Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.

Þingskjal 697  —  378. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012
(starfsheiti, aldursmörk, gjaldtaka).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

2. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að veita undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu skilyrði reglugerðar skv. 2. mgr. uppfyllt. Í fyrsta sinn er heimilt að veita undanþágu til allt að þriggja ára, en eftir það til eins árs í senn.
    Ráðherra skal setja reglugerð um skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu skv. 1. mgr. Skal þar m.a. kveðið á um þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu umsókn, svo sem læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um tegund og umfang starfsemi síðastliðin fimm ár og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.
    Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

3. gr.

    1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Landlækni er heimilt að innheimta sérstakt gjald til viðbótar gjaldi skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi, sbr. 5. og 8. gr. Þar á meðal er heimilt að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu, vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli innheimt við móttöku umsóknar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu.
    Í frumvarpinu eru lagt til að í stað áfengis- og vímuvarnaráðgjafar í 1. tölul. 3. gr. komi áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum 26. gr. um aldursmörk og 31. gr. um gjaldtöku.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Áfengis- og vímuvarnaráðgjafar.
    Eftir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, þann 1. janúar 2012, hafa ráðuneytinu og embætti landlæknis borist nokkrar athugasemdir frá Félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa varðandi breytingu á starfsheiti þeirra í lögum um heilbrigðisstarfsmenn í áfengis- og vímuvarnaráðgjafar, en við löggildingu stéttarinnar var starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafar samkvæmt reglugerð.
    Í ljósi þess að velferðarráðuneytið fer með yfirstjórn áfengis- og vímuvarna og embætti landlæknis annast áfengis- og vímuvarnir þótti eðlilegt að nafn stéttarinnar endurspeglaði það og var því breytt í áfengis- og vímuvarnaráðgjafar í frumvarpi því er varð að lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Frumvarpið var samþykkt þannig frá Alþingi þrátt fyrir mótmæli Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Í athugasemdum formanns Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa varðandi framangreinda breytingu á heiti stéttarinnar er einkum vísað til þess að fagfélagið, sem var stofnað árið 1994, heiti Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Í félaginu séu flestir sem fengið hafa starfsleyfi. Þá sé í öllu lesmáli sem gefið hefur verið út notast við heitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi svo og í bókum. Stéttin vinni ekki að áfengis- og vímuvörnum heldur stundi ráðgjöf á sjúkrastofnunum og göngudeildum fyrir áfengissjúklinga og vímuefnafíkla ásamt fjölskyldum þeirra. Það sé því rangt og villandi að tala um áfengis- og vímuvarnir sem sé einungis lítill hluti starfs stéttarinnar.
    Ráðuneytið óskaði eftir umsögn landlæknis um erindi áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Landlæknir tekur í samráði við fagráð landlæknis um áfengis- og vímuvarnir í umsögn sinni undir rök formanns Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Kemur þar fram að það að nota orðið „vímuvarnir“ í starfsheiti áfengis- og vímuvarnaráðgjafa geti verið villandi hvað varðar störf þeirra. Rökin fyrir því að halda heitinu áfengis- og vímuefnaráðgjafi séu m.a. þau að í fjóra áratugi hafi meðferðin fyrst verið kölluð áfengismeðferð en með aukinni neyslu vímuefna hafi hún verið kölluð áfengis- og vímuefnameðferð, en ekki áfengis- eða vímuvarnameðferð. Starfsheiti ráðgjafa hafi því verið áfengisráðgjafi og síðar áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Allt batasamfélagið noti heitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi.
    Mikilvægt er að starfsheiti löggiltra heilbrigðisstétta sé í samræmi við þau störf sem stéttin vinnur við og í sátt við fagfélag stéttarinnar. Með vísan til framangreindra athugasemda er því lagt til að heiti stéttarinnar verði áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Aldursmörk.
    Velferðarráðuneytinu og embætti landlæknis hafa eftir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, borist nokkur erindi þar sem ákvæði 26. gr. um aldursmörk er mótmælt. Eins og fram kemur í ákvæði 26. gr. laganna er heilbrigðisstarfsmanni óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir að 70 ára aldri er náð. Landlækni er þó heimilt að fenginni umsókn að framlengja leyfi til tveggja ára í senn en þó aldrei oftar en þrisvar eða að hámarki þar til 76 ára aldri er náð.
    Ákvæði 26. gr. laganna kom í stað ákvæðis 26. gr. læknalaga, nr. 53/1988, um aldursmörk lækna, en þau lög féllu úr gildi við gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn. Ákvæði læknalaga var svohljóðandi: „Lækni er óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur. Landlæknir getur þó, að fenginni umsókn viðkomandi læknis, veitt undanþágu frá þessu ákvæði til eins árs í senn.“ Með lögum um heilbrigðisstarfsmenn var ákvæðinu breytt þannig að það tæki til allra heilbrigðisstarfsmanna, aldursmarkið var fært niður í 70 ár og sett hámark á heimild til framlengingar við 76 ár. Um þessa breytingu segir í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um heilbrigðisstarfsmenn: „Samkvæmt 26. gr. læknalaga er læknum óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur. Hér lagt til að aldursmörkin verði færð niður í 70 ár og ákvæðið rýmkað þannig að það taki til allra heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu. Opinberir starfsmenn hætta að jafnaði störfum þegar þeir verða sjötugir og þykir rétt að miða við þá almennu reglu. Þá er lagt til að í stað ákvæðis 2. málsl. 26. gr. læknalaga um að landlæknir geti veitt undanþágu frá 75 ára aldurshámarki til eins árs í senn komi heimild til að framlengja leyfi heilbrigðisstarfsmanns til að reka eigin starfsstofu um tvö ár í senn, þó aldrei oftar en þrisvar. Heilbrigðisstarfsmanni væri þá í reynd óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 76 ára aldur.“ Þá hafði landlæknir margsinnis bent á að fyrrgreint ákvæði læknalaga væri erfitt í framkvæmd.
    Orðalagið í gildandi ákvæði „óheimilt að reka eigin starfsstofu“ er í samræmi við ákvæði læknalaganna frá 1988. Eftir að ákvæðinu var breytt þannig að það tæki til allra heilbrigðisstarfsmanna hafa borist ábendingar um að orðalagið „reka eigin starfsstofu“ geti verið villandi og mætti jafnvel skilja svo að heilbrigðisstarfsmaður sem náð hefur 70 ára aldri megi ekki eiga starfsstofu eða hlut í starfsstofu, eða sjá um rekstrarleg atriði, eins og innkaup, starfsmannahald og þess háttar. Ákvæði læknalaga var hins vegar ávallt túlkað svo að lækni væri óheimilt að stunda sjálfstæð lækningastörf á eigin stofu eftir að tilgreindum aldri væri náð og var ekki fyrirhugað að breyta því með fyrrgreindu ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn. Hér er því lagt til að í stað orðanna „óheimilt að reka eigin starfsstofu“ komi „óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu“.
    Rök fyrir því að breyta gildandi ákvæði um hámarksaldur eru einkum þau að ákvæði 26. gr. sé ekki í samræmi við þær reglur sem gilda í nágrannaríkjunum og feli í sér of mikla takmörkun á atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna. Í erindum sem borist hafa er vísað til fyrrgreinds ákvæðis læknalaga um aldursmörk, en þar var aldursmarkið 75 ár, en unnt var að sækja um undanþágu frá ákvæðinu til eins árs í senn. Er því í frumvarpi þessu lagt til að ákvæði 26. gr. laganna verði breytt og það fært nær þeim reglum sem giltu fyrir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og hámarksaldur verði 75 ár með möguleika á framlengingu.
    Þá er og lagt til að ráðherra setji reglugerð um frekari skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð. Skal þar m.a. kveðið á um þau gögn sem fylgja skulu umsókn, svo sem læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um rekstur starfsstofu síðastliðin fimm ár og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.
    Auk eldra ákvæðis í læknalögum, nr. 53/1988, er litið til reglna sem gilda í Danmörku og Noregi varðandi heimild til að reka eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð.
    Í Danmörku fellur réttur til að reka eigin starfsstofu niður við 75 ára aldur. Réttur til að kalla sig lækni eða sérfræðing fellur þó ekki niður né réttur til að ávísa lyfjum á sjálfan sig og nánustu ættingja ef lyfjaávísanir eru ekki vegna reksturs. Heimilt er í Danmörku að leyfa rekstur eigin stofu að fullu eða hluta eftir 75 ára aldur samkvæmt umsókn. Heimildin skiptist þannig að í fyrsta skipti er heimilt að veita leyfi næstu þrjú árin. Eftir það í þrjú, tvö eða eitt ár á grundvelli nákvæms einstaklingsmats. Ekki er takmarkað hversu oft unnt er að veita slíka framlengingu, en það er ákvarðað á grundvelli umsóknar, læknisvottorðs og viðtals við embættislækni.
    Í Noregi missa heilbrigðisstarfsmenn starfsleyfi við 75 ára aldur, en geta sótt um svokallað „lisens“ og sérfræðiviðurkenningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem sett eru í reglugerð, til að reka eigin starfsstöð eða til að gegna ákveðnum störfum. Um tímabundið leyfi getur verið að ræða. Heimilt er þó að nota starfsheiti áfram eftir 75 ára aldur. Leyfið er veitt í tiltekinn tíma í allt að tvö ár í hvert skipti en eftir að starfsmaður hefur náð 80 ára aldri er það veitt í eitt ár í senn. Heimilt er að takmarka leyfið frekar hvað varðar tímalengd og til að gegna ákveðnum störfum eða ákveðnum verkefnum samkvæmt mati. Um nánari skilyrði fer samkvæmt reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn. Skulu þar m.a. koma fram upplýsingar um tegund og umfang starfsemi. Einnig skulu vera upplýsingar um starfsemi síðustu fimm ára og hvort óskað sé eftir rétti til að ávísa lyfjum, svo og tímabil sem óskað er leyfis fyrir. Leggja skal fram læknisvottorð frá heimilislækni eða lækni með gilt starfsleyfi. Læknisvottorðið skal staðfesta að umsækjandi sé andlega og líkamlega hæfur til að gegna því starfi sem sótt er um leyfi til. Þá skal metið hvernig viðkomandi hefur viðhaldið menntun sinni og færni og muni gera áfram. Þá eru m.a. ákvæði um heimild til að takmarka rétt til að ávísa lyfjum og um afturköllun á leyfi.
    Í Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi og Þýskalandi eru engar takmarkanir varðandi aldur sjálfstætt starfandi lækna. Gilda þá almennar kröfur um hæfi til að gegna störfum í framangreindum löndum.
    Mikilvægt er að ákvæði um heimild til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu séu skýr og afdráttarlaus gagnvart lærðum sem leikum og í samræmi við það sem gildir í nágrannaríkjunum.

Gjaldtaka.
    Þá er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæði 31. gr. laganna um gjaldtöku verði breytt í þá veru að ákvæðið taki bæði til ríkisborgara sem hlotið hafa menntun sína í EES-ríki eða í ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, þ.e. í ríki utan EES. Núgildandi ákvæði 31. gr. tekur einungis til þeirra sem lokið hafa námi í ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun. Ekki er um nýja gjaldtöku að ræða en heimild til innheimtu gjalds, þegar umsækjandi um starfsleyfi eða sérfræðileyfi hefur aflað sér fullnægjandi faglegrar menntunar og hæfis í öðru EES-ríki til starfa sem slíkur hér á landi samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, er í 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010. Með framangreindum lögum var tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins 2005/36/EB, frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, innleidd af mennta- og menningarmálaráðherra. Í ákvæðinu kemur fram að ráðherra sem í hlut á setji reglur um gjöld sem krefja má við afgreiðslu umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi.
    Hvað varðar heilbrigðisstarfsmenn var tilskipunin einnig innleidd með reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2010. Heimild fyrir ráðherra sem í hlut á er í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 26/2010, þar sem segir að í samræmi við löggjöf og reglur um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sé ráðherra heimilt að gefa út reglugerðir fyrir þær starfsstéttir sem undir hann heyra.
    Eðlilegra þykir að heimild til gjaldtöku vegna kostnaðar við afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum, svo sem að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna, bæði hvað varðar EES-borgara og borgara utan EES sé í lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Ákvæðið verður þannig bæði skýrara og markvissara.
    Rétt er að geta þess að þeir umsagnaraðilar sem landlæknir hefur leitað til varðandi umsagnir um starfsleyfi og sérfræðileyfi hafa oft og tíðum sinnt umsögnum fyrir landlækni í frítíma sínum án þess að sérstakar greiðslur hafi komið til. Hefur landlækni í sumum tilvikum verið synjað um umsögn nema greiðsla komi til. Lögbundnir umsagnaraðilar um sérfræðileyfi, þ.e. sérfræðinefndir, fengu áður greiðslur frá velferðarráðuneytinu en slíkar sérfræðinefndir hafa nú verið aflagðar með gildistöku nýrra reglugerða um hverja heilbrigðisstétt sem birtar voru um áramótin 2012–2013 og landlækni veitt þar heimild til að skipa sérstakar mats- og umsagnarnefndir til að meta umsóknir um sérfræðileyfi.
    Um gjaldtöku vegna starfsleyfa og sérfræðileyfa lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, tannlækna og lyfjafræðinga, er falla undir ákvæði um sjálfkrafa viðurkenningu starfsréttinda samkvæmt tilskipun 2005/36/EB, fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs. Samræmdar hafa verið menntunarkröfur innan Evrópska efnahagssvæðisins hjá framangreindum stéttum og því er ekki í þeim tilvikum ástæða til að meta námsgögn, og eru starfsleyfi útgefin til EES- borgara því staðfest hér á landi. Gögn vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi frá framangreindum fimm stéttum frá ríkjum utan EES fara aftur á móti alltaf til mats- og umsagnaraðila. Menntunarkröfur annarra löggiltra heilbrigðisstétta hafa ekki verið samræmdar og eru því mismunandi bæði innan EES og utan EES. Í þeim tilvikum eru gögn skoðuð og eftir atvikum send til mats- og umsagnaraðila þegar sótt er um starfsleyfi eða sérfræðileyfi hér á landi.
    Gjald það sem lagt er til að landlækni verði heimilt að innheimta er til viðbótar gjaldi samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á starfsheiti heilbrigðisstéttarinnar áfengis- og vímuvarnaráðgjafar til fyrra horfs, þ.e. áfengis- og vímuefnaráðgjafar.
    Þá er í öðru lagi lagt til að ákvæði laganna um aldursmörk til að mega veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu verði breytt og yrði ákvæðið þá í meira samræmi við það sem áður gilti samkvæmt læknalögum frá 1988. Lagt er til að í stað 70 ára aldurs komi 75 ára og að heimilt verið að veita undanþágu frá ákvæðinu í fyrsta skipti í allt að þrjú ár en eftir það í eitt. Ekki er um aldursþak að ræða. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um frekari skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu eftir að 75 ára aldri er náð.
    Í þriðja lagi er lagt til að við 31. gr. laganna, þar sem kveðið er á um gjaldtöku, verði bætt heimild til að innheimta gjald af EES-borgurum, en ákvæðið tekur nú einungis til borgara utan EES (þriðja lands borgara).
    Mikilvægt er að ákvæði er heimila gjaldtöku í tengslum við umsóknir um starfsleyfi og sérfræðileyfi séu skýr og taki til allra umsækjenda án tillits til þess hvar þeir hafa aflað sér faglegrar menntunar og hæfis.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gaf tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá. Um rýmkun er að ræða frá gildandi ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn um aldursmörk, en í ábendingum sem bárust ráðuneytinu var m.a. talið að ákvæðið fæli í sér of mikla takmörkun á atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna. Sú takmörkun sem hér er sett í lög hvað varðar heimild til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu er einkum vegna öryggis og hagsmuna sjúklinga.
    Efni frumvarpsins er í samræmi við stjórnarskrá og gaf ekki tilefni til að skoðað væri hvort það væri í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta snertir fyrst og fremst hagsmuni heilbrigðisstétta og öryggi sjúklinga. Tilefnið er m.a. athugasemdir frá heilbrigðisstéttum er málið varðar og embætti landlæknis.
    Eftirfarandi aðilar fengu frumvarpið sent til umsagnar: Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, Félagsráðgjafafélag Íslands, Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga, Félag geislafræðinga, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kírópraktorafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Félag lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Lyfjatæknafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra læknaritara, Félag matartækna, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands, Félag næringarrekstrarfræðinga, Osteópatafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Félag íslenskra sjóntækjafræðinga, Félag sjúkraflutningamanna í Árnessýslu, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjúkraliðafélag Íslands, Félag íslenskra sjúkranuddara, Stéttarfélag sjúkraþjálfara, Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, Félag stoðtækjafræðinga, Félag talkennara og talmeinafræðinga, Félag íslenskra tannfræðinga, Tannsmiðafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands, Félag tanntækna og aðstoðarfólks tannlækna, Félag klínískra tannsmiða, Þroskaþjálfafélag Íslands, embætti landlæknis og fjármála- og efnahagsráðuneytið
    Af þeim sem fengu frumvarpið til umsagnar bárust svör frá embætti landlæknis, Læknafélagi Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra tannfræðinga og Sjúkranuddarafélagi Íslands. Í framangreindum umsögnum eru ekki gerðar athugasemdir varðandi 1. gr. Hvað varðar 2. gr. frumvarpsins eru í umsögnum frá embætti landlæknis og Lyfjafræðingafélagi Íslands gerðar athugasemdir um að ekki sé sett aldurshámark vegna undanþágu til heilbrigðisstarfsmanna til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu.
    Læknafélag Íslands og Lyfjafræðingafélag Íslands gerðu athugasemdir við 3. mgr. 2. gr. Læknafélagið fer fram á að kæruheimildin verði ekki takmörkuð við málsmeðferð. Lyfjafræðingafélagið leggur til að ákvörðun landlæknis sé endanleg á stjórnsýslustigi og verði ekki skotið til ráðherra. Ekki var orðið við framangreindum athugasemdum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ekki athugasemd við útfærslu á 3. gr. frumvarpsins. Ekki var orðið við framangreindum athugasemdum.

VI. Mat á áhrifum.
    Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins eru einkum þær að leiðrétting er gerð á starfsheiti áfengis- og vímuefnaráðgjafa til fyrra horfs, sem að mati stéttarinnar er nauðsynlegt vegna starfs stéttarinnar. Mikilvægt er að starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar sé í samræmi við þau störf sem stéttin vinnur við og í sátt við fagfélag stéttarinnar.
    Aldursákvæði hvað varðar undanþágu fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð eru hér færð nær þeim reglum sem giltu fyrir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn 1. janúar 2012. Hér er um rýmkun að ræða en ákvæði 26. gr. laganna kveður nú á um að eftir að heilbrigðisstarfsmaður hefur náð 70 ára aldri sé honum óheimilt að reka eigin starfsstofu. Þó er landlækni heimilt að framlengja leyfi í allt að tvö ár í senn en þó aldrei oftar en þrisvar, þannig að þegar 76 ára aldri er náð er heilbrigðisstarfsmanni ekki heimilt að reka eigin starfsstofu. Breyting sú sem lögð er til í frumvarpinu er því jákvæð. Ekki er að svo stöddu unnt að segja til um hvort breytingin hafi í för með sér að heilbrigðisstarfsmenn starfi lengur, en núgildandi lög hafa haft hamlandi áhrif á lengd starfsævi heilbrigðisstétta. Til að koma í veg fyrir að öryggi sjúklinga sé stofnað í hættu er gerð sú krafa að eftir að 75 ára aldri er náð þurfi sérstaklega að sækja um undanþágu til landlæknis til að mega veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Fer þá fram faglegt mat á grundvelli upplýsinga og gagna sem kveðið skal á um í reglugerð að fylgja skuli umsókn um undanþágu frá 1. mgr. ákvæðisins. Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi lítils háttar áhrif á stjórnsýslu embættis landlæknis, en til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar þarf að efla eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna sem náð hafa 75 ára aldri.
    Heimild embættis landlæknis til innheimtu gjalds til viðbótar gjaldi samkvæmt lögum um aukatekjur ríkisins er til að hægt sé að standa undir kostnaði fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi, sbr. 5. og 8. gr. laganna. Þar á meðal er heimilt að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Hér er ekki um að ræða breytingu á gildandi ákvæði 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn og 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010. Í framangreindum lögum er þegar kveðið á um heimild til gjaldtöku, en breyting sú sem hér er lögð til er til að gera heimildina skýrari og markvissari. Samkvæmt framangreindum lögum er um að ræða kostnað þeirra sem að afgreiðslu og meðhöndlun umsókna koma og embætti landlæknis innheimtir af umsækjanda og greiðir viðkomandi samkvæmt reikningi sem lagður er fram. Ekki verður um neinar sértekjur að ræða hjá embættinu vegna framangreindrar innheimtu.
    Með samþykkt frumvarpsins er ekki um neikvæð eða íþyngjandi áhrif að ræða. Til að öryggi sjúklinga sé tryggt er í frumvarpinu lagt til að í reglugerð sem ráðherra setur verði skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu frá ákvæði 1. mgr. Þá er starfsemi heilbrigðisstarfsmanna háð eftirliti embættis landlæknis. Eingöngu er um breytingar til fyrra horfs að ræða, bæði hvað varðar heiti starfsstéttar, auk þess sem heimild til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu er færð nær því sem áður var. Gjaldtökuheimild er nú gerð skýrari og sett í ein lög í stað tvennra varðandi heilbrigðisstarfsmenn. Heimildin tekur nú bæði til borgara innan og utan EES og auðveldar setningu gjaldskrár fyrir embætti landlæknis til innheimtu gjalds vegna starfsleyfa og sérfræðileyfa, en eins og að framan getur er slík heimild nú bæði í lögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Fyrir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, bar stéttin áfengis- og vímuvarnaráðgjafar heitið áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Hlaut stéttin það starfsheiti þegar hún var löggilt árið 2006. Með vísan til þess sem fram kemur hér að framan í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er lagt til að starfsheitinu verið breytt til fyrra horfs og verði áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 26. gr. laganna er heilbrigðisstarfsmanni óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir að hann nær 70 ára aldri. Ákvæðið kom í stað ákvæðis læknalaga, en með lögum um heilbrigðisstarfsmenn var aldursmarkinu breytt úr 75 árum í 70 ár.
    Í 1. mgr. er lagt til að aldursmörkum 26. gr. verði breytt til fyrra horfs og miðað við 75 ára aldur. Þá er lagt til að orðalagi verði breytt þannig að í stað orðanna „reka eigin starfsstofu“ komi „veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu“. Loks er lagt til að í stað þess að landlæknir geti framlengt leyfið til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar, verði landlækni heimilt að veita undanþágu frá aldursmarki 1. mgr., í fyrsta sinn til allt að þriggja ára og síðan til eins árs í senn.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð um skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu skv. 1. mgr., til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð. Þar sem hér er um að ræða takmörkun á atvinnuréttindum þykir rétt að kveðið sé nánar á um skilyrði og mat landlæknis á faglegri færni og andlegri og líkamlegri heilsu heilbrigðisstarfsmanns, sem eru þess eðlis að betur fer á að þau séu í stjórnvaldsfyrirmælum. Skal þar m.a. kveðið á um þau gögn sem fylgja skulu umsókn, svo sem læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um rekstur starfsstofu síðastliðin fimm ár og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.
    Við mat á því hvort veita skuli leyfi skal einkum litið til öryggis og hagsmuna sjúklinga.
    Um meðferð umsókna um undanþágu fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt.
    Að öðru leyti er vísað til greinar um aldursmörk í II. kafla í almennum athugasemdum við frumvarp þetta.

Um 3. gr.

    Lagt er til í frumvarpi þessu að 1. mgr. 31. gr. laganna verði breytt þannig að hún heimili innheimtu sérstaks gjalds bæði af ríkisborgurum landa innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins vegna afgreiðslu og meðhöndlunar á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Heimild til innheimtu gjalds vegna EES-borgara er nú í 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, sem innleiðir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, svo og viðauka við hana.
    Með framangreindri breytingu á ákvæði 31. gr. laganna er ákvæðinu ætlað að taka bæði til þeirra sem lokið hafa námi í EES-ríki svo og ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, þ.e. ríkisborgara frá ríki utan EES. Þykir rétt að í lögum um heilbrigðisstarfsmenn sé að finna heimild til gjaldtöku án tillits til þess hvar faglegrar menntunar og hæfis sé aflað. Er breytingin lögð til til að gera ákvæði 31. gr. um heimild til gjaldtöku skýrari og markvissari. Hér er því verið að bæta inn í ákvæði 31. gr. laganna heimild sem nú þegar er í 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010. Þykir rétt að í lögum um heilbrigðisstarfsmenn sé að finna heimild til gjaldtöku án tillits til þess hvar faglegrar menntunar og hæfis sé aflað. Er breytingin lögð til til að gera ákvæði 31. gr. laganna um heimild til gjaldtöku skýrari og markvissari. Ekki er því um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn,
nr. 34/2012 (starfsheiti, aldursmörk, gjaldtaka).

    Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á starfsheiti heilbrigðisstéttarinnar áfengis- og vímuvarnaráðgjafar til fyrra horfs þannig að það verði aftur áfengis- og vímuefnaráðgjafar.
    Í öðru lagi er lagt til að ákvæði laganna um aldursmörk þeirra sem mega veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu verði breytt til samræmis við það sem áður gilti samkvæmt læknalögum frá 1988. Lagt er til að í stað 70 ára hámarksaldurs lækna verði aftur miðað við 75 ára aldur og að heimilt verði að veita undanþágu fá ákvæðinu í fyrsta skipti í allt að þrjú ár en eftir það í eitt. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um frekari skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu eftir að 75 ára aldri er náð. Gert er ráð fyrir að breytingin hafi lítils háttar áhrif á störf embættis landlæknis vegna eftirlits með störfum heilbrigðisstarfsmanna sem náð hafa 75 ára aldri.
    Í þriðja lagi er lagt til að við 31. gr. laganna, þar sem kveðið er á um gjaldtöku, verði bætt heimild til að innheimta gjald af EES-borgurum, en ákvæðið tekur nú einungis til borgara utan EES (þriðja lands borgara). Fyrir þessa breytingu var heimild til gjaldtöku fyrir hendi en ákvæðið verður nú bæði skýrara og markvissara. Heimild embættis landlæknis til innheimtu gjalds til viðbótar gjaldi samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs er ætlað að standa undir kostnaði við hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Gjaldið rennur að mestu til þess að greiða háskólum og framhaldsskólum fyrir vinnu við mat á umsóknum en auk þess veita fagfélög upplýsingar vegna umsókna. Hingað til hefur embætti landlæknis ekki innheimt gjald fyrir þjónustuna en nú hefur ný gjaldskrá verið undirrituð. Á síðasta ári hafði embættið ekki fjármuni til verkefnisins en þegar kom fram á árið og óafgreiddar umsóknir höfðu safnast upp fékk landlæknir 1,0 m.kr. af safnlið í ráðuneytinu til þess að vinna á uppsöfnuðum vanda. Með gjaldskrá og endurbættri gjaldtökuheimild er verið að finna þessari afgreiðslu framtíðarfarveg. Að jafnaði berast embætti landlæknis 50 til 60 umsóknir á ári, svo ætla má að heildarfjárhæð innheimts gjalds geti numið 2,5 til 3,0 m.kr. á ári. Tekjurnar munu falla í flokk annarra rekstrartekna samkvæmt skilgreiningu fjárreiðulaganna og færast á tekjuhlið ríkissjóðs en verður varið til að fjármagna kostnað embættisins við afgreiðslu umsókna af þessum toga. Lögfesting frumvarpsins eykur því veltuna sem færist í reikningshald ríkissjóðs um 2,5 til 3 m.kr. en ætti ekki að hafa áhrif á afkomu hans.