Starfsreglur fastanefnda Alþingis

Efnisyfirlit

I. GILDISSVIÐ OG HLUTVERK

1. gr. Gildissvið.

Reglur þessar gilda um störf fastanefnda Alþingis. Þá gilda reglurnar um sérnefndir, sbr. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og alþjóðanefndir, sbr. 4. mgr. 35. gr. laganna, eftir því sem við á.

2. gr. Hlutverk fastanefnda.

1. mgr. Meginhlutverk fastanefnda.

Meginhlutverk fastanefnda er að fjalla um þingmál sem til þeirra er vísað. Þær fjalla einnig um mál á málefnasviði sínu sem þær taka upp að eigin frumkvæði svo og önnur mál í samræmi við þingsköp, sbr. 20. gr. reglna þessara.

2. mgr. Lyktir mála.

Nefnd getur lokið athugun á máli með nefndaráliti, með breytingartillögu, með framlagningu frumvarps eða þingsályktunartillögu, með því að gefa þinginu skýrslu eða með bókun í fundargerð. Nefnd getur ekki ályktað um einstök mál.

II. NEFNDARSKIPAN – FORMREGLUR

3. gr. Boðun fyrsta fundar nefndar.

1. mgr. Kosning á þingsetningarfundi samkvæmt samkomulagi.

Þegar aðalmenn og varamenn í nefndir eru kosnir á þingsetningarfundi samkvæmt tillögu formanna þingflokka, sbr. 1. mgr. 14. gr. þingskapa, boðar formaður fyrsta fund nefndarinnar að jafnaði innan viku frá kosningu.

2. mgr. Listakosning án samkomulags.

Náist ekki samkomulag milli þingflokka um nefndarskipan eða formennsku í nefndum og kosið er til nefndanna á þingsetningarfundi eftir reglum 14. og 82. gr. þingskapa skal sá sem fyrstur var kosinn í nefnd boða til fyrsta fundar nefndar innan viku frá kosningu hennar. Á þeim fundi skal nefndin kjósa sér formann og 1. og 2. varaformann. Forseta Alþingis skal tilkynnt um kjörið strax að loknum fundi.

4. gr. Formaður og varaformenn nefndar.

1. mgr. Formaður.

Formaður gerir starfsáætlun nefndar, boðar til funda í nefnd, stýrir fundum hennar og sér um að gætt sé góðrar reglu á fundum. 1. varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans og 2. varaformaður í forföllum 1. varaformanns.

2. mgr. Stjórn nefndarinnar.

Formaður, 1. varaformaður og 2. varaformaður mynda stjórn nefndar og skulu hafa samráð um störf hennar.

3. mgr. Formannsstörf til bráðabirgða.

Ef formaður og varaformenn eru forfallaðir eða varaþingmenn sitja fyrir þá felur formaður öðrum nefndarmanni að gegna formannsstörfum til bráðabirgða. Greiða má atkvæði um þá tilhögun í upphafi fundar ef þess er óskað.

4. mgr. Formannskjör að nýju.

Nefnd getur hvenær sem er kosið að nýju formann eða varaformenn ef tillaga þar um hlýtur stuðning meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram, sbr. 4. mgr. 14. gr. þingskapa. Um kjör formanns eða varaformanns fer eftir 1. og 2. mgr. 3. gr. þingskapa eftir því sem við á.

5. gr. Nefndarmenn.

1. mgr. Réttindi nefndarmanna.

Nefndarmenn hafa málfrelsi á fundum og rétt til að bera þar upp og greiða atkvæði um tillögur og til að leggja fram bókun í fundargerð. Nefndarmenn hafa aðgang að gögnum nefndar, þ.m.t. trúnaðargögnum, sbr. VII. kafla.

2. mgr. Fundarsókn og fundarfriður.

Nefndarmönnum er skylt að sækja nefndarfundi nema nauðsyn banni, sbr. 17. og 65. gr. þingskapa. Nefndarmönnum er þó heimilt að taka þátt í nefndarfundi með notkun fjarfundarbúnaðar þegar sérstaklega stendur á, sbr. IX. kafla. Forföll skal tilkynna formanni og starfsmanni nefndar eins fljótt og auðið er. Nefndarmönnum ber að gæta góðrar reglu á fundum og hlíta stjórn formanns.

3. mgr. Embættis- og trúnaðarstörf.

Nefndarmenn gegna embættis- og trúnaðarstörfum eftir því sem nefnd ákveður, svo sem að sinna formennsku og varaformennsku, hafa umsjón með málum og vera framsögumaður þeirra.

6. gr. Varamenn, staðgenglar og varaþingmenn.

1. mgr. Varamaður.

Varamaður í nefnd skal taka sæti nefndarmanns sem er forfallaður eins og röð á lista skv. 14. gr. þingskapa segir til um.

2. mgr. Staðgengill.

Í forföllum nefndarmanns og varamanns er þingflokki heimilt að tilnefna annan þingmann sem staðgengil til setu í nefnd, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa. Formaður þingflokks skal senda starfsmanni nefndar tilkynningu um tilnefningu staðgengils. Þá getur þingflokkur að beiðni nefndarmanns óskað eftir því að staðgengill taki sæti í nefnd við afgreiðslu tiltekins þingmáls og skal sú ákvörðun tilkynnt formanni nefndar.

3. mgr. Varaþingmaður.

Varaþingmaður, sem tekið hefur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, á sæti í þeim nefndum sem þingmaðurinn er kjörinn í nema þingflokkur nefndarmanns óski eftir að tilnefndur varamaður eða staðgengill taki sæti í nefndinni. Varaþingmaður getur hafið störf í nefnd fyrir hádegi þann dag sem þingmannaskipti eiga sér formlega stað á þingfundi, en má þá ekki taka þátt í afgreiðslu mála nema hann hafi unnið drengskaparheit að stjórnarskránni með undirritun sinni. Þingmanni er eins heimilt, með samþykki varaþingmanns, að sitja nefndarfund og taka þátt í afgreiðslu mála fyrir hádegi þann dag sem hann tekur sæti á Alþingi að nýju.

4. mgr. Réttindi.

Varamenn, varaþingmenn og staðgenglar gegna ekki embættis- og trúnaðarstörfum þess þingmanns sem þeir taka sæti fyrir innan nefndar en njóta að öðru leyti sömu réttinda og aðrir nefndarmenn nema annað sé sérstaklega tekið fram.

7. gr. Áheyrnarfulltrúar.

1. mgr. Tilnefning áheyrnarfulltrúa.

Eigi þingflokkur ekki fulltrúa í nefnd skv. 13. gr. þingskapa getur hann, sbr. 2. mgr. 14. gr. þingskapa, tilnefnt einn þingmann sem áheyrnarfulltrúa til fastrar setu í nefndinni eða til áheyrnar þegar tiltekið mál er á dagskrá. Tilnefning þingmanns skal kynnt á næsta fundi og færð til bókar.

2. mgr. Réttindi áheyrnarfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúi hefur rétt til að mæta á nefndarfundi og í ferðir og heimsóknir nefnda og til að taka þátt í umræðum til jafns við nefndarmenn. Áheyrnarfulltrúi hefur ekki tillögurétt eða rétt til að leggja fram bókun nema nefnd heimili hverju sinni. Hann getur ekki verið framsögumaður nefndar í máli, gefið út nefndarálit eða ritað undir nefndarálit annarra né krafist þess að afstaða hans til þess máls sem nefnd afgreiðir sé birt í nefndaráliti.

3. mgr. Mannaskipti, staðgenglar og fundarsókn.

Reglur II. kafla þingskapa gilda eftir því sem við á um áheyrnarfulltrúa í nefndum, svo sem um mannaskipti, staðgengla o.fl. Áheyrnarfulltrúum ber þó ekki skylda til að sækja nefndarfundi skv. 17. gr. þingskapa.

8. gr. Undirnefndir.

Formaður nefndar getur skipað undirnefnd úr hópi nefndarmanna til að fjalla nánar um mál eða nánar afmarkaða þætti máls sem til meðferðar er hjá nefnd. Undirnefnd skal að jafnaði skipuð tveimur nefndarmönnum ásamt framsögumanni máls.

9. gr. Starfsfólk.

1. mgr. Starfsfólk nefndar.

Starfsfólk nefndar veitir nefnd sérfræðiaðstoð, situr nefndarfundi og ritar fundargerðir.

2. mgr. Sérfræðiaðstoð.

Sérfræðiaðstoð skv. 1. mgr. felst m.a. í faglegri yfirferð mála sem nefnd tekur til efnislegrar umfjöllunar, aðstoð við gerð nefndarálita og breytingartillagna og því að aðstoða formann, varaformenn og framsögumann máls við að skipuleggja vinnu nefndar. Starfsfólk nefndar annast samskipti nefndar við ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, aflar upplýsinga, samhæfir störf sem unnin eru á vegum nefndar og fylgir nefnd í vettvangsferðir og á fundi utan Alþingis.

3. mgr. Forgangsröðun verkbeiðna.

Starfsfólk nefndar forgangsraðar verkbeiðnum í samræmi við starfsáætlun nefndar og áætlun hennar um meðferð og afgreiðslu máls og ber að upplýsa formann um stöðu verkefna í samræmi við þær.

4. mgr. Þagnarskylda.

Starfsfólk Alþingis hefur þagnarskyldu um atriði sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli málsins skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. X. kafla stjórnsýslulaga og 136. gr. almennra hegningarlaga. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

III. FUNDIR, DAGSKRÁ OG FUNDARBOÐ

10. gr. Nefndarfundir.

1. mgr. Lokaðir fundir.

Nefndarfundir eru að jafnaði lokaðir vinnufundir, sbr. 1. mgr. 19. gr. þingskapa, og lokaðir öðrum en nefndarmönnum og starfsfólki nefndar nema nefnd ákveði annað. Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum fundi nema með leyfi viðkomandi eða orðin hafi fallið á opnum hluta fundar, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. þingskapa.

2. mgr. Fundir opnir fréttamönnum.

Þegar gestir koma fyrir nefnd getur hún ákveðið að opna fund eða hluta fundar fyrir fréttamönnum, að því tilskildu að um aðra gesti sé að ræða en þá sem starfa í Stjórnarráðinu á ábyrgð ráðherra, sbr. 2. mgr. 19. gr. þingskapa. Heimilt er að vitna til orða nefndarmanna og gesta á gestafundum þegar fréttamönnum er heimill aðgangur.

3. mgr. Opnir fundir.

Nefnd getur ákveðið að halda opinn fund sem sendur er út í sjónvarpi og á vef Alþingis. Þá getur fjórðungur nefndarmanna farið fram á að slíkur fundur verði haldinn. Formaður gerir tillögu um afmörkun fundarefnis og tilhögun fundarins, þ.m.t. hversu langan tíma nefndarmenn fái til spurninga, og gesti sem óskað er eftir að verði til svara á fundinum. Ber formanni nefndarinnar að leita eftir því með hæfilegum fyrirvara, að jafnaði eigi síðar en viku áður, að gestur komi á opinn fund og gera honum grein fyrir efni fundarins. Um framkvæmd opinna funda vísast að öðru leyti til X. kafla.

4. mgr. Sameiginlegir fundir.

Tvær eða fleiri nefndir geta haldið nefndarfund skv. 1.–3. mgr. sameiginlega. Skal ákvörðun um sameiginlegan fund tekin með hæfilegum fyrirvara. Formaður þeirrar nefndar sem máli hefur verið vísað til, eða sem tekið hefur mál upp að eigin frumkvæði, skal stýra sameiginlegum fundi nema samkomulag sé um annað.

11. gr. Dagskrá.

1. mgr. Dagskrá.

Dagskrá funda nefnda skal send nefndarmönnum með fundarboði og gerð aðgengileg á vef Alþingis eins fljótt og auðið er, að jafnaði eigi síðar en síðdegis daginn fyrir fund.

2. mgr. Ákvörðun dagskrár.

Formaður ákveður dagskrá funda. Taka skal mið af starfsáætlun nefndar við ákvörðun dagskrár. Ef formaður er forfallaður skal dagskrá ákveðin af varaformanni eða þeim sem hefur heimild til að boða til fundar, sbr. 1. og 3. mgr. 4. gr.

3. mgr. Ósk um tiltekið dagskrármál.

Berist ósk um að tiltekið mál verði tekið á dagskrá frá fjórðungi nefndarmanna eða framsögumanni máls, sbr. 2. mgr. 15. gr. þingskapa, skal verða við því svo fljótt sem kostur er. Formaður skal gefa viðhlítandi skýringar ef dregst umfram þrjá virka daga að setja málið á dagskrá fundar.

4. mgr. Uppsetning dagskrár.

Tilgreina skal dagskrárliði í þeirri röð sem fyrirhugað er að ræða einstök mál á fundi ásamt tímasettri áætlun fyrir hvern dagskrárlið. Tilgreina skal þá gesti sem boðaðir eru. Ef gera á tillögu um afgreiðslu máls skal að jafnaði geta þess í fundarboði. Tilgreint skal ef dagskrárliður er opinn fréttamönnum, sbr. 2. mgr. 19. gr. þingskapa.

12. gr. Fundarboð.

1. mgr. Fundarboð.

Fundarboði skal beint til nefndarmanna og áheyrnarfulltrúa. Forfallist nefndarmaður getur hann, eða eftir atvikum þingflokksformaður, boðað varamann eða tilnefnt staðgengil, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.

2. mgr. Boðun.

Dagskrá og fundarboð skal tilkynnt nefndarmanni með tryggilegum hætti að jafnaði eigi síðar en daginn fyrir fund.

3. mgr. Fundarfall.

Falli reglulegur fundur nefndar niður skal tilkynna nefndarmönnum um það á sama hátt og gildir um fundarboð.

13. gr. Reglulegir fundir og aukafundir.

1. mgr. Reglulegir fundir.

Hverri nefnd er úthlutað föstum fundartíma í samræmi við starfsáætlun Alþingis. Fundatafla nefnda er birt á vef Alþingis.

2. mgr. Aukafundir.

Heimilt er að boða til fundar utan reglulegs fundartíma enda hreyfi meiri hluti nefndarmanna ekki andmælum. Boða skal til aukafundar skv. 12. gr.

3. mgr. Nefndarfundir á þingfundatíma.

Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum, sbr. 20. gr. þingskapa.

14. gr. Skylda til að boða fund.

Ef ósk berst um það frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna eða frá framsögumanni máls er formanni skylt að boða til fundar og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru svo fljótt sem kostur er, sbr. 2. mgr. 15. gr. þingskapa. Formaður skal gefa viðhlítandi skýringar ef dregst umfram þrjá virka daga að halda fund í nefndinni.

15. gr. Fundir með ráðherra.

1. mgr. Þingmálaskrá.

Ráðherrar skulu að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund nefnda er fjalla um málaflokka þeirra, sbr. 3. mgr. 47. gr. þingskapa. Þar skal ráðherra gera grein fyrir þeim þingmálum sem hann hyggst leggja fram á löggjafarþinginu samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnar.

2. mgr. Fundur um þingmál og önnur mál á málefnasviði ráðherra.

Nefnd getur óskað þess að ráðherra komi á fund hennar til þess að fjalla um mál sem varðar málefnasvið ráðherrans. Að sama skapi getur ráðherra óskað þess að eigin frumkvæði að koma á fund nefndar og ræða mál er hana varðar.

3. mgr. Fundir með ráðherra í þinghléum.

Fjórðungur nefndarmanna getur óskað eftir því að ráðherra komi á fundi nefndar í þinghléum, sbr. þó 3. mgr. 10. gr. þingskapa. Slíkir fundir skulu að jafnaði afmarkaðir við umræður um stjórnsýslu ráðherra.

4. mgr. Málfrelsi ráðherra.

Þegar ráðherra kemur á fund nefndar hefur hann sama rétt til þátttöku í umræðum og nefndarmenn.

5. mgr. Þagnarskyldar upplýsingar.

Í upphafi fundar getur ráðherra óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún vilji taka við slíkum trúnaðarupplýsingum, sbr. 3. og 4. mgr. 37. gr. Nefndarmenn í utanríkismálanefnd eru þó bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á, sbr. 1. mgr. 24. gr. þingskapa.

16. gr. Fundir nefnda utan þingtíma.

1. mgr. Fundir nefnda utan þingtíma.

Nefndum er heimilt að halda fundi þegar Alþingi er ekki að störfum, sbr. 23. gr. stjórnarskrárinnar. Sumarhlé þingsins er frá 1. júlí til 10. ágúst og skal ekki boða til nefndarfunda á þeim tíma nema brýn nauðsyn krefji, sbr. 3. mgr. 10. gr. þingskapa.

2. mgr. Fundir utanríkismálanefndar.

Utanríkismálanefnd er þó heimilt að funda eftir þörfum enda skal hún vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál jafnt á þingtíma sem í þinghléum, sbr. 24. gr. þingskapa.

IV. FUNDARSTJÓRN OG ÁLYKTUNARBÆRNI

17. gr. Fundarstjórn.

1. mgr. Setning nefndarfundar.

Formanni er heimilt að setja nefndarfund ef til hans hefur verið boðað með dagskrá. Formaður stýrir fundi nefndar og sér um að hann fari fram með góðri reglu og að tímamörk séu virt.

2. mgr. Heimildir formanns.

Formaður getur breytt röð dagskrárliða og einnig tekið mál út af dagskrá. Þá getur formaður heimilað að umræður fari fram um tvo eða fleiri dagskrárliði í einu ef þeir fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.

18. gr. Ályktunarbær fundur.

Fundur í nefnd er því aðeins ályktunarbær að meiri hluti nefndarmanna sé staddur á fundi, sbr. 22. gr. þingskapa. Með ályktunarbærni er átt við heimildir nefndar til að afgreiða mál úr nefnd og taka aðrar bindandi ákvarðanir. Nefnd getur fjallað um mál og tekið á móti gestum þótt hún sé ekki ályktunarbær.

V. STARFSÁÆTLUN OG MÁLSMEÐFERÐ

19. gr. Starfsáætlun nefndar.

1. mgr. Gerð starfsáætlunar.

Formaður nefndar, ásamt 1. og 2. varaformanni, skal gera starfsáætlun, m.a. með hliðsjón af þingmálaskrá ráðherra, þar sem fram komi m.a. áætlun um nefndarfundi og afgreiðslu mála úr nefnd, sbr. 2. mgr. 18. gr. þingskapa, í því skyni að dreifa vinnu nefndar sem jafnast yfir þingtímann. Starfsáætlun er uppfærð eftir þörfum.

2. mgr. Efni starfsáætlunar.

Í starfsáætlun skulu m.a. koma fram, eftir því sem við verður komið, upplýsingar um fjölda funda sem nefnd ráðgerir að halda á tímabilinu, þingmál sem nefndin tekur fyrir, þingmál sem nefndin flytur, áætlanir um meðferð mála, mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði, og um fundi utan Alþingis og vettvangsferðir sem nefndin hyggst fara í.

3. mgr. Aðgangur að starfsáætlun.

Starfsáætlun nefndar skal vera nefndarmönnum aðgengileg. Forseta skal kynnt áætlun nefndar um afgreiðslu mála, sbr. 2. mgr. 18. gr. þingskapa.

20. gr. Tegundir mála.

1. mgr. Þingmál.

Nefndir fjalla um þingmál sem þingið vísar til þeirra, sbr. 23. gr. þingskapa. Um afgreiðslu þingmála frá nefndum fer eftir 27. gr. reglna þessara.

2. mgr. Frumkvæðismál.

Á starfstíma sínum er nefnd hvenær sem er heimilt að fjalla um mál sem heyrir undir málefnasvið hennar þótt þingið hafi ekki vísað því sérstaklega til hennar, sbr. 1. mgr. 26. gr. þingskapa. Nefnd getur gefið þinginu skýrslu um athugun sína þar sem heimilt er að gera tillögu til þingsályktunar, sbr. 2. mgr. 26. gr. þingskapa.

3. mgr. Önnur mál nefnda.

Nefndir fjalla eftir atvikum um önnur mál, þ.m.t. mál sem nefndum ber að fjalla um samkvæmt þingsköpum, EES-mál, sbr. reglur um þinglega meðferð EES-mála, skýrslur sem þær fá til umfjöllunar og umsagnarbeiðnir annarra nefnda.

21. gr. Framsögumaður.

1. mgr. Ákvörðun um framsögumann.

Þegar máli hefur verið vísað til nefndar skal nefnd fela einum nefndarmanni að vera framsögumaður máls, sbr. 27. gr. þingskapa.

2. mgr. Verkefni framsögumanns.

Framsögumaður vinnur að athugun máls og hefur umsjón með meðferð þess, þ.m.t. vinnslu nefndarálits og breytingartillögum eftir atvikum. Framsögumaður gerir tillögu um afgreiðslu málsins þegar hann hefur lokið athugun sinni. Framsögumaður nýtur aðstoðar starfsfólks nefndar.

22. gr. Meðferð máls.

1. mgr. Meðferð máls.

Meðferð máls skal miða að því að tryggja faglega vinnu nefndarinnar og skal að jafnaði samanstanda af eftirfarandi verkþáttum:

  1. Umsagnarbeiðnum.
  2. Fundi til kynningar á máli og fundum með gestum.
  3. Umræðu nefndar um mál fyrir afgreiðslu þess.
  4. Vinnu við drög að nefndaráliti og breytingartillögum.
  5. Afgreiðslu máls.

2. mgr. Umfjöllun í nefnd.

Formaður ákveður í samráði við framsögumann hvenær mál kemur til umfjöllunar í nefnd. Formanni er skylt að taka mál á dagskrá fundar samkvæmt ósk framsögumanns, sbr. 2. mgr. 15. gr. þingskapa.

23. gr. Umsagnir.

1. mgr. Umsagnir.

Öllum er frjálst að senda umsagnir um mál. Allar umsagnir hafa sömu stöðu við meðferð nefndar á máli.

2. mgr. Umsagnarbeiðnir og umsagnarfrestir.

Nefnd getur við umfjöllun máls óskað skriflegra umsagna um það frá aðilum utan þings og tekur þá ákvörðun um hverjir fái slíkar beiðnir og hver umsagnarfrestur skuli vera. Nefnd getur veitt formanni almenna heimild til að senda umsagnarbeiðnir um mál fyrir hennar hönd enda eigi nefndarmenn þess kost að koma að ábendingum um umsagnaraðila.

3. mgr. Umsagnir annarra nefnda.

Nefnd er heimilt að óska eftir umsögn annarrar nefndar um þingmál sem hún hefur til meðferðar, annaðhvort um málið í heild eða tiltekin atriði þess, enda eigi hluti þess undir málefnasvið þeirrar nefndar. Í umsagnarbeiðni skal koma fram á hvaða þætti málsins óskað er eftir að nefnd veiti álit sitt. Ávallt skal birta umsagnir og tillögur annarra nefnda sem fylgiskjöl með nefndaráliti.

24. gr. Gögn frá stjórnvöldum.

1. mgr. Gögn frá stjórnvöldum.

Fjórðungur nefndarmanna getur krafist þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum, þ.m.t. sjálfstæðum stjórnvöldum, eða að teknar verði saman upplýsingar vegna máls sem nefndin hefur til umfjöllunar. Stjórnvald skal verða við beiðni nefndarinnar eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar, sbr. 51. gr. þingskapa.

2. mgr. Málsmeðferð gagnabeiðni.

Beiðni um aðgang að gögnum skv. 1. mgr. skal sett á dagskrá fundar nefndarinnar og afgreiðsla skráð í fundargerð skv. VIII. kafla. Eftir fund nefndarinnar skal formaður koma beiðninni á framfæri við stjórnvald. Afhending gagna og upplýsinga skal vera Alþingi að kostnaðarlausu.

3. mgr. Takmörkun á aðgangi að gögnum.

Einungis er heimilt að takmarka aðgang nefndar að gögnum skv. 1. mgr. ef hagsmunir hennar af því að kynna sér efni þeirra eiga að víkja fyrir mun ríkari opinberum hagsmunum eða einkahagsmunum og skal rökstyðja slíka takmörkun eða synjun skriflega, sbr. 51. gr. þingskapa. Nefnd getur óskað eftir því að skriflegur rökstuðningur berist innan tilgreinds frests. Séu lögmætar ástæður fyrir beiðni um að trúnaðar sé gætt fer eftir ákvæðum VII. kafla.

25. gr. Gestir á nefndarfundum.

1. mgr. Gestakomur.

Nefnd getur samþykkt að fá gesti til fundar við sig til að hlýða á afstöðu þeirra til mála og einstakra álitaefna. Gestakomur skal að jafnaði skipuleggja með góðum fyrirvara og gefa nefndarmönnum færi á að bæta við tillögum um gesti.

2. mgr. Boðun gesta.

Að jafnaði boðar nefnd fulltrúa ráðuneytis til að kynna stjórnarmál. Við ákvörðun um aðra gesti er leitast við að boða viðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila. Tekið er mið af umsögnum þar sem gerðar eru efnislegar athugasemdir sem nefnd telur þörf á að rýna betur eða nefnd telur nauðsynlegt að fá ítarlegri upplýsingar um. Starfsfólk nefndar boðar gesti. Leitast skal við að boða gesti með góðum fyrirvara og að boðun þeirra og móttaka fari fram á dagvinnutíma.

3. mgr. Framsaga og svör gesta.

Formaður skal að jafnaði gefa gestum kost á að hafa stutta framsögu um álit sitt á máli sem til umræðu er. Þá geta gestir dreift gögnum til nefndarmanna um málið. Að því loknu gefst nefndarmönnum kostur á að bera fram spurningar til gesta. Formaður skal veita framsögumanni aukinn tíma til að fylgja eftir spurningum og spyrja að nýju. Við umfjöllun um frumkvæðismál skal formaður að jafnaði gefa málshefjanda fyrstum orðið til að reifa málið og spyrja gesti spurninga.

4. mgr. Afmörkun fundarefnis.

Efnisleg umræða milli nefndarmanna um mál skal ekki fara fram í viðurvist gesta og gestir skulu að jafnaði ekki bera fram spurningar til nefndarmanna.

5. mgr. Tímamörk.

Formaður skal leitast við að halda tímaáætlun samkvæmt dagskrá fundar þegar nefnd tekur á móti gestum.

26. gr. Umræða nefndar um mál fyrir afgreiðslu.

1. mgr. Reifun framsögumanns á máli.

Þegar nefnd ræðir mál án gesta skal formaður gefa framsögumanni fyrstum orðið. Framsögumaður reifar helstu atriði málsins, tilgreinir áhersluatriði, og gerir tillögu um áframhaldandi málsmeðferð.

2. mgr. Afstaða nefndarmanna.

Formaður eða framsögumaður óskar eftir afstöðu og sjónarmiðum einstakra nefndarmanna og kannar hvort unnt er að mæta þeim í nefndaráliti eða með breytingartillögum.

27. gr. Afgreiðsla þingmáls frá nefnd.

1. mgr. Forsenda afgreiðslu máls frá nefnd.

Mál verður aðeins afgreitt frá nefnd að lokinni athugun þess og að því gefnu að fyrir liggi tillaga að nefndaráliti, sbr. 29. gr. þingskapa. Sé máli vísað aftur til nefndar að lokinni afgreiðslu, svo sem á milli 2. og 3. umræðu á þingfundi, er henni þó heimilt að afgreiða málið án nefndarálits.

2. mgr. Tillaga formanns eða framsögumanns um afgreiðslu.

Formaður eða framsögumaður máls gerir tillögu um afgreiðslu nefndar á þingmáli á nefndarfundi og skal tillagan borin undir atkvæði, sbr. 2. mgr. 27. gr. þingskapa. Telst sú tillaga samþykkt greiði meiri hluti nefndarmanna á ályktunarbærum fundi henni atkvæði.

3. mgr. Tillaga annarra nefndarmanna um afgreiðslu.

Geri annar nefndarmaður tillögu um að athugun máls verði hætt og það afgreitt frá nefndinni skulu atkvæði ganga um þá tillögu á þeim fundi þar sem hún er borin fram. Tillagan telst aðeins samþykkt greiði meiri hluti allra nefndarmanna henni atkvæði, sbr. 3. mgr. 27. gr. þingskapa.

28. gr. Nefndarálit.

1. mgr. Efni nefndarálits.

Nefnd eða hluta nefndar er heimilt að greina frá afstöðu sinni til þingmáls með nefndaráliti. Nefndarálit skal endurspegla vinnu nefndar. Þar skal koma fram afstaða til máls og tillaga um afgreiðslu þess á þingfundi auk rökstuðnings með breytingartillögu ef við á. Nefnd getur látið uppi álit á tveimur eða fleiri málum saman ef þau varða skyld efni og nefndin hefur fjallað um þau samhliða.

2. mgr. Afgreiðsla nefndarálits framsögumanns.

Framsögumaður leggur fram og kynnir drög að nefndaráliti og eftir atvikum breytingartillögu á fundi þar sem mál kemur til afgreiðslu. Drögin skulu kynnt áður en atkvæðagreiðsla um tillögu um afgreiðslu fer fram, sbr. 2. mgr. 27. gr. Sé tillaga um afgreiðslu samþykkt skulu nefndarmenn gefa upp hvort þeir riti undir nefndarálit framsögumanns. Nefndarmönnum er heimilt að undirrita nefndarálit með fyrirvara og skal hann skýrður í stuttu máli í nefndaráliti, sbr. 29. gr. þingskapa.

3. mgr. Nefndarálit frá hluta nefndar.

Styðji nefndarmaður ekki nefndarálit framsögumanns, sbr. 2. mgr., skal hann samhliða afgreiðslu máls upplýsa um hvort hann skili sérstöku nefndaráliti. Frestur til að leggja fram slíkt nefndarálit frá hluta nefndar miðast við upphaf næstu umræðu um málið á þingfundi. Hluti nefndar sem skilar sérstöku nefndaráliti skal tilnefna framsögumann, sbr. 29. gr. þingskapa.

4. mgr. Undirritun fjarstadds nefndarmanns.

Nefndarmanni sem er fjarverandi þegar mál kemur til afgreiðslu er heimilt að rita undir nefndarálit hafi hann tekið þátt í efnislegri umfjöllun um málið, sbr. 29. gr. þingskapa. Hið sama á eftir atvikum við um önnur þingskjöl og gögn sem nefnd gefur út. Nefndarmaður sem nýtir þessa heimild skal leitast við að tilkynna það fyrir þann fund þar sem mál kemur til afgreiðslu. Nýti nefndarmaður heimild samkvæmt þessu ákvæði getur varamaður eða staðgengill sem mætir á fund í hans stað ekki undirritað nefndarálit.

5. mgr. Framhaldsnefndarálit.

Taki nefnd mál til umfjöllunar eftir afgreiðslu þess en áður en umræðu um málið lýkur í þingsal getur hún látið uppi afstöðu sína með framhaldsnefndaráliti. Um framhaldsnefndarálit gilda eftir því sem við getur átt sömu reglur og um nefndarálit.

29. gr. Kostnaðarmat og mat á öðrum áhrifum.

1. mgr. Mat á áhrifum.

Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta fylgja með áliti sínu mat á áhrifum, þ.m.t. fjárhagslegum áhrifum, sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér, sbr. 2. mgr. 30. gr. þingskapa.

2. mgr. Endurskoðun mats vegna breytingartillagna.

Nefnd skal láta endurskoða mat á áhrifum stjórnarfrumvarps ef hún gerir verulegar breytingartillögur við frumvarpið, sbr. 30. gr. þingskapa.

30. gr. Vísun mála milli nefnda.

Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, er heimilt að vísa því til annarrar nefndar telji hún að málið eigi fremur heima í þeirri nefnd. Áður skal þó liggja fyrir samþykki þeirrar nefndar sem málinu er vísað til. Tilkynna skal forseta um slíka tilfærslu, sbr. 3. mgr. 23. gr. þingskapa.

31. gr. Umfjöllun um stjórnarmál áður en 1. umræða fer fram.

1. mgr. Ósk um umfjöllun nefndar fyrir 1. umræðu.

Níu þingmenn geta óskað eftir heimild forseta til að fjalla um mál áður en 1. umræða stjórnarfrumvarps eða fyrri umræða stjórnartillögu fer fram, eða strax að lokinni framsöguræðu, í því skyni að nefnd afli frekari upplýsinga um það eða skýringa á efni þess, sbr. 2. mgr. 23. gr. þingskapa.

2. mgr. Málsmeðferð.

Taki nefnd, með leyfi forseta, mál til umfjöllunar skv. 1. mgr. skal formaður gera tillögu um hvernig skoðun nefndarinnar á málinu verði hagað. Þegar nefnd hefur lokið athugun sinni er meðferð málsins fram haldið í þingsal. Forseti ákveður hversu lengi athugun nefndar samkvæmt framangreindu má standa.

32. gr. Skýrslur nefnda.

1. mgr. Stöðuskýrsla.

Nefnd getur með skýrslu gert þinginu grein fyrir athugun sinni á þingmáli sem hún hefur ekki lokið athugun á að fullu telji hún sérstaka ástæðu til þess, sbr. 31. gr. þingskapa.

2. mgr. Skýrsla um störf nefndar.

Nefnd getur með skýrslu gert þinginu grein fyrir störfum sínum, sbr. 31. gr. þingskapa.

VI. BIRTING OG AÐGANGUR AÐ ERINDUM 

33. gr. Erindi sem nefndum berast.

Með erindum er átt við umsagnir, álit og gögn frá ráðuneytum, stofnunum, samtökum og einstaklingum utan Alþingis. Erindi skulu skráð og varðveitt í skjalasafni Alþingis.

34. gr. Aðgangur.

1. mgr. Aðgangur að erindum.

Aðgangur að erindum til nefnda skal öllum heimill, sbr. þó VII. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga.

2. mgr. Takmarkaður aðgangur að erindum.

Nefnd getur samþykkt að aðgangur að tilgreindum erindum eða erindum sem varða tiltekið þingmál sé óheimill þar til afgreiðslu máls lýkur. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um alþingismenn og starfsfólk Alþingis og þingflokka.

35. gr. Vefbirting.

1. mgr. Erindi um þingmál.

Erindi sem berast nefndum í tengslum við þingmál skulu að jafnaði birt á vef Alþingis eins fljótt og unnt er eftir að þau hafa borist, sbr. þó ákvæði VII. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga.

2. mgr. Erindi um frumkvæðismál.

Skili nefnd skýrslu til þingsins um mál sem hún hefur tekið upp að eigin frumkvæði skv. 26. gr. þingskapa eða flytji nefnd þingmál í kjölfar slíkrar frumkvæðisrannsóknar skal birta erindi sem nefndinni hafa borist í tengslum við málið. Nefnd getur einnig ákveðið að birta skuli erindi sem berast í tengslum við önnur mál sem hún hefur tekið upp að eigin frumkvæði.

3. mgr. Erindi sem ekki skal birta.

Erindi sem kunna að vera í andstöðu við lög, góða reglu eða velsæmi eða innihalda upplýsingar um einkahagi annarra, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, skulu ekki birt á vef Alþingis, sbr. einnig ákvæði VII. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga. Nefnd getur leitað úrskurðar forseta um það hvort birta skuli erindi á vef Alþingis.

VII. MEÐFERÐ TRÚNAÐARUPPLÝSINGA

36. gr. Trúnaðargögn.

Ákvæði þessa kafla eiga við um meðferð og varðveislu gagna sem berast nefnd og uppfylla a.m.k. eitt af eftirtöldu:

  1. Eru háð fyrirmælum laga um þagnarskyldu.
  2. Varða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. ákvæði upplýsingalaga. Til slíkra gagna teljast m.a. umsóknir um ríkisborgararétt sem koma til meðferðar Alþingis.
  3. Varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sbr. ákvæði upplýsingalaga.
  4. Varða mikilvæga almannahagsmuni eða eru undanþegin aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum.
  5. Trúnaður skal ríkja samkvæmt sérstakri ákvörðun nefndarinnar á meðan hún hefur mál til athugunar.

37. gr. Ákvörðun nefndar um móttöku gagna.

1. mgr. Viðtaka trúnaðargagna.

Sé nefnd upplýst um að gögn sem hún hefur farið fram á, eða sem annar aðili vill láta henni í té, feli í sér trúnaðarupplýsingar skal nefndin ákveða fyrir fram hvort hún tekur við gögnunum, sbr. 3. mgr. 50. gr. þingskapa.

2. mgr. Trúnaður um upplýsingar.

Komi fram ósk um að nefnd gæti trúnaðar um upplýsingar sem hún hefur óskað eftir, eða annar aðili vill láta henni í té, án þess að um sé að ræða trúnaðarupplýsingar skv. 36. gr., skal nefndin taka afstöðu til hennar áður en hún ákveður að taka við upplýsingunum. Rökstyðja skal beiðni um að nefnd gæti trúnaðar um slíkar upplýsingar.

3. mgr. Upplýsingar á fundi.

Þingnefnd getur ákveðið að trúnaður ríki um tilteknar upplýsingar sem fram koma á fundi, óháð því hvort trúnaður mundi ella ríkja um þær, sbr. 3. mgr. 50. gr. þingskapa. Óski gestur á nefndarfundi eftir trúnaði um gögn eða upplýsingar sem þar koma fram skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess.

4. mgr. Afhending trúnaðarupplýsinga.

Samþykki að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna að taka við upplýsingum í trúnaði, sbr. 1.–3. mgr., skulu þær afhentar þeim nefndarmönnum sem samþykki veita. Séu trúnaðargögn afhent eða rædd á nefndarfundi skulu þeir nefndarmenn sem ekki vilja taka við þeim trúnaðarupplýsingum víkja af fundi.

5. mgr. Bókun í fundargerð.

Ákvörðun nefndar og afstaða einstakra nefndarmanna um viðtöku trúnaðarupplýsinga skal bókuð í fundargerð, sbr. 21. gr. þingskapa og 46. gr. reglna þessara. Sé trúnaði um gögn eða upplýsingar, sem berast nefnd eða koma fram á nefndarfundi, markaður tiltekinn tími eða sé trúnaður háður tilmælum um að hann falli niður þegar tiltekin atvik eru komin fram skal slíkt jafnframt bókað.

38. gr. Skráning og varðveisla gagna.

1. mgr. Varðveisla gagna.

Á meðan nefnd hefur mál til athugunar skulu gögn sem fela í sér trúnaðarupplýsingar varðveitt á tryggilegan hátt, sbr. 3. mgr. 51. gr. þingskapa. Við lok þingstarfa eða þegar nefnd hefur lokið athugun sinni á máli skal þeim komið fyrir í skjalasafni Alþingis.

2. mgr. Auðkenning trúnaðarupplýsinga.

Gögn sem hafa verið afhent nefnd sem trúnaðarupplýsingar skulu auðkennd sérstaklega með áritun eða stimpli um að gögnin séu háð ákvæðum tilgreindra laga um þagnarskyldu eða fyrirmælum upplýsingalaga eða ákvörðun nefndar um trúnað.

39. gr. Aðgangur og meðferð gagna.

1. mgr. Aðgangur að trúnaðargögnum.

Þegar trúnaður ríkir um gögn skulu nefndarmenn kynna sér gögnin á lokuðum fundi án þess að fara með þau út af fundinum. Að öðru leyti eru gögnin varðveitt tryggilega í skjalageymslu á nefndasviði, sbr. 1. mgr. 38. gr. Nefndarmenn skulu hafa aðgang að gögnunum á nefndasviði og er þeim heimilt að skoða þau að viðstöddum starfsmanni nefndar. Halda skal skrá um þá nefndarmenn sem skoða gögnin og tímasetningu skoðunar. Geyma skal skrána með gögnunum í skjalasafni þingsins. Óheimilt er að taka myndir af gögnunum eða afrita þau með öðrum hætti, svo sem með því að skrifa niður upplýsingar úr þeim.

2. mgr. Afrit trúnaðargagna.

Sá sem lætur nefnd í té trúnaðargögn getur heimilað að nefndarmenn taki afrit með sér út af fundi og skulu nefndarmenn þá gæta þess vandlega að óviðkomandi geti ekki kynnt sér þau, sbr. 2. mgr. 51. gr. þingskapa.

3. mgr. Miðlun trúnaðarupplýsinga.

Sá sem í hlut á og gögnin varða getur veitt skriflegt samþykki sitt fyrir því að þeim verði miðlað til annarra enda sé honum það heimilt lögum samkvæmt. Eiga þá ekki lengur við takmarkanir á meðferð þeirra samkvæmt almennum ákvæðum laga um þagnarskyldu eða upplýsingalögum.

4. mgr. Aðgangur starfsfólks að trúnaðarupplýsingum.

Starfsfólk viðkomandi nefndar, skjalastjóri og forstöðumaður nefndasviðs hafa aðgang að trúnaðargögnum máls í störfum sínum fyrir nefndina.

40. gr. Aðgangur annarra þingmanna að trúnaðargögnum nefndar.

1. mgr. Aðgangur varaþingmanna.

Varaþingmaður sem tekur sæti í nefnd í forföllum þingmanns, sbr. 3. mgr. 6. gr., hefur aðgang að gögnum sem geyma trúnaðarupplýsingar með sama hætti og aðrir nefndarmenn.

2. mgr. Aðgangur áheyrnarfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúar, sbr. 2. mgr. 14. gr. þingskapa, hafa aðgang að gögnum sem geyma trúnaðarupplýsingar með sama hætti og aðrir nefndarmenn.

3. mgr. Aðgangur annarra þingmanna.

Aðrir þingmenn hafa ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum nefndar. Forseti getur þó ákveðið, ef sérstakar ástæður mæla með því og eftir því er leitað, að aðgangur verði veittur þegar fyrir liggja trúnaðarupplýsingar í máli sem nefnd hefur haft til athugunar enda sé þá ljóst að málið muni koma til atkvæðagreiðslu á þingfundi. Verði aðgangur veittur skal gæta fyrirmæla 39. gr. Um nánara fyrirkomulag fer samkvæmt ákvörðun forseta.

41. gr. Gögn frá ríkisendurskoðanda.

1. mgr. Afhending gagna og trúnaðarskylda.

Ríkisendurskoðanda er heimilt að afhenda nefndum upplýsingar og gögn sem trúnaður ríkir um og hann hefur aflað í störfum sínum og eru nefndarmenn þá bundnir þagnarskyldu um þau, sbr. 12. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

2. mgr. Aðgangur annarra nefnda.

Ef nefnd sem hefur fengið upplýsingar skv. 1. mgr. felur annarri nefnd að fjalla um mál eða skýrslu ríkisendurskoðanda fær síðartalda nefndin aðgang að upplýsingum og gögnum málsins og eru þingmenn þeirrar nefndar bundnir trúnaði um þau.

42. gr. Utanríkismálanefnd.

1. mgr. Þagnarskylda nefndarmanna utanríkismálanefndar.

Formaður utanríkismálanefndar eða utanríkisráðherra geta ákveðið að nefndarmenn skuli bundnir þagnarskyldu um þær upplýsingar sem þeir fá í nefndinni, sbr. 1. mgr. 24. gr. þingskapa. Um aðgang að slíkum gögnum og um meðferð þeirra skal að öðru leyti gæta ákvæða reglna þessara.

2. mgr. Miðlun upplýsinga til annarra nefnda.

Við athugun utanríkismálanefndar á máli er heimilt að miðla upplýsingum sem bundnar eru þagnarskyldu til nefndarmanna annarra nefnda, enda liggi fyrir ákvörðun formanns utanríkismálanefndar eða eftir atvikum utanríkisráðherra um slíka ráðstöfun. Um þagnarskyldu þingmanna sem taka við slíkum upplýsingum fer þá eftir 52. gr. þingskapa.

43. gr. Þagnarskylda.

1. mgr. Þagnarskylda þingmanna.

Þingmaður hefur þagnarskyldu um upplýsingar sem hann hefur fengið í starfi sínu ef þær eiga að fara leynt samkvæmt lögum eða lögmætri ákvörðun þess sem veitir upplýsingarnar, sbr. 52. gr. þingskapa og 136. gr. almennra hegningarlaga.

2. mgr. Þagnarskylda starfsfólks.

Um þagnarskyldu starfsfólks fer eftir 4. mgr. 9. gr.

3. mgr. Varanleg þagnarskylda.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

VIII. FUNDARGERÐIR

44. gr. Gerðabækur.

1. mgr. Gerðabækur.

Nefndir Alþingis skulu halda gerðabækur, sbr. 21. gr. þingskapa. Í gerðabók skal skrá alla fundi, heimsóknir og ferðir nefndar. Gerðabækur skulu varðveittar í skjalasafni Alþingis.

2. mgr. Trúnaðarmálabók.

Halda skal sérstaka gerðabók þar sem bóka skal trúnaðarmál nefnda og gögn sem nefndir fá afhent og bundin eru trúnaði.

3. mgr. Ritun fundargerða.

Starfsmaður nefndar ritar fundargerðir.

45. gr. Efni fundargerða.

Í fundargerð nefndar skulu ekki koma fram þagnarskyldar upplýsingar. Eftirfarandi atriði skulu koma fram í fundargerð:

  1. Fundardagur og fundarstaður.
  2. Tegund fundar, þ.e. hvort fundur er lokaður, opinn fréttamönnum eða opinn fundur. Tilgreina skal ef fundur er fjarfundur.
  3. Fundartími, þ.e. upphaf fundar og lok.
  4. Nöfn viðstaddra nefndarmanna. Ef varaþingmaður, varamaður eða staðgengill situr fund skal skráð fyrir hvaða nefndarmann hann situr fundinn. Jafnframt skal skrá nöfn áheyrnarfulltrúa.
  5. Forföll nefndarmanna og eftir atvikum ástæður þeirra. Ef nefndarmaður víkur af fundi fyrir lok hans skal það skráð.
  6. Þátttaka einstakra nefndarmanna eða gesta í fundi með fjarfundarbúnaði, sbr. IX. kafla.
  7. Nöfn starfsfólks nefndar sem situr fundinn.
  8. Nöfn gesta sem koma á fund nefndarinnar og fyrir hverja þeir eru fulltrúar.
  9. Mál sem tekin eru fyrir á fundi. Þingmál skulu skráð með málsnúmeri og heiti máls og önnur mál auðkennd með skýrum hætti eftir efni þeirra.
  10. Ákvarðanir um meðferð máls, þ.m.t. ákvarðanir um framsögumann og umsagnarfrest máls og ákvarðanir um að taka við trúnaðarupplýsingum, sbr. 37. gr.
  11. Ákvarðanir um afgreiðslu máls. Geta skal hvernig nefnd hyggst standa að afgreiðslu máls. Tilgreina skal ef einstakir nefndarmenn hyggjast rita undir álit nefndar með fyrirvara. Ef nefnd er ekki einhuga um afgreiðslu máls skal tilgreina hverjir standa að áliti hvers hluta hennar.
  12. Bókanir sem einstakir nefndarmenn gera um meðferð máls eða afgreiðslu þess, sbr. 46. gr.

46. gr. Bókanir.

Einstakir nefndarmenn geta lagt fram bókun í fundargerð. Bókanir skulu vera afmarkaðar og hnitmiðaðar. Nefndarmaður gerir grein fyrir bókun sinni og leggur hana fram skriflega fyrir lok fundar.

47. gr. Samþykkt og birting.

Fundargerð skal að jafnaði lögð fram til samþykktar í lok fundar eða í upphafi næsta fundar. Athugasemdir nefndarmanna við fundargerð skulu bókaðar í fundargerð næsta fundar. Eftir samþykkt skal fundargerð birt á vef þingsins.

IX. NOTKUN FJARFUNDARBÚNAÐAR

48. gr. Heimild til notkunar fjarfundarbúnaðar og fjarfundir.

1. mgr. Undanþáguheimild.

Nefndarmönnum er skylt að sækja nefndarfund á fundarstað. Þó er nefndarmönnum heimilt að taka þátt í nefndarfundi með fjarfundarbúnaði þegar sérstaklega stendur á, svo sem af heilsufars- eða sóttvarnaástæðum, vegna samgöngutruflana eða veikinda aðstandenda eða þegar fundir eru haldnir utan starfsáætlunar þingsins, sbr. 1. mgr. 17. gr. þingskapa. Nýti nefndarmaður fjarfundarbúnað til að taka þátt í fundi skal hann tilkynna formanni og starfsfólki nefndar þar um með hæfilegum fyrirvara.

2. mgr. Fyrirsjáanleg forföll.

Heimild til notkunar fjarfundarbúnaðar nær ekki til nefndarmanna sem eru forfallaðir vegna fyrirsjáanlegra aðstæðna, t.d. vegna funda erlendis sem eru hluti alþjóðastarfs Alþingis.

3. mgr. Fjarfundir samkvæmt ákvörðun forseta.

Forseti getur ákveðið að nefndir fundi eingöngu með fjarfundarbúnaði á ákveðnu tímabili þegar sérstaklega stendur á, svo sem af sóttvarnaástæðum. Ákvæði þessa kafla taka annars vegar til slíkra fjarfunda nefnda og hins vegar þess þegar einstakir nefndarmenn, starfsfólk eða gestir taka þátt í fundi með fjarfundarbúnaði.

49. gr. Þátttaka nefndarmanna og gesta.

1. mgr. Réttindi nefndarmanns.

Nefndarmaður sem nýtir sér fjarfundarbúnað samkvæmt heimild í 1. mgr. 17. gr. þingskapa getur tekið þátt í afgreiðslu máls og telst hluti af ályktunarbærri nefnd. Hann hefur málfrelsi, rétt til að bera upp tillögur og greiða atkvæði um þær, rétt til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um afgreiðslu mála og til að leggja fram bókun í fundargerð.

2. mgr. Fundarstjórn.

Nýti formaður nefndar sér fjarfundarbúnað til að taka þátt í fundi sem ekki er fjarfundur skal hann fela varaformanni eða öðrum nefndarmanni fundarstjórn.

3. mgr. Gestir.

Gestum á nefndarfundum skal að jafnaði heimilt að taka þátt í fundum með fjarfundarbúnaði óski þeir þess.

50. gr. Lokaður fundur.

Fundarmenn sem taka þátt í fundum með fjarfundarbúnaði skulu gæta ákvæðis 19. gr. þingskapa um lokaða nefndarfundi, vera í einrúmi í lokuðu rými án truflana og tryggja að aðrir séu ekki viðstaddir eða heyri eða sjái það sem fram fer á fundinum. Upptaka á nefndarfundum er óheimil, sbr. 19. gr. þingskapa.

51. gr. Hljóð og mynd.

Fundarmenn skulu að jafnaði vera í mynd meðan á fundi stendur. Ef einhver nefndarmaður óskar eftir því að nefndarmenn séu í mynd skal verða við því. Fundarmenn skulu hafa slökkt á hljóðnema nema formaður gefi þeim orðið.

52. gr. Tenging við fund.

1. mgr. Tenging með fyrirvara.

Nefndarmenn skulu leitast við að tengjast fundi með góðum fyrirvara svo að unnt sé að tryggja tengingu við fundinn áður en hann hefst.

2. mgr. Ráðstafanir ef tenging rofnar.

Ef tenging rofnar eða ekki tekst að koma á tengingu við nefndarmann með fjarfundarbúnaði getur hann látið í ljós afstöðu sína með öðrum sannanlegum hætti, svo sem með símtali við formann í áheyrn annarra nefndarmanna eða með tölvupósti. Telst hann þá hluti af ályktunarbærri nefnd og hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu um mál eða öðrum ákvörðunum nefndar. Unnt er að óska eftir því að nefndarmaður sem þannig er ástatt fyrir staðfesti afstöðu sína, svo sem með tölvupósti.

53. gr. Takmarkanir.

1. mgr. Trúnaðarupplýsingar.

Heimild til notkunar fjarfundarbúnaðar nær ekki til þeirra tilvika þegar leggja á fram trúnaðarupplýsingar á fundi nefndar, sbr. 5. mgr. 19. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 51. gr. þingskapa.

2. mgr. Opinn fjarfundur.

Hafi forseti ákveðið að nefndir fundi almennt með fjarfundarbúnaði í ljósi sérstakra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 48. gr., er heimilt að halda opinn fund, sbr. 3.–6. mgr. 19. gr. þingskapa, sem fjarfund. Þátttaka einstakra nefndarmanna í opnum fundi, sem ekki er fjarfundur, með fjarfundarbúnaði er óheimil.

X. OPNIR FUNDIR

54. gr. Opnir fundir.

1. mgr. Heimild til að halda opinn fund.

Nefnd getur haldið opinn fund, sbr. 3. mgr. 19. gr. þingskapa, í því skyni að afla sér upplýsinga um þingmál sem vísað hefur verið til hennar eða um mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði, sbr. 26. gr. þingskapa. Opinn fund nefndar skal ekki halda meðan þingfundur stendur yfir.

2. mgr. Gestir á opnum fundi.

Nefnd getur óskað eftir því að núverandi eða fyrrverandi ráðherra, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana, formenn ráða og nefnda á vegum ríkisins, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður Alþingis, fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar sem ekki starfa undir stjórn eða á ábyrgð ráðherra komi á opinn fund og veiti nefndinni upplýsingar. Fari að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna fram á slíkan fund skal formaður leita eftir því með hæfilegum fyrirvara við þann sem beðinn er að koma á opinn fund að hann verði við því og gera honum grein fyrir tilefni fundarins, sbr. 3. mgr. 19. gr. þingskapa.

55. gr. Tilkynning og dagskrá.

Formaður skal sjá til þess að nefndarmenn og gestir séu upplýstir um tilefni og tilhögun opins fundar að jafnaði eigi síðar en þremur dögum fyrir fundardag. Þegar ákvörðun liggur fyrir um að halda opinn fund skal hann tilkynntur á vef Alþingis eins fljótt og auðið er. Þar skal greint frá dagskrá fundarins, fundarstað og hvaða gestir sitji fundinn.

56. gr. Útsending og aðgangur.

1. mgr. Útsending og upptaka.

Opnir fundir skulu haldnir í heyranda hljóði og að jafnaði sendir út á vef Alþingis í hljóði og mynd. Opnir fundir skulu teknir upp og upptökur að jafnaði vera aðgengilegar á vef Alþingis.

2. mgr. Fjölmiðlar og almenningur.

Fjölmiðlar skulu eiga þess kost að fylgjast með opnum fundi á fundarstað. Jafnframt skal fundurinn opinn almenningi eftir því sem húsrúm leyfir. Fjölmiðlum er heimilt að sýna beint frá opnum nefndarfundi óski þeir þess, enda beri þeir allan kostnað af slíkri útsendingu.

3. mgr. Áhorfendur á fundarstað.

Áhorfendum á fundarstað ber að gæta þess að valda ekki ónæði og haga umgengni og myndatökum eftir því. Heimilt er að víkja af fundi áhorfanda sem raskar friði á fundinum eða ef framkoma hans er óviðeigandi í orði eða verki.

57. gr. Tilhögun fundar.

Í upphafi opins nefndarfundar skal formaður gera grein fyrir fundarefni, tilefni fundar og gögnum sem liggja til grundvallar áður en gestum eða öðrum nefndarmönnum er gefið orðið. Hann skal jafnframt gera stutta grein fyrir fyrirkomulagi fundarins.

58. gr. Fyrirkomulag umræðna.

1. mgr. Framsaga og orðaskipti á nefndarfundum.

Miða skal við að framsaga talsmanns hvers hóps gesta sem á fund kemur sé ekki lengri en 10 mínútur. Orðaskipti nefndarmanns og gests að lokinni framsögu séu ekki lengri en 5 mínútur í heild. Frá þessum tímamörkum má þó víkja eftir aðstæðum. Spurningum nefndarmanns skal að jafnaði svara áður en næsti nefndarmaður fær orðið. Talsmanni hóps er heimilt að fela öðrum úr hópnum að svara einstökum spurningum.

2. mgr. Umræður á opnum fundum.

Á opnum fundi skulu nefndarmenn einvörðungu beina spurningum til gesta. Þeir skulu ekki setja fram almennar hugleiðingar um efni fundarins eða efna til umræðna um fundarefnið sín í milli. Í lok fundar skal að jafnaði einn fulltrúi hvers flokks sem fulltrúa á í nefndinni þó eiga þess kost að lýsa stuttlega afstöðu sinni til þess máls sem fyrir fundinum liggur og þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram hjá gestum.

59. gr. Um trúnaðarupplýsingar.

Óheimilt er að miðla upplýsingum á opnum fundi, eða vísa til þeirra, sem eiga að fara leynt samkvæmt ákvæðum þingskapa, reglum um þagnarskyldu eða upplýsingalögum, sbr. VII. kafla. Formaður nefndar getur ákveðið að fundi skuli lokað svo að leggja megi fram slíkar trúnaðarupplýsingar, sbr. 5. mgr. 19. gr. þingskapa.

XI. AÐKEYPT SÉRFRÆÐIAÐSTOÐ

60. gr. Aðkeypt sérfræðiaðstoð.

1. mgr. Heimild.

Nefnd er heimilt að afla sér sérfræðiaðstoðar frá aðilum utan skrifstofu Alþingis í samræmi við 2. mgr. enda sé þingmálið eða verkefnið svo umfangsmikið eða krefjist slíkrar sérþekkingar að ætla megi að ekki verði úr því leyst með öðrum hætti, svo sem með aðstoð starfsfólks Alþingis eða ráðuneyta.

2. mgr. Efni aðstoðar og álitsgerð.

Með aðkeyptri sérfræðiaðstoð er átt við aðstoð sérfræðings eða sérfræðinga samkvæmt beiðni nefndar. Aðstoðin getur t.d. varðað umfjöllun og mat á ákveðnum álitamálum um þingmál sem til umfjöllunar eru í nefndinni eða undirbúning máls sem nefnd hyggst vinna að eigin frumkvæði. Sá sem veitir nefnd sérfræðiaðstoð skal skila henni skriflegri álitsgerð um athugun sína.

61. gr. Beiðni og verksamningur.

1. mgr. Beiðni.

Óski nefnd eftir aðkeyptri sérfræðiaðstoð beinir formaður beiðni þar um til nefndasviðs.

2. mgr. Verksamningur.

Sérfræðiaðstoðin skal byggjast á skriflegum verksamningi sem skal staðfestur af forstöðumanni nefndasviðs enda sé umfang verksins eðlilegt miðað við fjárveitingu til þessa þáttar í árlegri rekstraráætlun Alþingis. Í verksamningi skal á sem nákvæmastan hátt kveðið á um:

  1. hver vinni verkið og fyrir hvern,
  2. verklýsingu,
  3. áætluð verklok,
  4. birtingu og kynningu,
  5. kostnað.

3. mgr. Kostnaður.

Liggi fyrir að verk verði sérstaklega kostnaðarsamt, þ.e. fari umfram 25% af heildarfjárveitingu hvers árs eða rúmist ekki innan fjárveitingar sem til ráðstöfunar er hverju sinni, skal leita fyrir fram til forseta um heimildir.

62. gr. Beiðni hafnað.

Telji nefndarmaður að tillögu sinni um sérfræðiaðstoð hafi verið ranglega hafnað eða hann getur ekki fellt sig við þann sem meiri hluti nefndar hyggst fela verkefnið er honum heimilt að skjóta málinu til forseta.

63. gr. Þýðingar.

1. mgr. Heimild.

Nefnd er heimilt að fá þýddan á íslensku erlendan texta sem varðar mál sem nefndin hefur til umfjöllunar eða sem ætlaður er til birtingar í nefndaráliti, enda sé umfang verksins eðlilegt miðað við fjárveitingu til þessa þáttar í árlegri rekstraráætlun Alþingis.

2. mgr. Beiðni.

Nefnd skal koma óskum um þýðingar á framfæri við forstöðumann nefndasviðs sem skal fela löggiltum skjalaþýðanda að annast verkið.

3. mgr. Kostnaður.

Kostnaður við þýðingar samkvæmt reglum þessum skal greiddur af Alþingi og færður á sérstakan reikning nefndasviðs. Liggi fyrir að verk verði sérstaklega kostnaðarsamt, þ.e. fari umfram 25% af heildarfjárveitingu hvers árs eða rúmist ekki innan fjárveitingar sem til ráðstöfunar er hverju sinni, skal leita fyrir fram til forseta um heimildir.

XII. HEIMSÓKNIR OG FERÐIR INNAN LANDS

64. gr. Heimsóknir nefnda.

Nefnd er heimilt að heimsækja aðila utan þingsins að eigin frumkvæði eða samkvæmt sérstöku boði enda hljótist ekki af því umtalsverður kostnaður. Almennt skulu slíkar heimsóknir farnar utan þingfundatíma en ella skal liggja fyrir samþykki nefndarmanna, sbr. 20. gr. þingskapa. Heimsóknir nefnda skulu bókaðar í fundargerð.

65. gr. Vettvangsferðir.

Nefnd er heimilt að fara í vettvangsferð innan lands og skal bera tillögu um tilhögun ferðar og kostnaðaráætlun undir samþykki forstöðumanns nefndasviðs. Rúmist ferð ekki innan fjárveitingar sem til ráðstöfunar er eða fari hún umfram 25% af heildarfjárveitingu hvers árs skal leita samþykkis forsætisnefndar. Reglur um dvalar- og ferðakostnað þingmanna eiga við um vettvangsferðir nefnda.

XIII. UTANFERÐIR

66. gr. Ferðir nefnda og formanna nefnda utan lands.

1. mgr. Umsókn til forsætisnefndar.

Nefndir og formenn þeirra geta óskað eftir því við forsætisnefnd að fá að afla sér fræðslu erlendis í tengslum við málefnasvið nefndar, sbr. 68. gr.

2. mgr. Heimild nefnda og formanna til fræðsluöflunar erlendis.

Sérhver nefnd, að undanskilinni utanríkismálanefnd, sbr. 67. gr., skal eiga þess kost að ferðast utan og afla fræðslu erlendis einu sinni á kjörtímabili. Þá skulu formenn nefnda, að undanskildum formanni utanríkismálanefndar, eiga þess kost að sækja fundi eða ráðstefnur erlendis einu sinni á kjörtímabili.

3. mgr. Fullskipuð nefnd.

Ef nefnd er veitt heimild til fræðsluferðar skal hún eiga kost á að fara utan fullskipuð með öllum sem sæti eiga í nefndinni auk áheyrnarfulltrúa.

4. mgr. Starfsfólk.

Starfsfólk nefndar fylgir nefnd og formanni hennar í ferðum samkvæmt þessum kafla.

67. gr. Utanríkismálanefnd.

1. mgr. Ferðir nefndar.

Utanríkismálanefnd á þess kost að fara utan fullskipuð einu sinni á ári.

2. mgr. Ferðir formanns.

Formaður utanríkismálanefndar á þess kost að sækja fundi eða ráðstefnur erlendis tvisvar á ári.

3. mgr. Annað alþjóðastarf.

Utanríkismálanefnd sinnir öðru alþjóðastarfi eftir því sem forsætisnefnd ákveður við árlega samþykkt starfsheimilda fyrir alþjóðastarf Alþingis, sbr. 36. gr. þingskapa.

68. gr. Umsóknir.

1. mgr. Umsókn um ferðaheimild.

Nefndir aðrar en utanríkismálanefnd og formenn þeirra sem óska eftir því að fara utan í fræðsluferð skulu leggja fram formlega beiðni til forsætisnefndar ásamt greinargerð. Í greinargerð skal koma fram tilgangur ferðar, tengsl við starfsemi nefndar, sbr. 1. mgr. 66. gr., drög að dagskrá, ferðatilhögun og kostnaðaráætlun.

2. mgr. Ákvörðun forsætisnefndar.

Forsætisnefnd tekur ákvörðun um hvaða nefndir og formenn nefnda fá heimild til ferða samkvæmt þessum kafla.

3. mgr. Tímasetning utanferða.

Nefndir skulu leitast við að skipuleggja fræðsluferðir erlendis utan þingfundatíma. Ef það er ekki unnt skal ætíð tilkynnt um slíkt með góðum fyrirvara og aflað samþykkis forseta.

69. gr. Upplýsingagjöf.

1. mgr. Tilkynning á vef.

Tilkynna skal um utanferð og birta dagskrá hennar á vef Alþingis.

2. mgr. Frásögn um ferð.

Nefnd skal að fræðsluferð lokinni gera grein fyrir henni með stuttri frásögn, m.a. um helstu fundi og niðurstöður þeirra. Frásögnin skal send forsætisnefnd og birt á vef Alþingis.

70. gr. Fjárveitingar.

Ákvörðun um fjárveitingu og heimildir til ferða nefnda erlendis skal tekin samhliða árlegri ákvörðun forsætisnefndar um fjárheimildir, starfsheimildir og viðmið fyrir alþjóðastarf Alþingis. Að jafnaði skal miða við að allt að þrjár nefndir auk utanríkismálanefndar geti farið utan á hverju ári og að allt að þrír formenn nefnda auk formanns utanríkismálanefndar geti sótt fundi eða ráðstefnur erlendis, sbr. 66.–67. gr.

XIV. GILDISTAKA

71. gr. Gildistaka, lagastoð og brottfall reglna.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 5. mgr. 8. gr., 6. mgr. 19. gr., 21. gr., 2. mgr. 28. gr., 3. mgr. 30. gr., 33. gr. og 3. mgr. 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og öðlast gildi 1. október 2021. Við gildistöku reglna þessara falla úr gildi:

  1. Starfsreglur fyrir fastanefndir Alþingis frá 27. september 2011.
  2. Reglur um opna fundi fastanefnda Alþingis sem sendir eru út í sjónvarpi og á vef Alþingis frá 13. febrúar 2012.
  3. Reglur um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis frá 9. nóvember 1995, með síðari breytingum.
  4. Reglur um meðferð erinda til þingnefnda frá 5. desember 1994, með síðari breytingum.
  5. Reglur um sérfræðilega aðstoð fyrir fastanefndir Alþingis frá 20. mars 2007.
  6. Reglur um frágang fundargerða fastanefnda Alþingis frá 5. desember 1994, með síðari breytingum.
  7. Reglur um störf nefnda utan þingtíma frá 2. júlí 1991.
  8. Reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga frá 21. febrúar 2012.
  9. Reglur um utanferðir fastanefnda Alþingis frá 20. mars 2007.
  10. Reglur um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum fastanefnda frá 11. nóvember 2020.

[Samþykkt á fundi forsætisnefndar 16. ágúst 2021.]