Almennar upplýsingar um alþingiskosningar

Alþingiskosningar

Alþingiskosningar fara að jafnaði fram á fjögurra ára fresti. Þá velja kjósendur lista með frambjóðendum sem þeir telja að yrðu verðugir fulltrúar viðhorfa þeirra á þingi. Þetta fyrirkomulag kallast fulltrúalýðræði. Í alþingiskosningum er landinu skipt í sex kjördæmi. Kosið er um 63 þingsæti í hlutfallskosningum sem þýðir að stjórnmálaflokkarnir fá úthlutað þingsætum í hlutfalli við atkvæðin sem þeim eru greidd í kosningum.

Hverjir mega kjósa?

Allir íslenskir ríkisborgarar sem eru 18 ára og eldri og eiga lögheimili hér á landi þegar kosning fer fram geta kosið í alþingiskosningum.

Íslenskir ríkisborgarar sem hafa flutt til útlanda halda kosningarréttinum í átta ár frá því að þeir flytja lögheimili sitt af landinu og lengur ef sótt er um það til Þjóðskrár Íslands.

Hverja má kjósa?

Til að geta boðið sig fram og setið á Alþingi þurfa einstaklingar að vera kjörgengir. Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri þegar alþingiskosningar fara fram eru kjörgengir nema hæstaréttardómarar og forseti Íslands. Það myndi ekki samræmast kröfunni um þrískiptingu ríkisvaldsins að þessir aðilar ættu sæti á Alþingi. Því þyrfti hæstaréttardómari að fara úr því starfi til að geta boðið sig fram til þingsetu.

Auk þess að hafa náð 18 ára aldri þarf alþingismaður að hafa óflekkað mannorð. Það þýðir að hafi maður hlotið refsidóm þar sem refsing er óskilorðsbundið fangelsi hefur hann flekkað mannorð þar til afplánun dómsins er að fullu lokið.

Kjósandi kýs framboðslista tiltekins stjórnmálaflokks sem settur hefur verið saman innan flokksins ýmist með uppstillingu eða á grundvelli niðurstöðu úr prófkjöri, forvali eða póstkosningu. Kjósendur hafa möguleika á að breyta nafnaröð á framboðslistanum og/eða strika út nöfn frambjóðenda en umtalsverður fjöldi kjósenda þarf að gera það til að það hafi áhrif. 

Hvernig kýs maður?

Hægt er að kjósa á tvennan hátt: Með því að mæta á kjörstað á sjálfan kjördaginn, sem flestir gera, eða greiða atkvæði utan kjörfundar áður en kjördagur rennur upp.

Fyrir hverjar kosningar er hægt að fletta upp á vef Þjóðskrár Íslands upplýsingum um það hvar maður á að kjósa (kjördæmi, kjörstaður og kjördeild). Þegar komið er á kjörstað fer kjósandi í þá kjördeild þar sem hann á að kjósa. Þar gerir hann grein fyrir sér með því að framvísa skilríkjum. Kjörstjórn afhendir honum síðan kjörseðil. Kjósandinn fer inn í kjörklefa með kjörseðilinn. Þar greiðir hann atkvæði með því að marka kross (X) með blýanti í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

  • Ef kjósandi vill breyta nafnaröð á þeim lista sem hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
  • Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
  • Kjósandi þarf að gæta þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin önnur merki á kjörseðilinn því að annars verður atkvæðið ógilt.
  • Kjósandi má ekki hagga við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.

Kjósandi brýtur síðan kjörseðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði. Kjörstjórn merkir síðan við nafn kjósandans á kjörskrá um leið og hann hefur kosið.

Kjördæmi og úthlutun þingsæta

Íslandi er skipt í sex kjördæmi í alþingiskosningum: Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður. Mörk kjördæmanna eru ákveðin í lögum en þó ákveður landskjörstjórn kjördæmamörk milli Reykjavíkurkjördæmanna. Flest þingsæti eru í Suðvesturkjördæmi (13) og fæst eru þau í Norðvesturkjördæmi (8).

Alls er kosið um 63 þingsæti, þar af eru 54 kjördæmissæti og 9 jöfnunarsæti. Kjördæmissætunum er úthlutað á grundvelli kosningaúrslita í hverju kjördæmi en jöfnunarsætunum á grundvelli atkvæðafjölda á landsvísu milli þeirra flokka sem fá a.m.k. 5% atkvæða. Markmiðið með úthlutun jöfnunarsæta er að leiðrétta misræmi milli fylgis flokka á landsvísu og fjölda kjördæmissæta.

Tenglar