Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 42 . mál.


Sþ.

44. Tillaga til þingsályktunar



um nýjar reglur um starfslok og starfsréttindi.

Flm.: Guðni Ágústsson, Salome Þorkelsdóttir, Ragnar Arnalds,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Karvel Pálmason.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd er fái það hlutverk að móta reglur um sveigjanlegri starfslok, t.d. á aldursbilinu 64–74 ára.

Greinargerð.


    Flutningsmenn telja að það séu mannréttindi að fólk haldi starfsréttindum svo lengi sem hæfni, starfsorka og starfslöngun eru fyrir hendi.
    Flutningsmenn telja að eftirlaunaaldur ætti að vera mun sveigjanlegri en nú er þannig að fólk geti sjálft valið um hvort það hætti störfum t.d. á aldursbilinu 64–74 ára. Það á hvorki að vera lögþvingun né einhliða réttur atvinnurekanda að þvinga fólk til að hætta störfum þegar ákveðnu aldursmarki er náð. Allar rannsóknir benda til þess að ófrávíkjanleg starfslok fólks við ákveðin aldursmörk valdi ótímabærri hrörnun.
    Samkvæmt niðurstöðum hóprannsókna Hjartaverndar á árunum 1979–1984 á fólki á aldrinum 67–74 ára kom fram að lyfjaneysla helst nokkuð óbreytt meðal karla og kvenna 47–66 ára en meðal kvenna 67–73 ára eykst neysla taugaróandi lyfja um 35% og svefnlyfja um 80%. Meðal karla eykst neysla taugaróandi lyfja um 50% á þessum aldri. Athyglisvert er að neysla taugaróandi lyfja og svefnlyfja eykst mjög eftir að fólk kemur á eftirlaunaaldur og hættir störfum. Nærtækasta skýringin er að fólkið þjáist af vanlíðan og leiða og finnst það hafi ekkert hlutverk og sé sett til hliðar í þjóðfélaginu.
    Smátt og smátt er einkareksturinn að taka upp þær reglur hins opinbera að svipta fólk fastráðningu eigi síðar en þegar 70 ára aldursmarkinu er náð.
    Þau lög, sem í gildi eru um sviptingu fastráðningar starfsmanns ríkis eða bæjar, eru frá árinu 1935.
    Flutningsmenn leggja áherslu á eftirtalin atriði:
1.     Það eru mannréttindi að halda óskertum starfsréttindum og eiga það ekki undir náð atvinnurekenda hvort viðkomandi heldur vinnu sinni.
2.     Fólk á að halda áunnum eftirlaunaréttindum en starfslok þurfa að vera mun sveigjanlegri svo að fólk geti hætt störfum að eigin vali, t.d. á árabilinu 64–74 ára.
3.     Gefa þarf fólki rétt á að sinna hlutastarfi í „fastri vinnu“ þegar aldur færist yfir.
4.     Heilsufar fólks 64–74 ára er betra en áður var, enda starfar nú helmingur fólks 67–74 ára fullan starfsdag en oft í íhlaupavinnu (hefur verið svipt fastráðningu).
5.     Meðferð öldrunar er ekki alger hvíld heldur andleg og líkamleg örvun og þar af leiðandi eru lög um vinnulok við 67 eða 70 ára aldur ekki læknisfræðilega réttlætanleg.
6.     Enn fremur þarf að bæta lífeyri fólks svo að það neyðist ekki til að vinna lengur en heilsa og hugur leyfa.
    Hér fylgir með skýrsla eftir Ólaf Ólafsson landlækni og Þór Halldórsson yfirlækni um mannréttindi og eftirlaunaaldur.



Fylgiskjal.


Ólafur Ólafsson landlæknir og
Þór Halldórsson yfirlæknir:


MANNRÉTTINDI OG EFTIRLAUNAALDUR.


Inngangur.



Eftirlaunaaldur.
    Lok fastráðningar hafa í för með sér tekjumissi og skerðingu á tilteknum réttindum. Á Norðurlöndum er eftirlaunaaldur yfirleitt við 67 ár, í Svíþjóð við 65 ár en á Íslandi eru mörkin nokkru sveigjanlegri. Opinberir starfsmenn ráða hvort þeir hætta störfum við 67 ára eða 70 ára aldur. Einnig gildir þar „95 ára reglan“.
    Ýmsir lífeyrissjóðir á Íslandi leyfa starf til allt að 70 ára aldurs. Á félagssvæði Alþýðusambandsins eru starfslok komin undir samkomulagi launþega við vinnuveitanda. Launþegi verður þar að sækja rétt sinn til vinnu til hans. Mörg fyrirtæki hafa ákveðnar reglur um að segja starfsfólki upp við 70 ára aldur. Athyglisvert er að í einkarekstri halda menn mun lengur starfi sínu eftir að eftirlaunaaldri er náð en hjá ríki og sveitarfélögum.

Atgervi eftirlaunafólks.
    Niðurstöður margra rannsókna sýna að flestir eftirlaunamenn eru við góða heilsu og jafnframt vel vinnufærir.

Tafla 1.


Vinnandi fólk á eftirlaunaaldri á Norðurlöndum.


(65–74 ára aldur.)



             Karlar    Konur
    Ísland ..............         69%    40%
    Danmörk .............         25%    8%
    Noregur .............         35%    16%
    Svíþjóð .............         14%    4%
    Finnland ............         5%    3%

Fjöldi þeirra er hætta vinnu fyrir eftirlaunaaldur.
    Á Norðurlöndum fer þeim fjölgandi sem hætta störfum áður en eftirlaunaaldri er náð (þótt þeir séu við góða heilsu).
    Á tímabilinu 1970–1980 breyttist fjöldi þeirra vinnufærra manna sem hættu störfum á aldrinum 16–64 ára, sbr. töflu 2.
    Í Danmörku og Finnlandi hætta fleiri störfum undir eftirlaunaaldri en á öðrum Norðurlöndum, líklega vegna meira atvinnuleysis. Árið 1981 voru í Danmörku aðeins 56% karla og 27% kvenna á aldrinum 60–64 ára við vinnu.

Líklegar orsakir starfsloka áður en eftirlaunaaldri er náð.
1.     Atvinnuleysi.
2.     Menntunarkröfur atvinnuveganna hafa aukist.
3.     Hagræðing er orðin meiri, m.a. vegna tölvuvæðingar.
4.     Félagslegur þrýstingur. „Menn eiga að hætta þegar ellin færist yfir og hleypa þeim ungu að“ vegna atvinnuleysis.
5.     Verkalýðspólitík fagfélaganna er oft neikvæð í garð „þeirra gömlu“.
6.     Í einstökum tilfellum er fjárhagslega hagkvæmt að hætta vinnu.

Heilsufar og aðstæður eftirlaunafólks.
    Aðeins örfáar rannsóknir hafa farið fram sem lýsa aðstæðum og heilsufari eftirlaunafólks.
    Samkvæmt rannsóknum Félagsmálarannsóknastofu Danmerkur reyndist heilsufar aldraðra frekar batna á árunum 1962–1979. Í samræmi við þessar niðurstöður minnkaði dánartíðni fólks á aldrinum 65–74 ára á Norðurlöndum á árunum 1970–1980, sbr. töflu 3.
    Flestar rannsóknir, sem gerðar hafa verið, fjalla um ástand hjá ófaglærðum og starfsmönnum í lægri launaflokkum en fáar um menntamenn og sjálfstæða atvinnurekendur. Launþegar hætta störfum mun fyrr en þeir er starfa sjálfstætt. Algengast er að menntamenn og atvinnurekendur eigi sér frekar áhugamál (hobbies) er koma í stað starfsins en verkamenn. Sá hópur, sem er mótfallinn því að hætta störfum við 67 ára aldur, er á bilinu 15–30% og allt að þriðjungur ellilífeyrisþega á Norðurlöndum kemst illa af fjárhagslega. Í kjölfar þessa hrakar oft næringarástandi fólks. Einmanaleiki, depurð og leiði eru algeng. Lyfjanotkun eykst, sérstaklega hjá konum.
    Námskeið til undirbúnings starfsloka hafa verið haldin „en margir eru tortryggnir á þau og halda að ýta eigi þeim út af vinnumarkaðinum“.
    Hvort heldur vinnulok verða við tilskilinn hámarksaldur eða fyrr leiða þau yfirleitt til skorts á verkefnum og óvirkni.
    Áður fyrr var rosknu fólki talið hollast að setjast í helgan stein og hvílast, en það kemur ekki heim við nútímalæknisfræðiþekkingu og verður að teljast með öllu úrelt stefna.

Líkamleg og andleg örvun.


    Til að fólk haldi líkamlegri og andlegri hæfni sem lengst er líkamleg og andleg örvun nauðsynleg, svo sem:
1.     skyn- og hreyfigetu (sjónar, heyrnar og líkamshreyfinga),
2.     andlegrar hæfni (minni hæfni til lausnar verkefna),
3.     félagslegrar og sálrænnar aðlögunarhæfni.
    Tamt er að líta á mannsævina sem göngu á fótinn framan af með sífellt aukinni getu, en síðan halli undan fæti þegar lengra líður. Mynd 1 tákngerir slíkt viðhorf.
    Vitað er að frumum líkamans fjölgar og þær stækka fram að kynþroska og e.t.v. að 20–25 ára aldri, en í sumum tilvikum fer þá þegar að draga úr stærð þeirra og fjölda. Niðurstöður langtímarannsókna, sem gerðar eru á mannslíkamanum með nútímatækni, sýna að þrátt fyrir það að viss rýrnun frumna líkamans byrji um 25 ára aldur eru breytingarnar litlar næstu 20 ár. Almennt benda rannsóknir til þess að breytingar á frumum líkamans með hækkandi aldri verði ekki verulegar fyrr en komið er yfir 65–75 ára aldur. Meira máli skiptir minnkun starfsgetu heldur en myndrænar (morfologiskar) breytingar. Mörg líffæri búa yfir mikilli aukagetu. Sum þeirra má skerða um 3/4 hluta án þess að nokkur greinileg starfsskerðing komi í ljós. Margs konar geta, sem skiptir okkur máli, nær hámarki um kynþroskaaldur en stendur síðan að mestu leyti óbreytt í langan tíma þar til hægfara skerðing verður með háum aldri, sbr. mynd 2.
    Það er mikilvægt að benda á að á sumum sviðum geta menn aukið hæfni sína á miðjum aldri og býsna lengi fram eftir ævinni, sbr. mynd 3. Þess háttar getuaukning á t.d. við um störf hugans — störf sem reyna á greind og sérstaklega ef reynsla skiptir þar máli.
    Það hefur oft komið í ljós að fram að 70 ára aldri er andleg hæfni flestra lítt eða ekki skert og má jafna við getu þrítugra eða fertugra. Þó verður að taka fram að snerpunni hrakar heldur.
    Rannsóknir á sjötugu fólki fyrir og eftir þjálfun sýna að þjálfun eykur ekki aðeins vöðvastyrk heldur aukast einnig meira viðbrögð skjótvirkra vöðvaþráða en hægvirkra.
    Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að með þjálfun hugans er hægt að hafa mælanleg áhrif á andlega getu, þ.e. þá getu sem menn búa yfir, sbr. mynd 4.

Annars konar geta.
    Líkamsþjálfun vinnur gegn aldursbreytingum í vöðvum og stoðkerfi. Hæfileg þjálfun getur hamlað beineyðingu og efnaskiptabreytingum.
    Þjálfun styrkir hjartavöðvann, þ.e. eykur slagrúmmál hjartans og þol.

Niðurstöður.
    Þótt heilsufar fólks 65–74 ára á Norðurlöndum hafi ekki versnað heldur mun frekar batnað hin síðari ár fer í vöxt að fólk láti af störfum jafnvel áður en eftirlaunaaldri er náð.
    Vinnulok við 65–70 ára aldur leiðir oft til stöðnunar og óvirkni. Slíkt er ekki læknisfræðilega réttlætanlegt eins og nú horfir við og leiðir oft til ótímabærrar hrörnunar og innlagna á stofnanir eins og mörg dæmi eru til um. Meðferð öldrunar er ekki algjör hvíld, heldur andleg og líkamleg örvun.

Tillaga.
    Eftirlaunaaldur á að vera sveigjanlegur og byggjast á læknisfræðilegu og félagsfræðilegu mati á starfsgetu og hæfni hvers og eins. Vitaskuld á ekki að skerða rétt manna til eftirlauna er þeir hafa áunnið sér. En það eru mannréttindi að halda óskertum starfsréttindum svo lengi sem hæfni og starfsorka leyfa.
    Æskilegt væri að eftirlaunaaldur verði mun sveigjanlegri en nú er, þ.e. að fólk geti valið um hvenær það hættir störfum á aldursbilinu 60–75 ára.

Tafla 2.

     1970        1980
    Fjöldi    á 10 5    Fjöldi    á 10 5    %
    ———    ——    ———    ——    —
Ísland (16–64)     5.212    62.0    5.727    54.0    -13.0
Danmörk 1) (15–66 2))     127.465    55.2    141.216    53.6    +1.6
Finnland (16–64)     172.405    81.4    243.300    109.5    +34.5
Noregur (15–64)     91.536    62.6    159.726    115.8    + 8.5
Svíþjóð (16–64)     163.072    47.8    293.334    78.2    +63.6

    1) 1981.
    2) Að frátöldum 60–64 ára.


Tafla 3.

    Á 10 5 íbúa
    65–74 ára         1971–1975    1976–1980
    ————         ————    ———-
    Ísland ................    3386.4    3022.0
    Danmörk ..............     4247.5    4174.2
    Finnland ..............     5498.0    5498.8
    Noregur ...............     3961.8    3801.8
    Svíþjóð ...............     3789.6    3735.7

Mynd 1.

(Línurit — myndað.)



Flestir halda að starfshæfni (S) minnki nokkuð hratt með aldrinum (A)


eins og myndin sýnir.



Mynd 2.

(Línurit — myndað.)



Líkamleg hæfni (S), t.d. vöðvastyrkleiki, nær að vísu hámarki


snemma á æviskeiðinu (A), en margs konar önnur hæfni er óbreytt lengi


uns hægfara hrörnun gerir vart við sig.



Mynd 3.

(Línurit — myndað.)



Í reynd eykst viss starfshæfni (S) með aldrinum (A),


t.d. sú er byggir á reynslu.



Mynd 4.

(Línurit — myndað.)


Það vill gleymast að starfshæfni (S) er hægt að bæta verulega með þjálfun


sé þess gætt í tíma (A).