Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:26:46 (3914)

1996-03-13 15:26:46# 120. lþ. 107.2 fundur 385. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# frv. 61/1996, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:26]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum. Frv. þetta er flutt á þskj. 677 og er 385. mál þingsins. Frv. er samið í umhvrn. í samráði við Hollustuvernd ríkisins.

Árið 1979 voru sett lög um landhelgi, efanhagslögsögu og landgrunn, sbr. lög nr. 41/1979. Lög þessi tengdust staðfestingu hafréttarsáttmálans og er ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni Íslendinga varðandi yfirráðarétt yfir hafsvæðinu kringum Ísland. Í lögum um varnir gegn mengun sjávar er að finna frekari útfærslu á lögunum nr. 41/1979 hvað snertir þennan þátt málsins. Þessi lög mörkuðu tímamót á sínum tíma en á þeim árum sem liðin eru frá því að þau voru sett hefur mikið vatn runnið til sjávar auk þess sem viðhorf hafa breyst til nýtingar auðlindarinnar. Reynslan hefur og sýnt að á sumum atriðum þarf að skerpa betur. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að stefna að heildarendurskoðun laga um varnir gegn mengun sjávar á næstu tveimur árum. Hins vegar eru nokkur atriði sem þarf að taka á hið fyrsta og geta ekki beðið eftir heildarendurskoðun laganna. Um er að ræða eftirtalin atriði:

1. Gildissvið laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, takmarkast við íslenska efnahagslögsögu. Samkvæmt svokölluðum MARPOL-samningi, sem er alþjóðasamningur frá 2. nóv. 1973, um varnir gegn mengun frá skipum, og íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, hefur Ísland skuldbundið sig til að íslensk lög á þessu sviði nái einnig yfir starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu. Taka þarf af öll tvímæli um það í lögunum.

2. Ísland hefur ritað undir alþjóðasamning um varnir gegn mengun hafrýmis Norður-Atlantshafsins, svokallaðan OSPAR-samning. Ísland er aðili að gildandi samningum á þessu hafsvæði en stefnt er að því að OSPAR leysi eldri samninga af hólmi, þ.e. Óslóarsamninginn frá 1972 og Parísarsamninginn frá 1974. Það er hagur Íslands að OSPAR taki gildi hið fyrsta þar sem í honum eru ákvæði sem ætlað er að sporna enn frekar gegn því að mengunarefni berist út í umhverfið. Samningurinn tekur ekki gildi fyrr en öll aðildarlönd Óslóar- og Parísarsamninganna hafa staðfest hinn nýja OSPAR-samning. Í honum eru nokkur ákvæði, einkum er varða varp úrgangsefna í hafið, sem þarf að taka á í íslenskri löggjöf áður en hann verður staðfestur.

Loks þarf að lagfæra lítillega lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, sbr. lög nr. 57/1995, með tilliti til breytinga sem urðu á árinu 1995 þegar starfsemi mengunardeildar Siglingamálastofnunar ríkisins var færð yfir til Hollustuverndar ríkisins.

Hæstv. forseti. Vegna þeirra atriða sem ég hef talið upp að framan tel ég mikilvægt að þær breytingar sem frv. þetta gerir ráð fyrir verði að lögum á þessu þingi. Í 1. gr. frv. er kveðið á um að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem kveður á um að lögin gildi einnig um starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum. Með þessu ákvæði er verið að taka af öll tvímæli um að ákvæði MARPOL-samningsins gildi fyrir íslensk skip sem eru utan íslenskrar efnahagslögsögu.

3. gr. frv. er breyting á 13. gr. laganna. Er þar sett fram sú meginregla að allt úrkast efna og hluta í hafið sé óheimil, samanber þó upptalningu í 2. mgr. greinarinnar. Við gerð OSPAR-samningsins ákváðu samningsaðilar að víkja frá svokölluðum bannlistum þar sem talin eru upp þau efni sem bannað er að varpa í hafið. Það hefur sýnt sig vera afar erfitt að ganga úr skugga um að slík efni sé ekki að finna í margs konar hlutum. Þess í stað er farin sú leið að telja upp þau efni sem til greina kemur að varpa í hafið. Þrátt fyrir að þessi efni séu talin upp þarf að ganga úr skugga um það í hvert skipti að þau innihaldi ekki mengandi efni.

Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ,,leyfislistann`` eins og hann er samkvæmt OSPAR-samningnum. Í henni er einnig að finna heimildarákvæði til að setja reglur um með hvaða hætti standa skuli að varpi úrgangsefna í hafið. Þetta er gert til þess að geta sett fram nánari reglur er taki mið af samþykktum vinnureglum OSPAR-samningsins.

Í 5. gr. frv. eru gerðar þær breytingar á lögum að við 18. gr. laganna bætist við tvær nýjar málsgreinar. Í fyrri mgr., sem lagt er til að bætt verði við 18. gr. laganna, er kveðið á um að Hollustuvernd ríkisins skuli sjá um að skipuleggja og samræma viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó og þann búnað sem nauðsynlegur er. Þetta er komið til vegna þess að nauðsynlegt er að tryggja samræmingu í notkun þess mengunarvarnabúnaðar sem þegar hefur verið tekinn í notkun og tekinn verður í notkun í framtíðinni. Enn fremur er nauðsynlegt að svonefnd samningsráð fái formlegan bakgrunn.

Í síðari mgr., sem lagt er til að bæta við 18. gr. laganna, er sett inn heimild fyrir ráðherra að setja samræmda gjaldskrá fyrir notkun á mengunarvarnabúnaðinum. Þetta ákvæði er sett inn að ósk hafnanna þar sem erfitt getur verið fyrir einstök sveitarfélög að ákveða gjald fyrir notkun á þessum búnaði.

Þar til umhvrn. var stofnað árið 1990 fór samgrn. með mál er tengdust mengun sjávar. Þurfti ráðuneytið því að hafa samráð við heilbrrn. sem fór þá með hollustuháttamál og menntmrn. sem fór með náttúruverndarmál við setningu reglna um olíumengun frá landsstöðvum og um flokkun eiturefna og hættulegra efna. Þessir málaflokkar heyra nú allir undir umhvrn. og þarf að laga lögin að þeirri staðreynd. Breytingar í þessa veru er að finna hér og hvar í frv. Einnig er um að ræða lagfæringu í samræmi við að verkefni mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar voru flutt til Hollustuverndar ríkisins 1. júní 1995. Breytingar í þessa veru eru gerðar í 2., 4., 5., 6. og 7. gr. frv. og þarfnast þessar breytingar ekki frekari skýringa.

Í 8. gr. frv. er kveðið á um að lögin skuli þegar öðlast gildi og þegar þau hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, ásamt síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Loks er rétt að taka fram að í umsögn fjmrn. um frv. kemur fram að ekki er fyrirsjáanlegur kostnaðarauki fyrir ríkissjóð verði frv. óbreytt að lögum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið framsögu um þetta frv. til laga um breyting á lögum, nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og umfjöllunar í hv. umhvn.