Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:14:37 (5181)

1996-04-23 18:14:37# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að Ísland á að beita sér í mannréttindamálum. En það er hins vegar ljóst að við höfum ekki mjög fjölmennt starfslið í okkar utanríkisþjónustu og við gerum best í því að reyna að beita okkur í samvinnu við okkar nágrannaþjóðir. En að sjálfsögðu eigum við að taka frumkvæði í málum eftir því sem ástæða er til. Mér er ekki kunnugt um að einhver sérstök gagnrýni hafi beinst að Íslandi í mannréttindanefndinni, það kemur mér á óvart. En það er sjálfsagt að koma því á framfæri en það verður náttúrlega líka að taka tillit til aðstöðu okkar í sambandi við þessi mál. Það má ekki gera slíkar kröfur að Ísland geti staðið jafnfætis stærstu löndum í Vestur-Evrópu í þessu sambandi hvað varðar upplýsingar og þekkingu á ástandi í einstökum löndum.

Vegna þeirra orða hv. þm. hér áður að málefnum kvenna hafi ekki verið nægilega sinnt og það var nú eitt af því sem var áðan gagnrýnt að ekki hafi verið nefnt í minni ræðu. Það er margt sem var ekki þar nefnt og konur voru þar ekkert sérstaklega nefndar en ég mótmæli því harðlega að þeim málum hafi ekkert verið sinnt af utanrrn. Íslands, bæði fyrr og síðar. Ég nefni undirbúninginn að því er varðar kvennaráðstefnuna, hvernig henni hefur verið fylgt eftir. Ég nefni að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur stutt sérstök verkefni í sambandi við lestrarkennslu og fleira, á Grænhöfðaeyjum og í Namibíu. Við höfum styrkt UNIFEM á Íslandi að því er varðar verkefni í Andesfjöllum í Suður-Ameríku og margt fleira má nefna. Auðvitað má betur gera í þessum efnum. En það er rangt að þessum málum hafi ekkert verið sinnt og ég bið þá sem taka hér til máls að taka tillit til þess í gagnrýni sinni.