fjármálaáætlun til að mæta því eins og við þurfum að gera, en þó er ákveðið fjármagn til inngildingar m.a. sem við höfum í hyggju að nota til námsgagnaútgáfu og frumvarp er væntanlegt í þeim efnum. Við þurfum að bæta tölfræði þegar kemur að menntakerfinu. Við þurfum að koma nýjum matsferli af stað sem ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er komin vel af stað með og reiknar með að geta farið að prófa á allra næstu misserum í skólunum. En það er ekki nóg að mæla tölfræðina og árangurinn, það þarf líka að vera hægt að vinna úr því og styðja kennarana til þess. Við sjáum umræður sem voru í Kastljósi í vikunni um það að fleiri og fleiri kennarar kenni í stuttan tíma, hætti eftir stuttan tíma og fari til annarra starfa. Ég held að það sé m.a. vegna þjónustunnar, það er samspil milli heimila og skóla og þetta erum við allt að teikna upp í aðgerðaáætlun sem allir hagaðilar koma að. Við ætlum okkur að næsta aðgerðaáætlun menntastefnu rammi þetta inn. (Forseti hringir.) Ég hef tæpt á einungis nokkrum atriðum hérna og ég gæti nefnt allmörg fleiri.