154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. PISA-kannanir sýndu að 40% nemenda sem eru 15 ára gamlir lesa sér ekki til gagns. Við erum ekki einungis að svíkja þá verst settu heldur líka þá sem ættu að skara algjörlega fram úr. Það á ekki bara við um læsi heldur líka náttúruvísindi og stærðfræði. En svo þetta sé einfalt — eins og hæstv. ráðherra sagði er engin einföld lausn til að bæta árangur í skólum — þá skulum við eingöngu horfa á læsið. Rannsókn í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, er búin að sýna fram á það með prófinu LÆS, sem þau bjuggu til sjálf og er ekki hraðapróf, einungis skilningur — ekki var krafa um að barnið læsi eins hratt og það gæti í tvær mínútur eins og er í núverandi prófum hjá Menntamálastofnun — að árangur eftir 2. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja, þar sem Kveikjum neistann er, er sá að 82% eru læs. Uppi á fastalandinu eru það 53%.

Á næstu vikum mun koma út ritrýnd grein. Ég var að tala við prófessor Hermund Sigmundsson rétt í þessu og hún er búin að fá viðurkenningu í ritrýni í mjög virtu fræðiriti. Búið er að ausa hana lofi og mun hún birtast fljótlega. Hún er um þennan árangur sem er í Vestmannaeyjum. Það er einn skóli í landinu sem er með Kveikjum neistann, einn skóli af 170.

Spurningin er þessi: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að verkefnið Kveikjum neistann verði tekið upp í fleiri skólum í landinu, eingöngu varðandi læsi? Ekki er verið að biðja um mikið, kannski fimm skóla, kannski þrjá skóla af 170. Það er einn skóli í landinu af 170 grunnskólum sem er með þetta verkefni sem hefur sýnt gríðarlegan árangur. Mun ráðherra beita sér fyrir þessu og setja fjármagn til setursins sem stundar þessar rannsóknir þannig að það hafi bolmagn til að bjóða skólum verkefnið og hvetja til þess að verkefnið verði tekið upp í fleiri skólum? Það er ekki verið að tala um að það verði helmingurinn af skólunum, 80 skólar. (Forseti hringir.) Nei, það er bara verið að biðja um að fá að fara í örfáa fleiri skóla og um það snýst spurningin til ráðherrans. Það er enginn að fara að bylta neinu hérna. Það er bara verið að biðja um fleiri skóla og meiri pening.