Þingrof

Í þingrofi felst heimild handhafa framkvæmdarvaldsins (forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra) til að stytta kjörtímabil Alþingis, en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn. 

Frá því að stjórnarskránni var breytt 1991 er með þingrofi í reynd verið að ákveða kjördag því að það tekur ekki gildi fyrr en á kjördegi. Með breytingunni 1991 var einnig þeirri skipan komið á að landið verður aldrei þingmannslaust þar sem þingmenn halda umboði sínu til kjördags. 

Þrátt fyrir birtingu tilkynningar um þingrof lýkur störfum Alþingis ekki fyrr en þingið hefur samþykkt tillögu um frestun á störfum sínum fram að kjördegi. Þannig var þingrofsboðskapur birtur 13. mars 2009, en Alþingi var að störfum til 17. apríl. 

Eftir að birt hefur verið tilkynning um þingrof þarf að halda nýjar þingkosningar innan 45 daga frá útgáfu tilkynningarinnar og nýtt Alþingi skal koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir kjördag.

Þessi þáttur þingrofsins er af tvennum toga: Pólitískt þingrof og kjördagsþingrof. 

  • Pólitískt þingrof felur í sér að kjörtímabilið er stytt oftast vegna stjórnarslita. Þingrofin 1908, 1931, 1937, 1949, 1956, 1974, 1979, 2009, 2016 og 2017 voru öll stjórnmálalegs eðlis. 
  • Kjördagsþingrof er þegar ákveðið er að stytta kjörtímabilið t.d. svo að kjördagur verði á hentugri árstíma en ella hefði orðið. Slíkt þingrof var 1963 en þá var kjörtímabilið, sem hófst eftir kosningar í október 1959, stytt til þess að kjördagur yrði að nýju að sumri líkt og að jafnaði hafði verið áður. Kjördagsþingrof var einnig 1946 og 1953.

Til viðbótar pólitísku þingrofi og kjördagssþingrofi er einnig stjórnarskrárþingrof. 

  • Stjórnarskrárþingrof er tvíþætt; annars vegar er skylt að rjúfa þing þegar krafa Alþingis um að leysa forseta Íslands frá embætti hefur ekki verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá. Aldrei hefur komið til þingrofs sem leiðir af kröfu um frávikningu forseta Íslands. Stjórnarskrárþingrof voru 1885, 1893, 1901, 1902, 1911, 1913, 1919, 1927, 1933, 1942 (tvívegis), 1959, 1967, 1983, 1991, 1995, 1999 og 2013. Flestar stjórnarskrárbreytingar á seinni árum hafa verið samþykktar undir lok kjörtímabilsins og kjördagur því verið óbreyttur frá fyrirhuguðum almennum þingkosningum. Helstu undantekningar eru seinna þingrofið 1942 og sumarþingrofið 1959 sem miðuðu að því að nýsamþykkt kjördæmabreyting kæmist til framkvæmdar. Stjórnarskrárþingrof hafa því sjaldan haft áhrif á lengd kjörtímabilsins. 

Hina almennu heimild til pólitísks þingrofs og kjördagsþingrofs er að finna í 24. gr. stjórnarskrárinnar. Um stjórnarskrárþingrof eru ákvæði í 79. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um breytingar á stjórnarskrá og í 11. gr. stjórnarskrárinnar þar sem er að finna ákvæði um frávikningu forseta Íslands.  

Tilkynning um þingrof­/kjördagSíðasti þingfundur Dagar frá til­kynningu að kjör­degi Kjördagur Ástæður þing­rofs
20.3.199120.3.1991  30 20.4.1991 (skylduþingrof, stjórnar­skrár­breytingar, reglulegur kjördagur) 
25.2.1995

25.2.1995

 41 8.4.1995 (skylduþingrof, stjórnar­skrár­breytingar, reglulegur kjördagur)
25.3.1999

25.3.1999

 43 8.5.1999 (skylduþingrof, stjórnar­skrár­breytingar, reglulegur kjördagur)
13.3.2009

17.4.2009

 42 25.4.2009 (pólitískt þingrof, boðað til nýrra kosninga)
28.3.201328.3.2013  29 27.4.2013 (skylduþingrof, stjórnar­skrár­breytingar, reglulegur kjördagur)
20.9.2016

13.10.2016

 38 29.10.2016 (pólitískt þingrof, boðað til nýrra kosninga)
 18.9.2017

27.09.2017

 39  28.10.2017  (pólitískt þingrof, boðað til nýrra kosninga)