Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 616. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 920  —  616. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Flm.: Jón Bjarnason.



1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sami aðili getur að hámarki verið handhafi réttar til beingreiðslna sem svara til 1% af heildargreiðslumarki. Einkahlutafélag getur því aðeins verið handhafi réttar til beingreiðslna samkvæmt greiðslumarki að ábúandi á viðkomandi lögbýli eigi að minnsta kosti 10% hlutafjár og fari með að minnsta kosti 50% atkvæða í félaginu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á árunum 1996–2004 fækkaði kúabúum á Íslandi úr 1.291 í 854 eða um 34%. Meðalframleiðsla á bú jókst á sama tíma um 67%. Þessari þróun hefur fylgt mikil tilfærsla á greiðslumarki í mjólkurframleiðslu og verð á greiðslumarki hefur að sama skapi hækkað gífurlega á síðustu árum. Mesta hreyfingin á greiðslumarkinu er á hjá stærri búunum, eins og sést á því að í árslok 2003 voru þau 140 kúabú sem höfðu hvorki keypt né selt greiðslumark frá árinu 1992 að meðaltali með rúmlega 65.000 lítra, sem er rétt rúmlega helmingur af framleiðslu meðalbúsins árið 2003. Þá var enn um fjórðungur kúabænda í landinu með greiðslumark innan við 100.000 lítra. Af þessu sést greinilega að það eru stærri búin sem stækka mest.
    Margar ástæður eru fyrir samþjöppun undanfarinna 10–12 ára á greiðslumarki í mjólk. Þar má nefna kröfur um hagræðingu, ný viðhorf til aðbúnaðar búfjár, auknar gæðakröfur til mjólkurframleiðenda, fólksfækkun í sveitum, fækkun mjólkursamlaga, vélvæðingu í búskap og, síðast en ekki síst, hið geysiháa verð á greiðslumarki og hækkandi verð á bújörðum á frjálsum markaði.
    Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að réttur til beingreiðslna vegna mjólkurframleiðslu er takmörkuð auðlind. Mikil eftirspurn og hátt verð hafa að undanförnu breytt miklu um möguleika þeirra sem vilja starfa við kúabúskap til að hasla sér völl í greininni. Ekki er einungis að nýliðun sé nær útilokuð, svo mikið fjármagn þarf til að bæta verulega við greiðslumark hvers starfandi bús að sífellt færri eiga þess kost nema með mikilli skuldsetningu. Þróunin minnir því óneitanlega sífellt meir á framvindu mála í sjávarútvegi eftir að verslun með aflamark var gefin frjáls. Ekki þarf að tíunda hér þær harðvítugu deilur sem urðu um eignarhald á veiðiheimildum í sjávarútvegi og eru í raun enn óleystar.
    Ljóst er að viðlíka ástand í landbúnaði mundi gerbreyta viðhorfum landsmanna til stuðnings við innlenda framleiðslu. Sú bærilega sátt sem hefur til þessa ríkt um íslenskan landbúnað vegna atvinnu-, byggða- og öryggissjónarmiða hvílir fyrst og síðast á þeim grunni að framleiðslan sé á höndum fjölskyldubúa en ekki verksmiðjubúa, sem þekkt eru frá öðrum löndum.
    Jafnframt liggur í augum uppi að þróun mjólkurframleiðslunnar í átt til færri og stærri búa fylgir vaxandi áhætta eftir því sem hún gengur lengra. Áföll af einhverju tagi hjá örfáum stórframleiðendum geta sett framboð á innlendum mjólkurvörum í uppnám þegar einstök bú standa undir mjög stórum hluta mjólkurframleiðslunnar í landinu.
    Hér er lagt til að sami handhafi geti að hámarki farið með 1% af heildargreiðslumarki. Velta má fyrir sér hversu hátt slíkt hlutfall á að vera. Markmið frumvarpsins er að takmarka samþjöppun á rétti til beingreiðslna og koma í veg fyrir að hátt verð á greiðslumarki geri minni framleiðendum ókleift að stækka við sig. Enn fremur að stuðla að því að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til að treysta undirstöður búvöruframleiðslunnar, byggð og atvinnulíf í dreifbýli skili sér til starfandi bænda en séu ekki teknir til annarra nota af kaupsýslumönnum.
    Þessi mál hafa mjög verið til umræðu meðal bænda og má í því sambandi benda á erindi Búnaðarsambands Skagfirðinga og Svínaræktarfélags Íslands til Búnaðarþings árið 2004. Búnaðarþing ályktaði þá sérstaklega um ákveðna þætti þessa máls, sbr. fylgiskjöl.



Fylgiskjal I.


Búnaðarsamband Skagfirðinga:

Erindi til Búnaðarþings.


(Janúar 2004.)



    Bændafundur haldinn í Svaðastöðum, 21. janúar 2004, beinir eftirfarandi til búnaðarþings og búgreinafélaga:
    Nú liggur fyrir að gera og/eða endurskoða samninga um rekstrarumhverfi fyrir nautgriparækt, sauðfjárrækt og loðdýrarækt. Í þeirri samningagerð telur fundurinn að megin markmið eigi að vera:
     1.      Að það fjármagn sem ríkið leggur fram verði notað til að viðhalda og efla byggð í sveitum landsins.
     2.      Stuðla að því að fjármagnið renni til framleiðslunnar á hverjum tíma og verði raunverulegar tekjur fyrir starfandi bændur.


Fylgiskjal II.
    

Svínaræktarfélag Íslands:

Erindi til Búnaðarþings.

(Mars 2004.)



    Framleiðsluöryggi, samkeppni og sjálfbær þróun í íslenskum landbúnaði:
    Búnaðarþing 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnvalda að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði kjötframleiðslunnar í landinu. Markmiðið verði að leita leiða til að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslensk kjötframleiðsla verði rekin á forsendum sjálfbærrar þróunar og að framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi og lágmarkssamkeppnisskilyrði. Reynt verði að finna leiðir til að hindra fákeppni í kjötframleiðslu hér á landi.
    Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:
     1.      Að sett verði þak á hámarkshlutdeild hverrar framleiðslueiningar innan sömu framleiðslugreinar, í því skyni að ná fram markmiðum um framleiðsluöryggi og til að hindra fákeppni.
     2.      Að komið verði á fót sérstöku innra eftirliti með því að vara sé ekki seld langtímum saman undir sannanlegu kostnaðarverði. Jafnframt verði hugað að breytingum á samkeppnislögum í sama tilgangi.
     3.      Að öll kjötframleiðsla í landinu lúti sömu grundvallarskilyrðum varðandi starfsleyfi.
     4.      Að skilyrði verði sett í starfsleyfi bús, um að það hafi yfir að ráða nægilega stóru landi til að dreifa á búfjáráburði, í samræmi við íslenskar aðstæður.



Fylgiskjal III.

Búnaðarþing 2004:

Ályktun um framleiðsluöryggi í íslenskum landbúnaði.

(Mars 2004.)



    Búnaðarþing árið 2004 beinir því til landbúnaðarráðherra að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði landbúnaðarins. Markmiðið verði að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslenskir framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi.
    Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:
     1.      Að sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.
     2.      Að opinbert eftirlit með búvöruframleiðslu verði samræmt um land allt. Einnig að skilyrði starfsleyfa verði samræmd í þeim greinum þar sem þeirra er krafist.
     3.      Að starfsleyfisskyld bú geti sýnt fram á að þau hafi nægilegt land til dreifingar á búfjáráburði, eða að þau geti ráðstafað honum á annan viðunandi hátt, í samræmi við íslenskar aðstæður og umhverfissjónarmið.