Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 15:37:18 (2541)

1996-01-30 15:37:18# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[15:37]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir málefnalega umfjöllun og í meginatriðum stuðning við höfuðmarkmið þessa frumvarps, en vil gjarnan víkja að nokkrum atriðum sem komið hafa fram í umræðunni.

Hv. 15. þm. Reykv. vék að því að aflamarkskerfið væri undirrótin að þeim vanda sem hér er verið að fjalla um. Það er rétt að harðir andstæðingar kvótalaganna hafa tekið í sama streng. Nú er það vissulega rétt, eins og fram kemur í athugasemdum með frv. og skýrslu nefndarinnar og ég tók fram í minni framsöguræðu, að það leiðir til aukinna freistinga þegar aflaheimildir eru af skornum skammti í hlutfalli við afkastagetu fiskiskipastólsins. Það er vissulega vandi sem við eigum við að stríða þegar þær aðstæður eru fyrir hendi. Hins vegar geta menn ekki leyft sér að draga af því þær ályktanir að þetta stjórnkerfi öðru fremur leiði til slíkra vandamála. Ég ætla þó ekki að gera hv. 15. þm. Reykv. upp slíkar skoðanir af því að ég veit að hann þekkir málin betur en svo.

Auðvitað vitum við að í sóknarmarkskerfi höfum við mörg dæmi erlendis frá um miklu verri umgengni en við erum að fjalla um í okkar lögsögu undir þessu kerfi. Við vitum um dæmi um veiðar okkar eigin skipa utan landhelgi þar sem engin stjórnun er sem hafa verið mun verri en alvarlegustu dæmin um slæma umgengni innan okkar lögsögu. Það er sem sagt alveg ljóst að þetta er almennur vandi við fiskveiðar. Hann getur verið fyrir hendi við hvaða fiskveiðistjórnunarkerfi sem er og reyndar án nokkurra fiskveiðistjórnunarkerfa. Og væri hægt að fara mörgum orðum um það.

Hv. 15. þm. Reykv. gerði athugasemdir við það að ákveðnar undanþágur væru í frv. svo sem verið hefur um heimildir til þess að henda fiski sem ekki hefur verðgildi. Ég held að það væri afar óskynsamlegt að hafa löggjöf af þessu tagi svo ósveigjanlega að með öllu væri óheimilt að henda þeim afla sem ekkert verðgildi hefur. Og það verður auðvitað að meta með hliðsjón af markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Sem betur fer eru þeir hlutir alltaf að þróast. Eins og hv. þm. benti á hefur til að mynda aflakaupabankinn bætt verulega úr í þessu efni. Menn gera sér verðmæti úr fleiri tegundum og auk þess úr stærri hluta fisksins en áður. Það er þróun sem er vert að líta til og meta.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. fór ítarlega yfir málið og þar komu fram nánast öll þau atriði sem síðan hafa komið fram í umræðunni. Hann minntist fyrst á það sem hann taldi megingalla frumvarpsins, þ.e. að þar er ekki gert ráð fyrir því að heimila meðafla. Hann taldi að í því gæti verið lausn á þeim vanda sem við er að etja. Um þetta hefur orðið talsverð umræða og nefndin fjallaði mjög rækilega um þetta atriði. Á bls. 19 í frumvarpinu kemur fram í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Það er því frumforsenda árangurs að hvergi verði gefið eftir við fiskveiðistjórnun og aðgerðir til eflingar þorskstofnsins. Ef eftir væri gefið nú í þeim efnum og aukinn þorskafli heimilaður, t.d. sem aukaafli við veiðar á öðrum tegundum, þá væri þess að vænta að sókn í aðrar tegundir ykist og vandamál vegna umframafla þorsks gætu enn versnað. Aukin sókn í aðrar tegundir, til að bæta upp tekjutap vegna minnkaðs þorskafla, gæti síðan leitt til minnkandi stofna þessara tegunda einnig, og þannig gæti vandamálið náð til fleiri tegunda, t.d. ýsu, e.t.v. ufsa og svo koll af kolli. Á endanum gæti sókn í verðminni tegundirnar orðið mest, enda heimildir til veiða á þeim þá tiltölulega rúmar, og stórum hluta þess sem af verðmeiri tegundunum veiddist hent í hafið aftur eða landað fram hjá vigt vegna skorts á aflaheimildum. Þegar svo væri komið yrði ekki við neitt ráðið og afraksturinn af auðlindinni yrði enginn.``

Þetta álit er sett fram af hálfu nefndarinnar eftir mjög ítarlega umfjöllun um hugmyndir af þessu tagi. Ég tel þess vegna ekki efni til að taka ákvæði sem þessi inn í frumvarpið. Við skulum hafa í huga að undirmálsfiskur hefur minnkað, fyrst og fremst vegna þess að við höfum lokað svo stórum veiðisvæðum þar sem um hefur verið að ræða smáfisk. Það er meginástæðan fyrir þessu og ég tel að við þurfum áfram að byggja á því sjónarmiði að vernda uppeldisstöðvar fisksins og loka veiðisvæðum með þessum aðferðum.

En það eru fleiri atriði sem koma þarna til greina. Ég nefni þær athuganir sem nú fara fram á möguleikum þess að setja smáfiskaskilju í botnvörpu. Þær athuganir eru vel á veg komnar þótt þær hafi ekki enn náð það langt fram að fyrir liggi tillögur um að setja slíkt í veiðarfæri. Ég vona þó að athuganirnar leiði brátt til þeirrar niðurstöðu að þetta verði unnt. Ég bendi einnig á þær tilraunir sem fram hafa farið og verða frekar kannaðar á Hafrannsóknastofnun um hreinar þorskskiljur í botnvörpu. Með öðrum orðum á sér stað mjög ör þróun í gerð veiðarfæra og ég held að við eigum að einbeita kröftum okkar að þessum atriðum því að með þeim náum við miklu meiri árangri en þeim atriðum öðrum sem hér hefur verið minnst á.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess einnig að ekki hefði verið fulltrúi smábáta í samstarfsnefndinni og það er rétt. Ástæðan var e.t.v. fyrst og fremst sú að í allri umræðunni um slæma umgengni um auðlindina hafði miklu minna borið á því að við þennan vanda væri að etja í þeim veiðiskap, þótt auðvitað séu ýmis dæmi um að þar hafi verið gengið á svig við reglur Þess vegna er ekki hægt að sýkna þann veiðiskap með öllu af því að hafa ekki tekið þátt í að ganga á svig við reglurnar. Í miklu minna mæli hefur umræðan verið um þennan veiðiskap. Markmiðið með þessu var fyrst og fremst að ná til stærri skipa en ekki smábátanna eins og frv. ber glögg merki.

[15:45]

Þá voru settar fram efasemdir um viðurlög eins og fésektir og fangelsi. Ég skil viðkvæmni manna í þessu efni en meginuppistaðan í viðurlögum frv. eru veiðileyfasviptingar. Þær eru meginuppistaðan í þeim viðbrögðum sem frv. gerir ráð fyrir með alveg skýrum hætti. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að hér er um að ræða mjög alvarleg brot, efnahagsbrot, brot sem íslenska þjóðin þolir ekki að framin séu. Það væru mjög alvarleg skilaboð frá Alþingi ef það hefði lægri refsingar við alvarlegustu efnahagsbrotum af þessu tagi en öðrum efnahagsbrotum. Það væru mjög alvarleg skilaboð frá Alþingi ef við samþykktum lög þar sem misræmi væri á í þessu efni. Sérfræðingar í refsirétti voru til aðstoðar við samningu frv. og þeir fóru yfir þetta með nefndinni. Því varð niðurstaðan sú sem hér greinir í frv.

Það er svo hygg ég rétt, sem fram kemur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að því er varðar netaveiði minni báta að það hefur orðið mikil framför í þeim veiðiskap. Hann tók réttilega fram að það er fyrst og fremst kvótakerfið sem hefur hvatt til bættrar umgengni. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að hv. nefnd taki þau sjónarmið til skoðunar í umfjöllun um þetta atriði.

Hv. þm. nefndi svo að æskilegt gæti verið að setja fleiri ákvæði í frv. eins og grundvallarviðhorfið um sjálfbæra nýtingu, nýtingarsjónarmið og vistvæn veiðarfæri. Um þetta vil ég segja að mér finnst fyllilega koma til álita að setja inn í frv. ákvæði um skýr grundvallarmarkmið. Ég tel að grundvallarreglan um sjálfbæra nýtingu sé atriði af því tagi og tel vel koma til greina að skýr ákvæði um slíka grundvallarreglu komi inn. Ég hef hins vegar meiri efasemdir um óljós stefnumarkandi ákvæði í löggjöf. Það á ekki bara við um þessa löggjöf heldur almennt um lagasetningu, að það fer ekki vel á því að vera með óljós stefnumarkandi ákvæði. Ef menn eru ekki með alveg skýrar hugmyndir um að bjóða eða banna tiltekna nýtingu, held ég að verr sé af stað farið en heima setið ef sett eru inn óljós markmið sem menn geta ekki skilgreint. Það sama á við um vistvæn veiðarfæri. Almenn stefnumörkun í þá veru, án þess að menn segi nákvæmlega hvað það er sem menn vilja, tel ég að eigi ekki heima í löggjöf. Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að við þurfum að leggja miklu meiri rækt við rannsóknir á kjörhæfni veiðarfæra. Þar er unnið kappsamlega og hefur verið unnið kappsamlega á undanförnum árum og er að eiga sér stað mikil þróun sem getur leyst ýmis af þeim viðfangsefnum sem við erum að tala um. En að hluta til get ég tekið undir athugasemdina sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að því er varðar skýr grundvallaratriði.

Hv. þm. spurði svo um samhengi frv. við lagaákvæði um fullvinnsluskip. Síðasta haust skipaði ég nefnd þingmanna til að endurskoða þau lög og ég á von á því alveg á næstu dögum að hún skili niðurstöðu sem væntanlega verður grundvöllur að breytingum á gildandi lögum. Ég hef ekki fengið niðurstöðu nefndarinnar í hendur enn þá enda er nefndarstörfunum ekki að fullu lokið, en nefndarmenn hafa fullvissað mig um að alveg á næstu dögum ljúki því starfi.

Ég hygg þá, herra forseti, að ég hafi vikið að flestum atriðum sem minnst hefur verið á í umræðunni og vil ítreka af minni hálfu þakkir fyrir mjög málefnalega umræðu. Það er auðvitað svo að um vandmeðfarið mál eins og þetta eru engin algild sannindi og upp hljóta að koma ýmis álitaefni í umfjöllun og umhugsun um það. Við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda, það vitum við. Það er hins vegar ekki fullljóst hversu mikill vandinn er. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það þarf skýr viðurlagaákvæði um framkvæmd þessara atriða til þess að gott samstarf og samvinna geti tekist með þeim sem á sjónum starfa um að snúa þessum málum til betri vegar, því að auðvitað er það svo að það er starf þeirra og ábyrgð sem ræður því á endanum hvort við náum árangri. Það starf og sú ábyrgðartilfinning þurfa að byggja á skýrum forsendum eins og við erum að reyna að leggja til með þessu frv. en það er fullkomlega eðlilegt að ýmis álitaefni og ólík sjónarmið komi fram þegar við fjöllum um jafnviðamikið og flókið viðfangsefni og hér er til umfjöllunar.