154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:27]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir hér að þetta er hluti af, reyndar ekki farsældarlögunum en hluti af Barnvænu Íslandi, sem er þingsályktunartillaga sem samþykkt var hér á Alþingi og hafði það að markmiði að auka og efla þátttöku, réttindi og raddir barna og ungmenna í íslensku samfélagi. Þessi aðgerð liggur hjá forsætisráðuneytinu. Mannréttindasamningar og staðfesting þeirra liggja hjá forsætisráðuneytinu og ég veit ekki annað. Ég fékk nýlega upplýsingar um að sú vinna væri í gangi þar við að fullgilda þessa bókun, en því þurfa að fylgja farvegir, verkferlar og fleira þannig að sú vinna er í gangi. Það er hins vegar svo, bara sagt í heiðarleika hér, að verkefnin í aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland og þetta þar á meðal hafa hliðrast eilítið. Bæði hafði Covid-faraldurinn áhrif á það en líka umbreyting ráðuneyta og svo tóku bara verkefnin kannski aðeins lengri tíma heldur en gert var ráð fyrir og áætlunin var kannski heldur metnaðarfull og það eru fleiri atriði í henni sem eru komin einu til tveimur árum á eftir þeirri upphaflegu áætlun sem lögð var til. Þannig að þetta er í vinnslu, er hjá forsætisráðuneytinu og ég veit ekki annað en að þar sé unnið að þessu hörðum höndum, enda á það að vera þannig að mögulegt sé fyrir börn og ungmenni að leita réttar síns beint til mannréttindanefndarinnar. Við eigum að taka þessa valfrjálsu bókun upp en við þurfum að vera tilbúin til þess þegar þar að kemur.