Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög

Samkvæmt lögum um opinber fjármál nr, 123/2015 skal fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til fimm ára eins skjótt og auðið er eftir að ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Frumvarp til fjárlaga, sem leggja á fram á fyrsta fundi hvers haustþings, skal vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar. 

Fjármálastefna

Fjármálastefnan skal afmarka umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinbera til fimm ára. Markmið stefnunnar skulu sett fram sem hlutföll af landsframleiðslu (VLF). Þá skal fjármálastefnan byggjast á grunngildum um sjálfbærni opinberra skuldbindinga til skemmri og lengri tíma litið, varfærni í jafnvægi á milli tekna og gjalda, stöðugleika í efnahagsmálum, festu í stefnu og áætlunum um þróun opinberra fjármála og gagnsæi í skýrum og mælanlegum markmiðum til meðallangs tíma. 

Fjármálaáætlun

Fjármálaáætlun er lögð fram árlega og byggir á fjármálastefnunni. Í fjármálaáætluninni er sett fram greining á stöðu og horfum í efnahagsmálum og fjármálum opinberra aðila ásamt markmiðum og áætlunum um framvinduna í fjármálum ríkis, sveitarfélaga og félaga í þeirra eigu. Fjármálaáætlunin felur þannig í sér frekari útfærslu á markmiðum fjármálastefnunnar og nánari stefnumörkun um þróun tekna, gjalda og efnahags opinberra aðila.

Áður en þingsályktunartillögurnar koma til umræðu í  þinginu skal fjármálaráð, sem skipað er tveimur fulltrúum Alþingis og einum fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, leggja sérstakt álit sitt um mat á það hvort þær séu í samræmi við grunngildi laganna um opinber fjármál.

Fjárlög

Fjármála og efnahagsráðherra skal leggja fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir næsta almanaksár á fyrsta fundi haustþings þar sem leitað er heimilda til útgjalda eftir málefnasviðum og málaflokkum og til hvers konar skuldbindinga A-hluta ríkissjóðs. Frumvarp til fjárlaga skal vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar. Byggt er á því að Alþingi veiti fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka, auk framlags í almennan varasjóð. Í þessu fellst grundvallarbreyting frá því sem tíðkast hefur um áratugaskeið þar sem einstaka ríkisaðilar og stofnanir koma eingöngu fram í fylgiriti með fjárlögum. 

Með varasjóðum er ætlunin að draga úr vægi fjáraukalaga, jafnvel að sleppa þeim alfarið einhver ár, þegar að svo ber undir.