154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er að þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara ekki spurningunni. (Gripið fram í.) Þetta er sáraeinföld spurning. Setrið í Vestmannaeyjum er í viðræðum við ákveðna skóla. Því vantar fjármagn til þess að geta þjónustað þessa skóla til að innleiða kerfið en það er enginn vilji til þess að setja aukið fjármagn í þetta verkefni. Þetta snýst ekki eingöngu um fjármagn. Sjálfstæðismenn vita það ósköp vel. Þetta snýst um aðferðafræði við að lesa. Ég get lofað þingheimi því að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra lærði að lesa með bókstafa- og hljóðaaðferðinni. Það voru sennilega foreldrar hans sem kenndu honum það og afar og ömmur. Þau fóru í gegnum stafrófið; A þýðir A, og svo varð til amma af því að M þýðir M. Svona var það nú.

Spurningin er þessi: Mun hann nota stjórnkerfi menntamála, aðalnámskrá sem hann ber ábyrgð á samkvæmt lögbundnu stjórnkerfi menntamála, til að sjá til þess að viðurkennd aðferð eins og bókstafa- og hljóðaaðferðin verði notuð við grunnlestrarkennslu í skólum, þ.e. við upphaf lestrarkennslunnar svo að börnin skilji táknin, skilji stafrófið, eða ekki? (Forseti hringir.) Málið er það að aðalnámskrá grunnskóla er innihaldslaust plagg, útvatnað plagg og þetta er algerlega stjórnlaust. (Forseti hringir.) Það að ráðherra skuli vísa til skólanna og að þeir ráði öllu sjálfir; það er bara ekki þannig lögum samkvæmt. (Forseti hringir.) Grunnskólalögin og aðalnámskrá eru stjórntækin sem á að beita og hann ber ábyrgð á því, enginn annar. Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á læsi í landinu, enginn annar.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma, sem er takmarkaður.)