Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:09:28 (5179)

1996-04-23 18:09:28# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í sambandi við flóttamenn þá hefur það ekki verið stefna íslenskra stjórnvalda hingað til að það sé ákveðinn kvóti á hverju ári að því er varðar móttöku flóttamanna. Það eru engin áform uppi um að breyta þar til. Það hafði hins vegar verið tekin ákvörðun um að taka á móti tilteknum fjölda flóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu. Það má segja að við höfum e.t.v. verið dálítið sein á ferðinni í því sambandi en sem betur fer hefur komist á friður í landinu og nú beinist öll athyglin að því að koma þessu fólki til hjálpar og hjálpa flóttamönnum víðs vegar að við að snúa til síns fyrri heima. Að því beinist okkar athygli nú. Þess vegna hefur verið ákveðið að leggja að mörkum verulegt fjármagn í sambandi við þessi mál. Þar eru mörg verkefni til athugunar en efst á blaði er samvinnuverkefni við Alþjóðabankann og þannig taka Íslendingar ríkan þátt í uppbyggingunni innan ákveðinna marka í samvinnu við þá stofnun.

Í sambandi við Kúrda er það mín skoðun að við komum best til hjálpar í samvinnu við aðra. Ég gerði það að tillögu minni á síðasta fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna að Norðurlöndin sameiginlega sendu nefnd inn á svæðið til að fara yfir stöðu mála. Nú hefur því verið haldið fram að það hafi verið gert í nægilega ríkum mæli og það þurfi engra frekari athugana við. Ég tel að það væri mjög sterkt ef Norðurlöndin gerðu það sameiginlega til þess að við gerum okkur sem best grein fyrir ástandi mála þar og hvernig við getum komið þessu fólki til aðstoðar. Þetta hefur enn ekki orðið að veruleika en ég hef ekki breytt um skoðun. Ég tel að það væri rétt skref að Norðurlöndin stæðu sameiginlega að úttekt á þessum málum.