Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 16 . mál.


16. Tillaga til þingsályktunar



um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að marka opinbera fjölskyldustefnu í samræmi við tillögur landsnefndar um „Ár fjölskyldunnar“ á grundvelli þeirra meginforsendna og viðfangsefna sem nánar er lýst í þingsályktun þessari. Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að vinna að því að styrkja stöðu íslenskra fjölskyldna með þeim aðgerðum sem kveðið er á um í ályktuninni.
    

I. KAFLI


Meginforsendur fjölskyldustefnu.


 1.1     Fjölskyldan er grunneining íslensks samfélags, hún er uppspretta lífsgilda og mikilvægur vettvangur til að varðveita og miðla menningarverðmætum. Þess vegna ber stjórnvöldum ævinlega að veita henni sérstaka athygli, styrkja hana og vernda, óháð því hver gerð hennar er. Í því skyni ber ríkisstjórn og sveitarstjórnum á hverjum tíma að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar.
 1.2     Opinber fjölskyldustefna hefur það markmið að styrkja og styðja fjölskylduna til að sinna hlutverki sínu í nútímaþjóðfélagi. Hlutverk fjölskyldunnar er margþætt og snertir flest svið þjóðlífsins. Því spannar fjölskyldustefna nánast öll viðfangsefni opinberrar stjórnsýslu. Áherslur á hverjum tíma skulu því taka mið af breytilegum þörfum fjölskyldunnar ásamt grundvallarverkefnum hennar.
 1.3     Fjölskyldustefna skal einkum taka mið af eftirfarandi meginforsendum:
             —    að stuðlað sé að því að fjölskyldan geti rækt það hlutverk að vera vettvangur tilfinningatengsla,
             —    að fjölskyldum sé gert kleift að annast uppeldi og umönnun barna þannig að þau fái notið öryggis og tækifæra til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta,
             —    að borin sé virðing fyrir rétti einstaklinga innan fjölskyldna, ekki síst barna, og gagnkvæmum skyldum þeirra,
             —    að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti kvenna og karla og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar.
    

II. KAFLI


Helstu viðfangsefni fjölskyldustefnu.


    Meginviðfangsefni fjölskyldustefnu skulu vera:
 2.1     Að sköpuð séu skilyrði til þess að ná jafnvægi milli atvinnu foreldra og fjölskyldulífs, einkum með tilliti til ábyrgðar og umönnunar barna.
 2.2     Að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar, taki mið af þörfum fjölskyldunnar, forðist að svipta hana ábyrgð en leitist þess í stað við að eiga við hana samvinnu.
 2.3     Að lögð sé aukin áhersla á ábyrgð feðra í umönnun og uppeldi barna sinna.
 2.4     Að afkomuöryggi fjölskyldunnar sem efnahagslegrar einingar sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.
 2.5     Að mikilvægi heilbrigðis fjölskyldunnar sé viðurkennt þannig að þjónusta á því sviði taki mið af þörfum hennar sem heildar jafnframt því að hún njóti stuðnings til að annast sjúka.
 2.6     Að stuðlað sé að fjölskylduáætlunum, m.a. með fræðslu og ráðgjöf um stofnun heimilis, ábyrgð foreldra, kynlíf, barneignir og getnaðarvarnir.
 2.7     Að tekið sé mið af fjölskyldunni við skipulag umhverfis og þörfum hennar fyrir þjónustu, útivist og umferðaröryggi.
 2.8     Að fjölskyldur fatlaðra njóti nauðsynlegs stuðnings og að grundvallarréttur fatlaðra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu sé virtur.
 2.9     Að fjölskyldur njóti stuðnings til að annast aldraða og að öldruðum sé gert kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið er.
2.10     Að fjölskyldur nýbúa fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi.
2.11     Að unnið sé gegn misrétti í garð fjölskyldna samkynhneigðra.
2.12     Að unnið sé gegn upplausn fjölskyldna, m.a. með fjölskylduráðgjöf vegna samskiptaerfiðleika og álags.
2.13     Að vernd einstakra fjölskyldumeðlima gagnvart ofbeldi og misnotkun verði efld, innan fjölskyldu sem utan.
2.14     Að fjölskyldan njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa, einkum á sviði forvarna.
2.15     Að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn.
2.16     Að auka vitund um mikilvægi fjölskyldunnar með gagnaöflun, rannsóknum og miðlun upplýsinga ásamt því að efla virðingu fyrir ólíkum gerðum hennar.
    

III. KAFLI


Aðgerðir í þágu fjölskyldunnar.


3.1 Fjölskylduráð.
    Undirbúin verði löggjöf sem kveði á um stofnun opinbers fjölskylduráðs sem hafi það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar. Fjölskylduráðið verði skipað 3–5 mönnum sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi, a.m.k. að hluta til. Félagsmálaráðherra skipar formann ráðsins og skal starfsemi þess heyra undir félagsmálaráðuneyti.
    Hlutverk fjölskylduráðs skal m.a. vera eftirfarandi:
    Að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum.
    Að annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldunnar með hliðsjón af heildarsýn yfir viðfangsefni einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar.
    Að hvetja óopinbera aðila til aðgerða á sviði fjölskyldumála.
    Að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
    
3.2 Sjóður um fjölskylduvernd.
    Stofnaður verði sjóður sem hafi það markmið að styrkja og stuðla að þróun fjölskyldumálefna. Tekjur hans skulu ákvarðaðar með árlegu framlagi úr ríkissjóði. Fjölskylduráð skal fara með stjórn sjóðs um fjölskylduvernd. Hlutverk hans verði eftirfarandi:
    Að veita fé til styrktar tilraunaverkefnum sem hafa það að markmiði að bæta þjónustu við fjölskylduna eða skilyrði hennar til að rækja hlutverk sitt.
    Að veita fé til rannsókna á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi er efnislega samhljóða tillögu sem félagsmálaráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, flutti vorið 1995 í nafni ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Hún var unnin á vegum landsnefndar um Ár fjölskyldunnar 1994 og var ætlað að marka lok þess. Nefndin var skipuð síðla árs 1991 í samræmi við samþykkt þáverandi ríkisstjórnar þar að lútandi. Nefndinni var m.a. ætlað að leggja fram tillögur að aðgerðum stjórnvalda í málefnum fjölskyldunnar á komandi árum og var þess vænst að þær fælu í sér grundvöll að mótun opinberrar fjölskyldustefnu með heildstæðum hætti. Landsnefndin var skipuð fulltrúum 30 félagasamtaka og stofnana, og var markmiðið með stofnun svo fjölmennrar nefndar að skapa víðtæka samstöðu um aðgerðir í tilefni ársins. Skýrsla um skipan og störf landsnefndarinnar er birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.
    Markmiðið með framlagningu þingsályktunartillögu þessarar er að stuðla að því að stjórnvöld á báðum stjórnsýslustigum marki opinbera fjölskyldustefnu sem taki á heildstæðan hátt til þeirra atriða sem hafa öðrum fremur þýðingu fyrir hagi og aðstæður íslenskra fjölskyldna. Þannig felst í þingsályktuninni hvatning til ríkisstjórna og sveitarstjórna að leggja fram stefnu eða skýr áform um með hvaða hætti megi búa í haginn fyrir fjölskylduna. Í fyrsta kafla ályktunarinnar er bent á nokkrar grundvallarforsendur sem slík stefnumótun þarf að taka mið af og líklegt þykir að almenn sátt ríki um. Í öðrum kafla eru sett fram nokkur mikilvæg viðfangsefni sem opinber fjölskyldustefna ætti einkum að taka til. Sú skrá er alls ekki tæmandi heldur er hugsunin sem býr að baki sú að draga fram þau atriði sem brýnt er að gaumur sé gefinn við ríkjandi þjóðfélagsaðstæður. Í þriðja kafla ályktunarinnar er aftur á móti mælt með að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd tilteknum aðgerðum í því skyni að styrkja stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi. Fjallað er nánar um einstaka kafla ályktunarinnar í seinni hluta þessara athugasemda en fyrst farið almennum orðum um mikilvægi fjölskyldustefnu. Rétt er að taka fram að þessar almennu athugasemdir eru að mestu byggðar á erindi Braga Guðbrandssonar, formanns landsnefndarinnar, sem birt er í ritinu „Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda“, en það hefur að geyma erindin sem flutt voru á málþingi sem markaði upphaf Árs fjölskyldunnar í byrjun árs 1994.
    Á hátíðarstundu er því gjarnan haldið fram að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins, kjölfestan í lífi mannsins og undirstaðan að farsæld og framtíð hverrar þjóðar. Því virðist liggja í augum uppi að stjórnvöld móti opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Engu að síður er það staðreynd að það hefur ekki verið gert. Enginn einn stjórnvaldshafi, ráðherra eða ráðuneyti ber ábyrgð á málum fjölskyldunnar öðrum fremur. Hagsmunir fjölskyldunnar virðast hvorki vera viðurkenndur sjónarhóll við lagasetningu né við ákvarðanir og afgreiðslur opinberrar stjórnsýslu. Þetta er einkum merkilegt í ljósi þess að opinberir aðilar hafa leitast við að marka stefnu í ýmsum málaflokkum öðrum og ekkert síður þeim sem vissulega hafa áhrif á aðstæður og afkomu fjölskyldunnar, t.d. í heilbrigðis- og menntamálum.
    Stjórnmálalegar ákvarðanir lúta að sjálfsögðu lögmálum síns tíma, nýjar þarfir og ný viðhorf koma sífellt fram í samræmi við breytingar á samfélagsgerð og lifnaðarháttum frá einum tíma til annars. Augljóst er að hið opinbera velferðarkerfi er hvorki niðurstaða meðvitaðrar né skipulegrar tilraunar stjórnvalda til að mæta þeim þörfum sem ríkja á líðandi stundu. Það hefur orðið til í tímans rás og grundvöllur þess raunar lagður við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú ríkja. Það blasir líka við að enda þótt velferðarkerfinu sé ætlað að bæta afkomu og treysta lífsgæði fjölskyldunnar eða einstakra meðlima hennar verður því tæplega haldið fram að fjölskyldan sé eða hafi verið í brennidepli þess. Raunar er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að sjónarmið heildarsýnar eru framandi í umræðum um velferðarkerfið þar sem aldrei hefur verið gerð tilraun til að meta það í heild eða leggja dóm á hvernig einstakir þættir þess spila saman. Þaðan af síður hefur verið gerð tilraun til að greina áhrif þess á fjölskylduna með tilliti til þeirra verkefna sem henni er ætlað að sinna í nútímaþjóðfélagi.
    Opinber umræða um velferðarkerfið hin síðari ár hefur fyrst og fremst snúist um kostnað þess. Þetta á ekki einungis við um Ísland heldur hefur það verið meginviðfangsefni stjórnvalda í hinum vestræna heimi að finna leiðir til að bregðast við alþjóðlegri efnahagslægð. Við þessar aðstæður hefur reynst örðugt að halda uppi óskertri velferðarþjónustu án þess að það komi fram í vaxandi fjárlagahalla og skuldasöfnun ríkisins. Viðbrögð stjórnvalda í flestum vestrænum iðnríkjum hafa því verið fólgin í niðurskurði á velferðarútgjöldum. Þannig hafa opinber útgjöld til velferðarmála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu skroppið umtalsvert saman sl. áratug hjá þeim flestum, t.d. í Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi, þótt dæmi séu um að tekist hafi að halda í horfinu, t.d. í Bandaríkjunum og Danmörku.
    Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af niðurskurði opinberra útgjalda frekar en aðrar þjóðir. Sparnaður í velferðarútgjöldum, einkum á sviði heilbrigðismála og almannatrygginga, hefur orðið tilefni snarpra deilna. Hvað sem líður réttmæti einstakra stjórnvaldsaðgerða hefur kreppan, sem velferðarkerfið og umræður um það eru komin í, komið áþreifanlega í ljós. Eitt aðaleinkenni þeirrar kreppu felst í því að velferðarkerfið og þar með þau málefni sem lúta að fjölskyldunni sérstaklega eru nánast eingöngu í brennidepli stjórnmálanna í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Væntanlega er það vegna þess að velferðin kostar mikið, of mikið séð frá bæjardyrum margra. Þetta veldur því að opinber umræða festist gjarnan í því fari að deilt er um í hverju það er fólgið að verja velferðarkerfið á tímum samdráttar: Er það fólgið í því að skera af því meint fitulag til að geta tryggt efnahagslega undirstöðu þess til framtíðar eða einfaldlega að standa vörð um það sem áunnist hefur?
    Þegar best lætur hefur verið rætt um endurmat á vissum grundvallarþáttum velferðarkerfis okkar, að slíkt endurmat sé nauðsynlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði og ekki síður vegna þess að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst frá því að grundvöllur þess var lagður. Komi til slíks endurmats er skynsamlegt að það fari fram undir formerkjum fjölskyldustefnu. Vandlega undirbúin stefna í fjölskyldumálum getur veitt dýrmæta leiðsögn um hvernig glíma eigi við ný viðfangsefni og vandamál sem þarf að finna lausn á í framtíðinni.
    Áður en hugtakið fjölskyldustefna er skilgreint er gagnlegt að fara nokkrum orðum um hugtakið „stefna“. Segja má að í stefnu felist val sem felur í sér að tekið sé mið af eftirsóknarverðum gildum eða markmiðum. Gagnstætt dægurflugum hafa þessi gildi varanleika og eru því hafin yfir stund og stað. Dæmi um slík gildi í þjóðfélagsstefnu eru „frelsi einstaklingsins“, „jafnrétti“, „réttlæti“ o.s.frv. Stefna felst því í kerfisbundnu vali sem er til þess fallið að hafa æskileg áhrif eða skapa eftirsóknarvert ástand. Um þetta kerfisbundna val verður að ríkja sátt sem felur í sér að valið sé niðurstaða ferlis þar sem fleiri en einn kemur að málum og jafnframt að það ferli lúti lýðræðislegum lögmálum. Að öðru jöfnu felst í stefnu einhvers konar forgangsröðun viðfangsefna þar sem sjaldnast er raunhæft að ætla að öll markmið náist í einu. Loks er mikilvægt að þau markmið, sem að er stefnt, njóti skilnings og viðurkenningar samfélagsins í meginatriðum ef takast á að hrinda stefnu í framkvæmd án verulegrar andstöðu.
    Hugtakið félagsmálastefna er algengara í stjórnmálaumræðu en fjölskyldustefna. Félagsmálastefna felst í markmiðum og gildum ásamt aðgerðum er varða tengsl einstaklinga og hópa í þjóðfélaginu. Þannig getur félagsmálastefna ýmist snúist um lausn tiltekinna vandamála og viðfangsefna sem tengjast ákveðnum þjóðfélagshópum, t.d. börnum, öldruðum, fátækum eða sjúkum. Yfirleitt fjallar félagsmálastefna um þarfir sem markaðurinn kemur ekki til móts við eða getur ekki fullnægt fyrir ákveðna þjóðfélagshópa. Þess vegna snýst hún ekki síst um tilfærslu verðmæta: annars vegar lóðrétt á milli einstakra tekjuhópa í þjóðfélaginu og hins vegar lárétt er varðar ráðstöfun þessara sömu verðmæta til hópa sem deila sambærilegum kjörum, t.d. þroskaheftra eða geðfatlaðra einstaklinga.
    Sé viðfangsefni félagsmálastefnu vandamál/þarfir einstaklinga og hópa í þjóðfélaginu liggur beinast við að skilgreina fjölskyldustefnu þannig að hún fjalli sérstaklega um þessi atriði. Í fljótu bragði séð virðist þetta leiða til þeirrar niðurstöðu að telja fjölskyldustefnu eins konar undirflokk félagsmálastefnu. Við nánari athugun kemur í ljós að það sjónarmið stenst ekki. Ástæðan er sú að fjölskyldan hefur algjöra sérstöðu sem félagshópur. Hún er grunneining þjóðfélagsins í þeim skilningi að hver einasti einstaklingur er, eða hefur verið, hluti af fjölskyldu enda þótt fjölskyldugerð og tengsl kunni að vera breytileg. Þess vegna gengur fjölskyldan þvert á önnur félagstengsl. Af þessu leiðir að félagslegt, efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt umhverfi orkar stöðugt á fjölskylduna. Telja verður því að opinber fjölskyldustefna taki til alls þess sem stjórnvöld gera fyrir eða við fjölskyldur, allra þeirra ákvarðana sem áhrif hafa á aðstæður hennar, afkomu og velferð. Ákvarðanir eða aðgerðir sem orka á innviði fjölskyldunnar eða innra umhverfi hennar, t.d. samskipti fjölskyldumeðlima og uppeldisstarf, skipta þar að sjálfsögðu ekki síður máli en ytra umhverfi. Þegar áhrif stjórnvaldsaðgerða eru metin gæti því verið gagnlegt að líta á hvort tveggja, fjölskylduna sem einingu í félagslegu umhverfi og ekki síður fjölskylduna sem félagslegt umhverfi einstaklingsins.
    Opinberar aðgerðir má meta eftir því hvort afleiðingar þeirra fyrir fjölskylduna eru tilætlaðar og fyrirséðar eða ófyrirséðar og jafnvel óvæntar. Opinber fjölskyldustefna getur ýmist verið yfirlýst stefna eða ekki. Segja má að hún sé yfirlýst þegar hún augljóslega beinist að því að styrkja fjölskylduna við verkefni sín eða vernda einstaka meðlimi hennar, t.d. fjölskylduráðgjöf, fjölskylduáætlanir eða barnavernd. Hins vegar getur fjölskyldustefna verið dulin, þ.e. haft veruleg áhrif á aðstæður fjölskyldna enda þótt slíkt sé ekki yfirlýstur tilgangur, t.d. hækkun meðlagsgreiðslna og brottflutningur fatlaðra og geðsjúkra af sólarhringsstofnunum. Flestar aðgerðir stjórnvalda eru af þessari tegundinni, þ.e. áhrif þeirra á fjölskylduna eru óbein.
    Aldrei hefur verið gerð úttekt á aðgerðum hins opinbera hérlendis, ríkis og sveitarfélaga, með tilliti til yfirlýstra markmiða er varða fjölskylduna og þaðan af síður hafa dulin áhrif stjórnvaldsaðgerða verið rannsökuð. Eins og fram hefur komið hafa opinberir aðilar ekki mótað fjölskyldustefnu og því er fátítt að hjá þeim gæti yfirlýstra fjölskyldumarkmiða þótt ekki sé það óþekkt. Hins vegar hefur hið opinbera ætíð dulda eða óopinbera stefnu í fjölskyldumálum.
    Það er niðurstaða landsnefndar um Ár fjölskyldunnar að þegar litið er yfir hið opinbera velferðarkerfi frá sjónarhóli fjölskyldunnar sé augljóst að hún skipar þar ákveðinn sess og tekið er tillit til hennar með margvíslegum hætti. Hitt er jafnljóst að engin heildarstefna í fjölskyldumálum er fyrir hendi þar sem einstakir þættir velferðarkerfisins eru skipulagðir miðað við önnur yfirlýst markmið en velferð fjölskyldunnar. Hinir einstöku þættir velferðarkerfisins beinast að tilteknum viðfangsefnum eða afmörkuðum hópum, svo sem nemendum, fötluðum eða sjúkum. Fjölskyldan verður því oft eins konar afgangsstærð og réttur hennar í reynd afleiddur af þeim markhópi sem um ræðir hverju sinni. Hinar bannhelgu línur, sem dregnar eru á milli einstakra þátta velferðarkerfisins, á milli landamæra ráðuneyta, á milli ríkis og sveitarfélaga, byrgja heildarsýn. Það kemur niður á sveigjanleika þess og getu til að mæta nýjum og breytilegum þörfum fjölskyldna. Auk þess geta aðgerðir stjórnvalda á einu sviði því auðveldlega valdið ófyrirséðum og óheppilegum breytingum á öðrum sviðum. Þegar velferð fjölskyldunnar er ekki yfirlýst markmið hins opinbera verður opinber umræða um fjölskylduna rýr þar sem farvegur fyrir þá umfjöllun er ekki fyrir hendi. Þannig er sjaldan spurt áleitinna spurninga um verkefni fjölskyldunnar. Enn síður er leitað svara við þeim með þeim hætti að hið opinbera geti mótað aðgerðir sínar í samræmi við þau svör. Úr þessu er þingsályktunartillögunni ætlað að bæta.

Athugasemdir við einstaka kafla þingsályktunartillögu þessarar.


Um I. kafla.


    Kaflinn hefur að geyma áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar sem grunneiningar samfélagsins. Vakin er athygli á því að þess vegna verðskuldar hún að stjórnvöld hlúi að henni með skipulögðum hætti með því að setja fram stefnu í málefnum hennar.
    Lögð er áhersla á að gerð fjölskyldna er ólík og að stjórnvöld geri ekki upp á milli fjölskyldugerða og að þær njóti jafnræðis. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á skilgreiningu landsnefndar um Ár fjölskyldunnar á fjölskyldunni en hún er svohljóðandi: „Fjölskyldan er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þeir eru skuldbundnir hver öðrum í siðferðilegri gagnkvæmri hollustu.“
    Í annarri málsgrein er fjallað um markmið fjölskyldustefnu sem er að styðja og styrkja fjölskylduna í verkefnum sínum. Sérstaða fjölskyldunnar sem félagslegar einingar er fólgin í því að hver einasti einstaklingur hefur frá fæðingu lifað og hrærst í fjölskylduumhverfi. Einstakir fjölskyldumeðlimir og fjölskyldan sem eining eiga samskipti við samfélagið og einstakar stofnanir þess. Þessi margþættu og órjúfanlegu tengsl fjölskyldu og samfélags valda því að það eru nánast engin takmörk sett fyrir umfangi þeirra viðfangsefna sem fjölskyldustefna tekur til. Þess vegna hlýtur það að vera breytilegt frá einum tíma til annars hvaða viðfangsefni og áherslur í fjölskyldumálum eiga við. Ræðst það m.a. af almennum sjónarmiðum, hugmyndum um forgangsröðun verkefna og breytilegum aðstæðum fjölskyldunnar.
    Þótt áherslur í fjölskyldustefnu hljóti að vera breytilegar frá einum tíma til annars eru vissar meginforsendur sem eðlilegt er að gengið sé út frá. Lúta þær ekki síst að þeim siðferðilega mælikvarða sem fjölskyldunni tengist og ætla verður að almennt sé sátt um. Í þriðju málsgrein eru fjögur atriði tilgreind og varða tvö þau fyrri grundvallarhlutverk fjölskyldunnar: fjölskylduna sem tilfinningalegt athvarf einstaklinga annars vegar og umönnunar- og uppeldishlutverk fjölskyldunnar hins vegar. Tvö síðari undirstöðuatriðin varða virðingu fyrir sjálfstæðum réttindum hvers einstaklings innan fjölskyldunnar og jafnrétti kvenna og karla.
    

Um II. kafla.


    Kaflinn hefur að geyma skrá yfir þau viðfangsefni sem að mati landsnefndar um Ár fjölskyldunnar eru einkar mikilvæg við mótun fjölskyldustefnu líðandi stundar. Þannig eru þau hugsuð sem leiðsögn en ber ekki að líta á þau sem tæmandi úttekt. Jafnframt er ástæða til að leggja áherslu á að enda þótt um sé að ræða viðfangsefni sem hafa tiltekin markmið verður nánari útfærsla þeirra og framkvæmd háð stjórnmálalegum ákvörðunum.
    Þau viðfangsefni, sem fjallað er um í þessum kafla, eru fæst ný og hafa flest verið til umræðu oft áður. Hins vegar hefur sjaldan verið gerð tilraun til að fjalla um þau út frá heildarsýn. Viðfangsefnin skýra sig að mestu sjálf. Viðfangsefni 2.1–2.3 eru almenns eðlis og lúta einkum að því að styrkja fjölskylduna til að sinna verkefnum sínum, ekki síst hvað varðar börn. Viðfangsefni 2.4–2.7 fjalla um atriði sem beinast að því að treysta farsæld fjölskyldunnar, einkum öryggi og afkomu. Viðfangsefni 2.8–2.11 víkja að stuðningi við fjölskyldur sem verðskulda að þeim sé gefinn gaumur vegna þarfa fyrir sérstakan stuðning (fatlaðir, aldraðir) eða vegna þess að staða þeirra er veik og hana þarf að styrkja (nýbúar, samkynhneigðir). Viðfangsefni 2.12–2.14 taka til þeirra þátta sem einkum ógna velferð fjölskyldunnar eða einstakra fjölskyldumeðlima, svo sem samskiptaerfiðleika, ofbeldis eða fíkniefnaneyslu. Loks miða viðfangsefni 2.15–2.16 að því að efla skilning á mikilvægi fjölskyldunnar, virðingu fyrir ólíkum fjölskyldugerðum og þörf fyrir rannsóknir í fjölskyldumálum.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla eru lagðar fram tvær tillögur um aðgerðir af hálfu stjórnvalda: undirbúin sé lagasetning um stofnun fjölskylduráðs annars vegar og sjóðs um fjölskylduvernd hins vegar.
    Hugsunin, sem liggur að baki fjölskylduráði ríkisins, er að stjórnvöld á hverjum tíma hafi aðgang að ráðgjafarnefnd sem sé þeim til ráðuneytis í málefnum fjölskyldunnar. Jafnframt er fjölskylduráðinu ætlað að hafa frumkvæði að því að vekja athygli á æskilegum úrbótum er varða fjölskylduna og viðhalda umræðu um stöðu hennar í samfélaginu. Þetta skal m.a. gera með því að hvetja einkaaðila og félagasamtök til að láta málefni fjölskyldunnar til sín taka og jafnframt að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
    Rétt er að leggja sérstaka áherslu á að fjölskylduráðinu er ætlað að gera tillögur að framkvæmdaáætlun í fjölskyldumálum í samráði við einstök ráðuneyti, sambærilega við þá sem gerð hefur verið í jafnréttismálum. Þannig er ráðinu ætlað að hafa heildarsýn yfir málefni fjölskyldunnar og er hér um mjög mikilvægt atriði að ræða því eins og fyrr er getið um deilast verkefnin ýmist á ólík fagráðuneyti eða á milli ríkis og sveitarfélaga.
    Gert er ráð fyrir að fjölskylduráðið skipi allt að fimm menn sem kosnir séu hlutfallskosningu af Alþingi, a.m.k. að hluta. Til greina kemur t.d. að Háskóli Íslands tilnefni mann í ráðið í því skyni að treysta fræðilegan grunn ráðsins, svo og að auðvelda því að sinna rannsóknarhlutverki sínu. Þá er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi formann og að fjölskylduráðið starfi á vegum félagsmálaráðuneytis. Slík ráðstöfun felur í sér að félagsmálaráðherra og félagsmálaráðuneytið beri meiri ábyrgð en aðrir handhafar framkvæmdarvaldsins á málefnum fjölskyldunnar.
    Stofnun sjóðs, sem hafi það hlutverk að stuðla að og styrkja þróunarverkefni og rannsóknir á sviði fjölskyldumála, er mjög tímabær. Afar fáar rannsóknir hafa verið gerðar á högum íslenskra fjölskyldna. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á þetta atriði í tilmælum sínum til aðildarríkjanna á Ári fjölskyldunnar. Af þessu tilefni ákvað landsnefndin að verja stærstum hluta þess fjármagns sem nefndin hafði til ráðstöfunar til viðamikillar rannsóknar á aðstæðum íslenskra barnafjölskyldna. Niðurstöður hennar munu birtar fljótlega.
    Mikið skortir á að fjölskyldur eigi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, einkum á sviði fjölskylduráðgjafar. Fjölskylduráðgjöf miðar að því að styðja fjölskylduna á álagstímum og tekur hún m.a. til ráðgjafar í uppeldismálum, samskiptaerfiðleikum og skilnaðarmálum. Á fjárlögum ársins 1994 var af tilefni Árs fjölskyldunnar veitt fé til fjölskylduþjónustu. Að tilmælum landsnefndarinnar var stærstum hluta þess fjármagns veitt til tilraunaverkefna í fjölskylduráðgjöf á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði. Mjög æskilegt er að framhald verði á þessum stuðningi og að hann taki til samvinnuverkefna fleiri sveitarfélaga.



Fylgiskjal.


Félagsmálaráðuneytið:

Lokaskýrsla landsnefndar um ár fjölskyldunnar 1994,


(Janúar 1995.)



(Repró, 29 síður.)