Ferill 1130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2051  —  1130. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna framhalds á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjármála- og efnahagsráðherra, fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuteymi Grindavíkur, hópi forsvarsmanna fyrirtækja í Grindavík, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Ísfélagi Grindavíkur, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Nefndinni bárust 46 umsagnir og minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem eru aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem fela í sér stuðningsaðgerðir sem ætlað er að mæta vanda heimila og rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga. Í fyrsta lagi felur frumvarpið í sér tillögu um að gildistími laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 15/2024, verði framlengdur út árið 2024. Jafnframt er lagt til að styrkfjárhæðir geti orðið umtalsvert hærri fyrir tímabilið frá júlí 2024 til og með desember 2024. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita sérstakan húsnæðisstuðning út árið á grundvelli laga um sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023. Loks er í þriðja lagi lagt til að það tímabil sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, er ætlað að ná til verði framlengt til 31. ágúst 2024.

Umfjöllun.
Frysting lána fyrirtækja í Grindavík.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að frysta þyrfti lán sem hvíla á fyrirtækjum sem staðsett eru í Grindavík. Í því sambandi var bent á að mörg þeirra glímdu við mikinn rekstrarvanda vegna náttúruhamfaranna en gætu síðar hafið rekstur að nýju. Meiri hlutinn bendir á að lánasamningar milli fyrirtækja og lánastofnana eru einkaréttarlegir samningar og kröfur samkvæmt þeim eru eign sem varin eru af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar. Með hliðsjón af þessu er íhlutun stjórnvalda í þessum málum vandasöm. Meiri hlutinn hvetur stjórnvöld til viðræðna við lánastofnanir fyrirtækja í Grindavík með það að markmiði að leita mögulegra lausna fyrir þau.

Rekstrarráðgjöf fyrir fyrirtæki í Grindavík.
    Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ kom fram að rekstrarstyrkir myndu nýtast best litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Grindavík. Þau væru meginþorri fyrirtækja í Grindavíkurbæ samkvæmt gögnum Skattsins, en 85% rekstraraðila þar hefðu færri en 10 starfsmenn, eða 120 einyrkjar og 55 fyrirtæki með samtals 340 starfsmenn. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu höfðu aðeins 27 fyrirtæki sótt um rekstrarstuðning 23. maí, en umsóknarfrestur er út september. Nam greiddur styrkur alls 142 millj. kr. Upphaflega hafi hins vegar verið gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna styrksins gæti numið allt að 1,6 milljörðum kr. Mun færri fyrirtæki hafi nýtt sér styrkinn til þessa en eigi rétt á honum. Einnig segir í greinargerð að fram hafi komið í viðhorfskönnunum að mörg fyrirtæki sem eigi tilkall til styrksins hafi ekki enn sótt um hann en hyggist gera það. Þá kemur fram að sum fyrirtæki hafi ekki vitað um tilvist hans. Í minnisblaði ráðuneytis er bent á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Skattinum ber þannig nú þegar að veita fyrirtækjum nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar í tengslum við stuðning samkvæmt lögum nr. 15/2024. Þá telur ráðuneytið í minnisblaði sínu að helst komi til greina að fela framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ að halda utan um rekstrarráðgjöf, en lögin sem um hana gilda, nr. 40/2024, eru á forræði innviðaráðuneytis.
    Með hliðsjón af þessu vill meiri hlutinn beina því til stjórnvalda að kanna hvort hægt sé að bjóða fyrirtækjum í Grindavík upp á endurgjaldslausa óháða rekstrarráðgjöf í afmarkaðan tíma. Rekstraraðilar í Grindavík hafa á undanförnum mánuðum orðið fyrir endurteknum áföllum vegna náttúruhamfaranna. Bolmagn þeirra kann að vera takmarkað við þessar aðstæður og fagleg rekstrarráðgjöf mögulega til þess fallin að styðja við ákvarðanatöku.

Heimild Skattsins til að meta málsatvik heildstætt.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram ábending um að mikilvægt væri að lögfesta heimild fyrir Skattinn til að leggja heildstætt mat á málsatvik þegar metið væri hvort skilyrði 4. gr. laganna um fjárhagsstuðning væru uppfyllt. Þannig þyrfti frumvarpið að kveða á um undanþáguákvæði sem túlka bæri þröngt en ætti við í sérstökum tilvikum.
    Í minnisblaði ráðuneytis kemur fram að Skatturinn sé stjórnvald sem framkvæmir lög, m.a. með því að meta hvort skilyrði sem fram koma í lögum séu uppfyllt. Honum ber nú þegar að taka mið af þeim málsatvikum sem máli skipti við það mat. Að mati ráðuneytisins hefur það enga beina þýðingu að mæla fyrir um að Skatturinn skuli meta heildstætt hvort rekstraraðili eigi rétt á stuðningi vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Það sé hlutverk löggjafans en ekki Skattsins að ákvarða við hvaða aðstæður eigi að veita stuðning. Meiri hlutinn telur því ekki unnt að heimila Skattinum að víkja frá skilyrðum 4. gr. laganna án þess að það sé tilgreint við hvaða aðstæður það skuli gert.

Leigustyrkir.
    Í umsögn atvinnuteymis Grindavíkur er lagt til nýtt stuðningsúrræði fyrir fyrirtæki í Grindavík. Úrræðið felur í sér að fyrirtæki sem á fasteign sem notuð hefur verið í rekstri þess í Grindavík gæti leigt ríkinu eignina með þeim skilyrðum að leigutekjurnar yrðu notaðar til greiðslu á leigu atvinnuhúsnæðis í öðru sveitarfélagi. Hugmyndinni er ætlað að koma til móts við fyrirtæki sem eru í þeirri stöðu að eigið fé þeirra er að mestu bundið í atvinnuhúsnæði. Í minnisblaði ráðuneytis kemur fram að lög nr. 15/2024 setja nýtingu rekstrarstuðnings engin takmörk, utan þess að almennt ber að endurgreiða stuðninginn ef fyrirtæki ráðstafar fé til eigenda öðruvísi en í formi launa. Fyrirtæki geta nýtt stuðninginn til að greiða leigu utan Grindavíkur komi til þess að þau taki á leigu húsnæði í öðru sveitarfélagi. Að mati ráðuneytisins er hagkvæmara að fyrirtæki geti ráðstafað stuðningi eins og það telur æskilegt í stað þess að binda hann við tiltekna kostnaðarliði á borð við greidda leigu. Jafnframt kemur fram að nærtækast væri að mæla fyrir um slíkan stuðning í sérstökum heildarlögum frekar en með breytingu á lögum um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
    Meiri hlutinn hvetur stjórnvöld til að skoða þessa tillögu frekar og meta hvort það gæti verið kostur til að koma frekar til móts við fyrirtæki frá Grindavík. Þá tekur meiri hlutinn undir með ráðuneytinu að slíkt ætti frekar heima í sérstakri löggjöf í ljósi þess að í frumvarp þetta afmarkast samkvæmt efni sínu við framhald aðgerða sem þegar hafa verið lögfestar.

Fyrirtæki sem ekki geta fært eignir.
    Í skýrslu Deloitte frá 14. maí sl. um kostnaðar- og ábatagreiningu vegna innviða og atvinnulífs í Grindavík kom fram að 2% fyrirtækja í Grindavík hafa þurft að hætta rekstri og ekki væri hægt að færa eignir, svo sem gistiheimili og veitingahús. Fyrirtæki sem falla undir þessa skilgreiningu hafa lýst aðstæðum sínum í umsögnum til nefndarinnar og flest kallað eftir því að atvinnuhúsnæði í Grindavík verði keypt upp af ríkinu, rétt eins og íbúðarhúsnæði einstaklinga á grundvelli laga nr. 16/2024.
    Meiri hlutinn vísar til minnisblaðs ráðuneytis þar sem fram kemur að þau úrræði sem bjóðist þessum fyrirtækjum eru: stuðningur til greiðslu launa, samkvæmt lögum nr. 87/2023, rekstrarstuðningur samkvæmt lögum nr. 15/2024 og heimildir til að fresta greiðslu opinberra gjalda. Þá getur launakostnaður sem ekki fæst greiddur úr ríkissjóði gegnum úrræðið samkvæmt lögum nr. 87/2023 talist til rekstrarkostnaðar samkvæmt lögum nr. 15/2024. Jafnframt bendir ráðuneytið á að þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin tilkynnt að hún sé með í undirbúningi lagafrumvarp sem muni fela í sér að rekstraraðilum í Grindavík gefist kostur á að taka stuðningslán hjá fjármálafyrirtækjum með ábyrgð ríkissjóðs. Stefnt sé á framlagningu frumvarpsins í haust. Loks er tekið fram að ef rekstraraðilar sem selja veitingar sjá möguleika á að hefja starfsemi í Grindavík gætu þeir átt rétt á styrk úr Afurðasjóði Grindavíkurbæjar.

Rekstrarstuðningur fyrir fyrirtæki sem ekki eru með skráða starfsmenn.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að fyrirtæki sem ekki eru með skráða starfsmenn eigi rétt á rekstrarstuðningi eins og um væri að ræða fyrirtæki með einn starfsmann. Í umsögnum um málið kom fram að fyrirtæki sem sannanlega hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli en eru ekki með skráða starfsmenn á launaskrá geti ekki nýtt sér rekstrarstuðning. Margar ástæður kunna að liggja að baki því að rekstraraðili sé ekki með starfsfólk á launaskrá. Til að mynda félag sem er að koma undir sig fótunum og tekjur leyfa ekki að eigandi þess greiði sér laun. Algengt er að við framkvæmdir af ýmsu tagi sé fjárbinding og skuldsetning sett í sérstakt félag sem svo kaupi vinnu af verktökum sem svo er eignfært. Þegar framkvæmdum er lokið er eign seld og félagið gert upp. Í vöruþróun og nýsköpun er það oft í sérstökum félögum sem kaupa sérfræðiþekkingu úr ólíkum áttum og ekki fyrr en þeim fasa er lokið að farið er að taka inn starfsmenn á launaskrá. Meiri hlutinn telur mikilvægt að stjórnvöld kanni hvort unnt sé að koma til móts við vanda þessara fyrirtækja.

Breytingartillögur.
Afturvirk hækkun styrkfjárhæðar.
    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Gildistími úrræðisins samkvæmt lögunum er frá upphafi jarðhræringa í nóvember 2023 og út júní 2024. Í a-lið 1. gr frumvarpsins er lagt til að gildistíminn verði framlengdur til og með desember 2024.
    Einnig eru lagðar til ýmsar breytingar sem leiða til hækkunar á styrkfjárhæð fyrir tímabilið júlí til desember 2024. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarkstekjufallsviðmið til að geta notið stuðnings fyrir umrætt tímabili verði 20% í stað 40%. Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði á tímabilinu að miða útreikning styrkfjárhæðar við þann fjölda stöðugilda hjá rekstraraðilum sem var við upphaf jarðhræringa í nóvember 2023. Í þriðja lagi er lagt til að vegna tímabilsins skuli reikna rekstraraðila hámarksstyrk þá mánuði sem tekjufall er 50% eða meira samanborið við sama almanaksmánuð árið á undan.
    Í umsögn atvinnuteymis Grindavíkur segir að þegar frumvarpið var kynnt á samráðsfundi atvinnuteymis með fyrirtækjum í Grindavík komu fram athugasemdir um að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þyrftu að gilda afturvirkt. Jafnframt kom fram að endurskoðun umsókna sem þegar hafa hlotið afgreiðslu yrði ekki umfangsmikil þar sem aðeins sé um að ræða um þrjátíu lögaðila. Að lokum sagði að helsti ágallinn á útfærslu rekstrarstuðnings væri að hann styddist eingöngu við tekjufall rekstraraðila en ekkert tillit væri tekið til kostnaðar sem væri í rekstrinum. Fyrirtæki eiga misjafnlega auðvelt með að bregðast við og lækka kostnað. Tiltölulega lítið tekjufall kann að skaða sum fyrirtæki meira en önnur ef kostnaður er fastur enda tekur þá lengri tíma að bregðast við.
    Meiri hlutinn leggur til að þessi atriði sem leiða til hækkunar á fjárhæð rekstrarstyrks til fyrirtækja gildi afturvirkt frá nóvember 2023. Með þessari ívilnun er komið betur til móts við fyrirtæki í Grindavík og tekið mið af því að þau hafa þurft að bera aukinn rekstrarkostnað vegna náttúruhamfaranna samhliða tekjufalli. Að þessu gættu vill meiri hlutinn leggja til nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að Skatturinn skuli endurákvarða þegar ákvarðaðan rekstrarstuðning samkvæmt lögum nr. 15/2024 fyrir almanaksmánuðina nóvember 2023 til og með júní 2024 ef umrædd afturvirkni leiði til þess að rekstraraðili eigi rétt á meiri stuðningi en honum var ákvarðaður. Með þessu móti er ekki gerð krafa um að rekstraraðilar sæki um leiðréttingu á þegar ákvörðuðum rekstrarstuðningi í ljósi ívilnandi hækkana á rekstrarstuðningi sem gilda afturvirkt frá nóvember 2023. Þá vill meiri hlutinn árétta að rekstrarstuðningur verður ekki endurákvarðaður til lækkunar á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, til að mynda í tilviki rekstraraðila sem voru með fleiri stöðugildi í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar heldur en nóvember 2023. Aftur á móti þurfa þau fyrirtæki sem nú, í ljósi breyttra viðmiða, uppfylla skilyrði rekstrarstuðnings að sækja um til Skattsins, sbr. 6. gr. laganna.
    Í minnisblaði ráðuneytis er fjallað um kostnaðarmat þessara breytingartillagna. Byggist það á upplýsingum um veltu fyrirtækja í Grindavík í janúar og febrúar árin 2023 og 2024. Upplýsingar liggja fyrir um veltu 172 fyrirtækja. Af þeim er tekjufall yfir 20% hjá 96 fyrirtækjum (56%) og yfir 40% hjá 77 fyrirtækjum (45%). Fullnýting rekstrarstuðnings kostar 166 millj. kr. á mánuði miðað við skilyrði frumvarps til fjáraukalaga IV en kostaði áður 130 millj. kr. á mánuði þegar skilyrði um tekjufall var 40% og upphæð styrks var alltaf línulegt fall af tekjufalli viðkomandi rekstraraðila. Ráðuneytið áætlar því að afturvirkni rekstrarstuðnings fyrir tímabilið nóvember 2023 til og með júní 2024 gæti kostað ríkissjóð 290 millj. kr. eða 36 millj. kr. á mánuði. Samsvarar það ríflega 25% hækkun frá fyrra kostnaðarmati. Þá bendir ráðuneytið á að nýting úrræðisins í dag nemur aðeins litlum hluta af því sem ætla mátti miðað við upplýsingar um veltu fyrirtækja í upphafi árs. Að lokum tekur ráðuneytið fram að áhrifamatið geri ráð fyrir því að fyrirtæki fái greiddan hámarksstyrk miðað við fjölda stöðugilda og tekjufall en í raun getur styrkur aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur rekstrarkostnaði umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til ítarlegri umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytis.

Umsóknarfrestur fyrir sérstakan húsnæðisstuðning.
    Þegar lögin tóku upphaflega gildi var mælt fyrir um þriggja mánaða umsóknarfrest um sérstakan húsnæðisstuðning. Með breytingalögum nr. 5/2024 láðist að mæla fyrir um þriggja mánaða umsóknarfrest og varð hann þarf af leiðandi einn mánuður. Meiri hlutinn leggur til að úr þessu verði bætti þannig að umsóknarfrestur verði til 31. mars 2025. Með því verður hann aftur þrír mánuðir eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      B-liður orðist svo: Í stað „40%“ í 1. málsl. 2. tölul. kemur: 20%.
                  b.      C-liður falli brott.
     2.      Við 2. gr
                  a.      A-liður orðist svo: Í stað orðanna „þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar“ í b-lið kemur: nóvember 2023.
                  b.      Orðin „vegna rekstrarstuðnings fyrir almanaksmánuðina júlí til og með desember 2024“ í b-lið falli brott.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: Í stað orðanna „30. september 2024“ kemur: 31. mars 2025.
                  b.      B-liður falli brott.
     4.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Skatturinn skal endurákvarða þegar ákvarðaðan rekstrarstuðning samkvæmt lögum nr. 15/2024 fyrir almanaksmánuðina nóvember 2023 til og með júní 2024 ef lög þessi leiða til þess að rekstraraðili hafi átt rétt á meiri stuðningi en honum var ákvarðaður.
     5.      Í stað orðanna „31. janúar 2025“ í 5. gr. komi: 31. mars 2025.

Alþingi, 21. júní 2024.

Ágúst Bjarni Garðarsson,
1. varaform.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
frsm.
Sigríður Elín Sigurðardóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.