Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins

Alþingi og Evrópuþingið hafa um langt árabil átt með sér samstarf og hafa reglulegir samráðsfundir verið haldnir frá árinu 1987. Lengst af var um árlega fundi að ræða. 

Þegar ríki sækja um aðild að Evrópusambandinu er sameiginlegri þingmannanefnd Evrópuþingsins og þjóðþings viðkomandi umsóknarríkis ætíð komið á fót. Eftir að aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust var því stofnað til sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins árið 2010.  Þrátt fyrir að aðildarviðræðum hafi verið hætt og Ísland sé ekki lengur umsóknarríki starfar nefndin áfram, enda er hlutverk hennar að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins á breiðum grunni.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins er skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins. Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að hlé var gert á aðildarviðræðum árið 2013 og þeim síðan hætt 2015 hefur fundum nefndarinnar verið fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Hin sameiginlega þingmannanefnd tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.