Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 510. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 991  —  510. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um vísindarannsóknir og kynjahlutfall

    Fyrirspurnin hljóðar svo.
    Hversu margir og háir hafa styrkir úr sjóðum Rannís verið síðasta áratuginn og hvernig hafa þeir skipst milli karla og kvenna? Svar óskast sundurliðað eftir raunvísindum annars vegar og félags- og hugvísindum hins vegar.

    Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, hefur með höndum daglega umsýslu helstu samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækni. Þeir sjóðir sem eru vistaðir hjá Rannís og heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti eru Rannsóknasjóður, sem er þeirra langstærstur, Rannsóknanámssjóður, Tækjasjóður og Markáætlun á sviði vísinda og tækni.
    Árið 2003 var gerð breyting á stuðningskerfi við vísindarannsóknir. Þá voru felld úr gildi lög um Rannsóknarráð Íslands frá árinu 1994 og samþykkt lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, og lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Gerðar voru breytingar á helstu sjóðum sem veita styrki til vísindarannsókna. Rannsóknasjóður tók þar við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem starfaði samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands en Tækjasjóður tók við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum.
    Tölur fyrir og eftir kerfisbreytinguna 2003/2004 eru ekki sambærilegar og því eru tölur hér gefnar upp fyrir árin 2004–2010. Eftirfarandi svar á við Rannsóknasjóð. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
    Óskað er eftir sundurliðun eftir raunvísindum annars vegar og félags- og hugvísindum hins vegar en fagráð Rannsóknasjóðs eru fjögur, verkfræði, tækni- og raunvísindi, náttúru- og umhverfisvísindi, heilbrigðis- og lífvísindi og félags- og hugvísindi og eru úthlutanir aðgreindar eftir þeim.
    Vert er að geta þess að einn verkefnisstjóri er skráður fyrir hverju verkefni en meðumsækjendur eru ekki taldir með í greiningu á kynjahlutfalli.

     I.     Fjöldi styrkja úr Rannsóknasjóði 2004–2010, skipting milli karla og kvenna og milli fagsviða.
    Heildarfjöldi veittra styrkja fyrir ný verkefni úr Rannsóknasjóði á árunum 2004–2010 var 479. Þar af voru 328 styrkir veittir til verkefnisstjóra sem eru karlar en 151 til kvenna (sjá töflu hér á eftir og mynd).

Rannsóknasjóður – veittir styrkir og kyn verkefnisstjóra 2004–2010
Fagráð Karlar % Konur % Alls
Verkfræði, tækni- og raunvísindi 90 89,1 11 10,9 101
Náttúru- og umhverfisvísindi 91 74,0 32 26,0 123
Heilbrigðis- og lífvísindi 68 57,6 50 42,4 118
Félags- og hugvísindi 79 57,7 58 42,3 137
Samtals: 328 68,5 151 31,5 479


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1: Kyn verkefnisstjóra á styrktum umsóknum 2004–2010



    Hins vegar er vert að geta þess að árangurshlutfall kvenna er sama og karla í Rannsóknarsjóði (þ.e. hversu hátt hlutfall umsækjenda fær styrk). Á árunum 2004–010 voru alls 1.224 karlar (67,8%) af 1.804 skráðum verkefnisstjórum á nýjum umsóknum í Rannsóknasjóð og 508 konur (32,2%). Karlar fengu úthlutað 328 nýjum styrkjum (26,8% árangurshlutfall) en konur 151 nýjum styrk (26,0% árangurshlutfall). Það er því ekki munur á árangri karla og kvenna í Rannsóknasjóði en hins vegar er það staðreynd að færri konur sækja í sjóðinn en karlar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hyggst framkvæma tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn á þessu sviði, m.a. til að greina ástæður þess að færri konur sækja í sjóðina en karlar.

    II.    Upphæð styrkja úr Rannsóknasjóði 2004-2010, skipting milli karla og kvenna og fagsviða:
    Eftirfarandi tafla sýnir upphæðir nýrra styrkja úr Rannsóknasjóði og kyn verkefnisstjóra, ásamt skiptingu eftir fagsviðum.

Rannsóknasjóður – upphæðir nýrra styrkja og kyn verkefnisstjóra 2004-2010
Fagráð Karlar % Konur % Alls
Verkfræði, tækni- og raunvísindi 413.367 93,2 30.205 6,8 443.572
Náttúru- og umhverfisvísindi 310.600 71,9 121.097 28,1 431.697
Heilbrigðis- og lífvísindi 275.607 60,6 179.500 39,4 455.107
Félags- og hugvísindi 251.351 60,5 163.861 39,5 415.212
Samtals: 1.250.925 68,5 494.663 28,3 1.745.588


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2: Kyn verkefnisstjóra og upphæð styrkja á styrktum umsóknum 2004–2010.