Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.

Þskj. 441  —  397. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Í stað 1. og 2. málsl. 12. gr. laganna kemur einn málsliður sem orðast svo: Þegar fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi fer ekki að ákvæðum laga, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda eða einstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar eða veitir ekki þær upplýsingar sem honum er skylt að afhenda stofnuninni er henni heimilt að leggja á og innheimta dagsektir sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,20%“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 0,30%.
     b.      12. mgr. orðast svo:
                      Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið að veita samkvæmt lögum þessum, lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Heimilt er að taka gjald, sem miðast við kostnað, fyrir eftirfarandi þætti: skráningu fyrirtækja, útgáfu leyfisbréfa og skírteina, mælingar, innsiglanir og skoðun fjarskiptabúnaðar. Auk þess er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að taka gjald fyrir aðra þjónustu sem aðilar óska eftir. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu, auk ferða og uppihalds sem af því leiðir.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 14. gr. a og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gjald fyrir tíðninotkun.

    Þeir aðilar sem fengið hafa heimild til að nota tíðnir til þráðlausra fjarskipta skulu greiða árlegt gjald til Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt því sem hér segir:
     1.      Radíóstöðvar með skipa- og flugtíðnum.
                  a.      Með milli- og stuttbylgju (MF/HF)     6.400 kr.
                  b.      Án milli- og stuttbylgju (aðeins VHF)     4.100 kr.
     2.      Farstöðvarásir.
                  a.      Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 1     63.000 kr.
                  b.      Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 2 eða 3     12.600 kr.
                  c.      Fyrir samnýttar rásir greiðist 25% af gjaldi skv. a- og b-lið eftir því sem við á.
                  d.      Aðilar að landssamtökum björgunarsveita greiða 25% af gjaldi skv. a- og b-lið.
     3.      Jarðstöðvar.
                  a.      Jarðstöðvar með sendiafl minna en 50 dBW     25.100 kr.
                  b.      Jarðstöðvar fyrir almenn fjarskiptanet     25.100 kr.
     4.      Fastasambönd.
                  a.      Grunngjald fyrir hvert fastasamband     10.000 kr.
                  b.      Að auki fyrir hvert MHz     830 kr.
     5.      Almenn farsímanet (t.d. NMT, GSM, 3G). Fyrir hvert MHz     256.500 kr.
     6.      TETRA neyðar- og öryggisnet. Fyrir hvert MHz     64.100 kr.
     7.      Þráðlaus aðgangsnet.
                  a.      Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 1     33.800 kr.
                  b.      Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 2     22.500 kr.
                  c.      Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 3     2.300 kr.
     8.      Fyrir hverja rás í sjónvarpssendi.
                  a.      Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira     119.000 kr.
                  b.      Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W     89.000 kr.
                  c.      Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W     59.300 kr.
                  d.      Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira     29.700 kr.
                  e.      Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W     22.200 kr.
                  f.      Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W     14.800 kr.
                      Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu sjónvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.
     9.      Fyrir hverja rás í hljóðvarpssendi.
                  a.      Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira     29.600 kr.
                  b.      Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W     22.200 kr.
                  c.      Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W     14.800 kr.
                  d.      Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira     7.400 kr.
                  e.      Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W     5.600 kr.
                  f.      Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W     3.700 kr.
                      Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu hljóðvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.
    Gjaldsvæði sem tilgreind eru í 1. mgr. skulu afmörkuð sem hér segir:
     a.      Gjaldsvæði 1: Allt landið.
     b.      Gjaldsvæði 2: Suðvesturland frá Suðurnesjum til Akraness.
     c.      Gjaldsvæði 3: Einstök svæði utan gjaldsvæðis 2.
    Gjalddagi gjalda samkvæmt þessari grein er 1. mars ár hvert fyrir notkun tíðna á því sama ári. Handhafi heimildar til tíðninotkunar á gjalddaga er ábyrgur fyrir greiðslunni.
    Miða skal greiðslu árlegra tíðnigjalda við þann dag þegar heimild til tíðninotkunar tekur gildi, óháð því hvenær viðkomandi tíðni er tekin í notkun.
    Ef heimild til tíðninotkunar er gefin út eftir 1. mars ber að greiða árlegt tíðnigjald við útgáfu heimildarinnar og skal þá greiða í hlutfalli við það sem eftir er af árinu og telst útgáfumánuður heimildarinnar með sem heill mánuður.
    Fyrir heimild sem gildir skemur en sex mánuði skal taka hálft árlegt gjald og fyrir heimild til að nota tíðnir til tilrauna greiðast 50.000 kr. Gjöld samkvæmt þessari málsgrein greiðast við útgáfu heimildar.
    Allar tekjur samkvæmt þessari grein skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar sem annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun.
    Frumvarpið miðar að því að breyta tekjugrunni Póst- og fjarskiptastofnunar en lagðar eru til breytingar á tekjustofnum stofnunarinnar þannig að starfrækslugjöld sem kveðið hefur verið á um í gjaldskrá eru sett inn í lögin sem gjald fyrir tíðninotkun. Þessi breyting miðar að því að einfalda gjaldstofna stofnunarinnar og ýta undir hagnýta notkun tíðna.
    Þá eru lagðar til breytingar á dagsektarákvæði laganna en þar er verið að leggja til breytingar til samræmis við breytingar sem lagar eru til að gerðar verði á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, í frumvarpi sem lagt er fram á þessu löggjafarþingi. Með þessum breytingum er aðallega verið að samræma ákvæði laganna er fjalla um dagsektir og ákvæði laga um fjarskipti um sama efni.

Breyting á tekjustofnum Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Í 14. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, er kveðið á um núgildandi tekjustofna stofnunarinnar. Tekjustofnar hennar eru þrír, rekstrargjald, númeragjald og gjaldskrá. Samanlagðar tekjur stofnunarinnar á árinu 2005 samkvæmt ársreikningi miðað við núgildandi lög námu 220,7 millj. kr. sem sundurliðast þannig:
         Rekstrargjald     71,7 millj. kr.
         Númeragjald     32,3 millj. kr.
         Tekjur samkvæmt gjaldskrá     116,7 millj. kr.
    Rekstrarkostnaður stofnunarinnar nam á sama tíma 219,4 millj. kr. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til jöfnunargjalds sem stofnuninni er falin umsýsla með enda hefur það hvorki áhrif á tekjur né gjöld.
    Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á gjöldum sem stofnunin hefur innheimt samkvæmt gjaldskrá. Þannig er lagt til að gjöld sem ákveðin hafa verið í gjaldskránni og staðið hafa undir kostnaði við umsýslu stofnunarinnar vegna starfrækslu gjaldenda á þráðlausum fjarskiptabúnaði verði felld brott úr gjaldskránni. Í staðinn verði sett inn í lögin lögbundið gjald fyrir notkun tíðna sem tiltekið verði sérstaklega í lögunum.
    Skipulagning tíðninotkunar og almennt eftirlit með sendibúnaði af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar er nauðsynlegt til þess að hægt sé að starfrækja þráðlaus fjarskipti. Þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar miðar að því að tryggja öryggi þráðlausra fjarskipta og koma í veg fyrir truflanir. Þetta er þjónusta við þá sem nota ljósvakann til fjarskipta og því eðlilegt að þeir beri kostnað af þeirri umsýslu sem starfsemin kallar á. Það er hins vegar nokkrum vandkvæðum háð að sérgreina kostnað við þjónustu við einstaka gjaldendur. Því þykir eðlilegt í takt við þau viðhorf sem ríkja í dag varðandi gjaldtöku hins opinbera að gjöld þessi verði ákveðin með lögum.
    Tillaga að gjöldum fyrir tíðninotkun byggist á vandaðri greiningu sem gerð var á kostnaði við umsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þráðlausra fjarskipta og felur í sér lækkun á heildargjaldtöku sem nemur rúmlega 18% miðað við núverandi aðstæður.
    Í tillögunni er gjöldum skipt niður á níu töluliði eftir eðli þeirrar fjarskipta sem um er að ræða. Gert er ráð fyrir að tekjur af hverjum tölulið standi undir umsýslukostnaði sem honum tengist. Við skiptingu kostnaðar á einstaka liði er tekið tillit til ýmissa þátta sem hafa bein áhrif á vinnuframlag og kostnað við umsjón stofnunarinnar með þráðlausum fjarskiptum, t.d. skipulag á notkun tíðnirófsins, vinnu við skipulag og undirbúning tíðniúthlutana, gagnabanka fyrir tíðniheimildir og viðbrögð við radíótruflunum. Þessir þættir eru t.d. stærð tíðnisviðsins og þéttleiki notkunar á viðkomandi tíðnisviði sem er að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við fjölda notenda á viðkomandi svæði. Stærð þess svæðis sem tíðniheimildin nær til hefur einnig áhrif þar sem tíðniheimild fyrir allt landið felur í sér meiri umsjónarkostnað en svæðisbundin heimild. Þegar um samnýttar rásir er að ræða er áætluðu vinnuframlagi og kostnaði við umsjón stofnunarinnar deilt niður á þá sem samnýta rásirnar. Fyrrgreindir þættir hafa mismunandi áhrif á einstaka liði og er tekið tillit til þess.
    Þá eru lagðar til breytingar á núgildandi ákvæði laganna er heimila samgönguráðherra að setja stofnuninni gjaldskrá. Heimild hefur verið í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun frá upphafi til þess að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá sem samgönguráðherra setur. Í samræmi við þá tillögu að kveða á um lögbundið tíðnigjald er nauðsynlegt að breyta gjaldskrárákvæði laganna til samræmis við það. Þá eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðinu í þátt átt að skýra nánar hvaða þjónusta það er sem taka má gjald fyrir og hvaða þætti ber að leggja til grundvallar þegar reiknaður er kostnaður við einstaka þjónustuþætti.
    Þessar breytingar á gjaldskrá sem hér eru lagðar til munu leiða til um 13 millj. kr. tekjulækkunar fyrir stofnunina. Þá komst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 29. mars sl. í máli nr. 3/2006 að rekstrargjald skyldi ekki lengur lagt á innri veltu vegna sölu á fjarskiptaþjónustu milli deilda innan sama fyrirtækis auk virðisaukandi þjónustu. Þessi breyting á framkvæmd sem verið hefur á álagningu rekstrargjalds um árabil hefur í för með sér tekjuskerðingu fyrir Póst- og fjarskiptastofnun sem nemur u.þ.b. 14 millj. kr. á ári. Þessi niðurstaða hefur þær afleiðingar að gjaldstofn rekstrargjalds verður lægri en stofnunin hefur gert ráð fyrir í áætlunum sínum undanfarin ár. Í þessu frumvarpi er því lagt til að rekstrargjald sem fjarskiptafyrirtækjum ber að greiða hækki úr 0,2% í 0,3%. Þessi hækkun á rekstrargjaldinu mun leiða til 25 millj. kr. tekjuhækkunar fyrir stofnunina á ári sem mun að mestu leyti dekka það tekjutap sem stofnunin verður fyrir að öðru leyti með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til og með fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Með þessum breytingum á gjaldstofnum er þannig ekki gert ráð fyrir því að heildartekjur stofnunarinnar hækki heldur að þær standi í stað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með þessu ákvæði eru lagðar til breytingar á 12. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, til samræmis við þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, sbr. frumvarp sem lagt er fram á þessu löggjafarþingi. Breytingin felur í sér að dagsektarheimildir verða felldar úr fjarskiptalögum þannig að einungis verður um eina dagsektarheimild að ræða í 12. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Því er nauðsynlegt að gera breytingu á orðalagi þess ákvæðis. Ekki er verið að þrengja dagsektarheildir Póst- og fjarskiptastofnunar frá því sem nú er. Þá ber að túlka hugtakið ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar rúmt þannig að það taki ekki eingöngu til stjórnvaldsákvarðana heldur einnig til kvaða sem stofnunin kann að leggja á samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum og póstþjónustu, svo og formlegar ákvarðanir hennar um málsmeðferð.

Um 2. gr.

    Lagt er til árlegt rekstrargjald sem fjarskiptafyrirtæki skulu greiða til Póst- og fjarskiptastofnunar hækki úr 0,2% af bókfærðri veltu í 0,3%. Þetta mun skila stofnuninni auknum tekjum sem nemur um 25 millj. kr. á ári.
    Heimild hefur verið í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun frá upphafi til þess að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá sem samgönguráðherra setur. Hér eru lagðar til breytingar á gjöldum sem kveða má á um í gjaldskrá. Gjöld sem ákveðin eru í gjaldskrá hafa m.a. staðið straum af kostnaði við umsýslu stofnunarinnar vegna starfrækslu gjaldenda á þráðlausum fjarskiptabúnaði. Lagt er til að heimild til að taka þjónustugjöld fyrir umsýslu með þráðlausum fjarskiptum verði nú felld brott enda er gert ráð fyrir að sú starfsemi verði framvegis fjármögnuð með lögbundnu gjaldi. Þá er kveðið á um hvaða kostnað leggja má til grundvallar þegar reiknaður er kostnaður við einstaka þjónustuþætti.

Um 3. gr.

    Lagt er til að í stað þess að innheimta starfrækslugjöld af búnaði fyrir þráðlaus fjarskipti í gjaldskrá, eins og núgildandi ákvæði gera ráð fyrir, verði tekið upp lögbundið gjald fyrir notkun tíðna.
    Í 1. mgr. er gjöldum skipt niður á níu töluliði eftir eðli þeirra fjarskipta sem um er að ræða:
     1.      Radíóstöðvar með skipa- og flugtíðnum.
    Radíóstöð felur í sér allan fjarskiptabúnað um borð í skipum eða flugvélum. Sérhvert skip eða flugvél hefur þannig eina radíóstöð sem getur samanstaðið af fjölda fjarskiptatækja sem vinna á hinum ýmsu tíðnisviðum. Skip og flugvélar nota alþjóðlegar tíðnir og er notkun þeirra háð heimild stjórnvalda. Öll notkun þessara tíðna lýtur mjög ströngum alþjóðlegum reglum og ber Póst- og fjarskiptastofnun að sjá til þess að þeim sé fylgt. Fjarskipti á þessum tíðnum eru fyrst og fremst neyðar- og öryggisfjarskipti sem fela m.a. í sér að öllum tilkynningum til Póst- og fjarskiptastofnunar um truflanir á þessum tíðnum verður að sinna með algerum forgangi. Gerður er greinarmunur á tíðnigjaldi eftir því hvort radíóstöðin er með millibylgju- eða stuttbylgjusendingar (MF/HF) eða eingöngu metrabylgjusendingar (VHF). Það er rökstutt með því að fjarskipti á MF/HF eru í eðli sínu alþjóðleg, en fjarskipti á VHF eru nánast eingöngu bundin við fjarskipti innan íslenskrar lögsögu. Þessi töluliður nær einnig til senda í landi með flug- og skipatíðnum.
     2.      Farstöðvarásir.
    Farstöðvarásir eru notaðar fyrir lokuð fjarskiptanet fyrir tilgreindan hóp. Þær má nota bæði fyrir tal og gagnaflutning. Lagt er til að tekið verði gjald fyrir hverja 25 kHz rás. Ef tíðniheimildin er bundin við takmarkað svæði sem unnt er að þjóna með einni móðurstöð greiðist einn fimmti af gjaldi því sem greiða þarf fyrir notkun á öllu landinu, enda er gengið út frá því að unnt sé að endurúthluta viðkomandi rás allt að fimm sinnum á öðrum svæðum. Gjaldið miðast við að rásin sé aðeins notuð af einum aðila. Ef fleiri en einn aðili samnýta rás, t.d. með notkun tónsendis og sítónsloka, greiðist einn fjórði af gjaldi því sem greitt er fyrir einkarás, enda gengið út frá því að unnt sé að endurúthluta viðkomandi rás til allt að fjögurra aðila.
     3.      Jarðstöðvar.
    Við fjarskipti um gervihnetti eru notaðar alþjóðlegar tíðnir. Öll notkun þessara tíðna lýtur alþjóðlegum reglum og ber Póst- og fjarskiptastofnun að sjá til þess að þeim sé fylgt.
     4.      Fastasambönd.
    Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar með tíðnum fyrir fastasambönd er að öðru jöfnu í hlutfalli við stærð tíðnisviðsins. Því er eðlilegt að gjaldtakan sé fyrir hvert MHz. Hins vegar krefst sérhvert fastasamband, óháð stærð tíðnisviðsins, vissrar lágmarksumsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar. Þess vegna er gert ráð fyrir grunngjaldi fyrir sérhvert fastasamband óháð stærð tíðnisviðsins auk tiltekins gjalds á hvert MHz.
     5.      Almenn farsímanet (t.d. NMT, GSM, 3G).
    Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar með tíðnum fyrir almenn farsímanet er að öðru jöfnu í hlutfalli við stærð tíðnisviðsins. Því er eðlilegt að gjaldtakan sé fyrir hvert MHz. Gjaldið er miðað við að tíðniheimildin nái til alls landsins.
     6.      TETRA neyðar- og öryggisnet.
    Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar með tíðnum fyrir TETRA-kerfið er að öðru jöfnu í hlutfalli við stærð tíðnisviðsins. Því er eðlilegt að gjaldtakan sé fyrir hvert MHz. Gjaldið er miðað við að tíðniheimildin nái til alls landsins.
     7.      Þráðlaus aðgangsnet.
    Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar með tíðnum fyrir þráðlaus aðgangsnet er að öðru jöfnu í hlutfalli við stærð tíðnisviðsins. Því er eðlilegt að gjaldtakan sé fyrir hvert MHz. Einnig verður að gera ráð fyrir að umsýsla stofnunarinnar sé að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við þéttleika þráðlausra fjarskipta á viðkomandi stað, t.d. fjölda notenda á tilteknu tíðnisviði á svæðinu. Gerður er greinarmunur á þremur gjaldsvæðum eftir því til hvaða svæða tíðniheimildin nær til en gjaldasvæðin eru nánar skilgreind í 2. mgr. Gjöld samkvæmt þessum tölulið eru óháð þeirri þjónustu sem veitt er yfir aðgangsnetið.
     8.      Sjónvarp (gjald fyrir hverja rás í sendi).
    Gjöldin eru miðuð við staðlaða stærð tíðnisviðs fyrir sjónvarpsrásir, þ.e. 8 MHz. Gjöldin eiga þó einnig við um sjónvarpsrásir á metrabylgju (VHF), enda þótt stærð tíðnisviðsins sé þar 7 MHz. Töluliðurinn getur einnig átt við önnur tíðnisvið sem notuð eru til sjónvarpsútsendinga, svo sem MMDS tíðnisviðið (fjölvarp).
    Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar er að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við fjölda notenda á því svæði sem tíðniheimildin nær til. Tíðniheimildir í þessum flokki eru staðbundnar og falla ýmist undir gjaldsvæði 2 eða 3, sbr. hér að framan. Einnig má ætla að umsýsla stofnunarinnar sé að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við sendistyrk sjónvarpssenda. Gerður er greinarmunur á þremur flokkum eftir sendistyrk:
     a.      Sendiafl 1 kW eða meira.
     b.      Sendiafl 100–999 W.
     c.      Sendiafl undir 100 W.
    Tíðnigjald samkvæmt þessum tölulið fellur niður fyrir sjónvarpssenda með sendiafl minna en 2W sem þjóna svæði með færri en 100 íbúum.
     9.      Hljóðvarp (gjald fyrir hverja rás í sendi).
    Gjöldin eru miðuð við staðlaða stærð tíðnisviðs fyrir hljóðvarpsrásir, þ.e. 300 kHz. Umsýsla Póst- og fjarskiptastofnunar er að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við fjölda notenda á því svæði sem tíðniheimildin nær til. Gerður er greinarmunur á gjaldsvæðum eftir því til hvaða svæða tíðniheimildin nær til líkt og í 8. tölul. Einnig má ætla að umsýsla stofnunarinnar sé að öðru jöfnu í réttu hlutfalli við sendistyrk hljóðvarpssenda. Því er gerður greinarmunur á þremur flokkum eftir sendistyrk.
     a.      Sendiafl 1 kW eða meira.
     b.      Sendiafl 100–999 W.
     c.      Sendiafl undir 100 W.
    Í 2 mgr. eru skilgreind þau gjaldsvæði sem gjaldtakan í 1. mgr. miðast við. Gjaldsvæðin eru þrjú:
     a.      Gjaldsvæði 1: Allt landið.
     b.      Gjaldsvæði 2: Suðvesturland frá Suðurnesjum til Akraness.
     c.      Gjaldsvæði 3: Einstök svæði utan gjaldsvæðis 2.
    Í 3.–5. mgr. eru almenn ákvæði um gjalddaga og upphaf greiðsluskyldu.
    Í 6. mgr. er fjallað um skammtímaleyfi. Til einföldunar er lagt til að fyrir öll skammtímaleyfi til sex mánaða eða skemur sé tekið hálft árgjald. Að auki er fjallað um tilraunaleyfi í ákvæðinu. Það er nokkuð um að fyrirtæki sæki um tíðniheimild til skamms tíma til þess að gera tilraunir með nýja fjarskiptatækni. Slík leyfi hafa oftast gildistíma á bilinu 6–12 mánuðir og er ekki heimilað að fyrirtæki hafi tekjur af viðkomandi starfsemi á tilraunatímabilinu. Í núgildandi gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar er gjald fyrir slíkt leyfi 30.000 kr. Mat á kostnaði hefur hins vegar leitt í ljós að meðalkostnaður við útgáfu slíks leyfis og eftirlit með nýtingu þess sé u.þ.b. 50.000 kr. og er því lagt til að ákveðið verði að innheimta þá fjárhæð við útgáfu tilraunaleyfa.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

    Frumvarpið miðar að því að breyta tekjugrunni Póst- og fjarskiptastofnunar. Helstu breytingar eru annars vegar að starfrækslugjöld sem kveðið hefur verið á um í gjaldskrá eru sett inn í lögin sem árlegt gjald fyrir tíðninotkun, auk þess sem lagðar eru til breytingar á gjaldskrárákvæðum laganna, og hins vegar að rekstrargjald sem fjarskiptafyrirtækjum ber að greiða hækkar úr 0,2% af bókfærðri veltu í 0,3%. Áætlað er að breytingar á gjaldskrá og upptaka á gjaldi fyrir tíðninotkun leiði til 13 m.kr. tekjulækkunar hjá stofnuninni en á móti kemur að ætlað er að hækkun rekstrargjalds skili stofnuninni 25 m.kr. tekjuauka.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má því ætla að ríkistekjur sem renna til Póst- og fjarskiptastofnunar hækki um 12 m.kr. á ársgrundvelli. Á móti kemur að samkvæmt nýlegri niðurstöðu úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála skal rekstrargjald ekki lagt á innri veltu vegna sölu á fjarskiptaþjónustu milli deilda innan sama fyrirtækis. Sú breyting á framkvæmd frá því sem verið hefur um árabil er talin leiða til 14 m.kr. tekjuskerðingar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Í heildina tekið er því gert ráð fyrir að með þeim breytingum á gjaldstofnum sem lagðar eru til í frumvarpinu verði ríkistekjur stofnunarinnar sem næst óbreyttar frá því sem verið hefur.