Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:29:02 (5485)

1996-05-02 15:29:02# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:29]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér hafa reyndar komið fram upplýsingar frá því að ég óskaði eftir orðinu þannig að ég mun stytta mál mitt. Ég vildi ganga nánar eftir upplýsingum um stöðu starfsfólks fræðsluskrifstofa og annarra starfsmanna, stuðningsfulltrúa í skólum, en hæstv. menntmrh. sagði að verkefnisstjórn vegna flutnings grunnskólans hefði tekið á þeirra málum eftir því sem kostur væri. Það sem ég hef furðað mig á, og ég er ekki einn um það, er að erindi sem verkefnisstjórninni var sent og sent var í afriti til menntmrh. og annarra aðila hefur aldrei verið svarað. Það hefur aldrei borist formlegt svar eða nokkurt svar við því erindi sem menntmrn. var sent hinn 7. febr. og lýtur að réttindamálum þessara starfsmanna. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustóli og stend við þau orð að hæstv. menntmrh. hefur reynt fyrir sitt leyti að standa vel að þessum málum. Oft hefur steytt á skeri. Nú er hins vegar svo komið að menn halda út á rúmsjó og siglt er út í óvissuna. Eins og hér hefur komið fram eru öll réttindamál opinberra starfsmanna í uppnámi. Þau eru öll í óvissu. Ég tók eftir því að hæstv. menntmrh. gagnrýndi hv. þm. Svavar Gestsson sérstaklega og sagði að hann væri að tala um einhverjar ímyndaðar deilur í tengslum við flutning grunnskólans og sérstaklega varðandi kennarastéttina. Ég veit ekki betur en svo að um þennan málaflokk allan hafi staðið mjög harðvítugar deilur í þjóðfélaginu í langan tíma. Í fyrsta lagi var um það deilt og mjög skiptar skoðanir um það hversu viturlegt það væri að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga. Menn eru mjög ósammála um hversu hyggileg ráðstöfun það hafi verið. Ég er einn þeirra sem var mjög andvígur þeirri ráðstöfun. Í annan stað hafa staðið harðvítugar deilur um réttindamálin almennt og þeim deilum lýkur að sjálfsögðu ekki fyrr en mönnum er endanlega ljóst hvert ríkisstjórnin stefnir varðandi réttindamálin. Þeim deilum getur ekki lokið fyrr en menn þekkja hvert raunverulega er stefnt. Sú skoðun eða staðhæfing að um ímyndaðar deilur sé að ræða í tengslum við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga eða vegna réttindamála kennara og annarra starfsmanna er álíka merkileg yfirlýsing og hér kom fram í dag frá hæstv. félmrh. sem talar um mótmæli allra verkalýðsfélaga í landinu, allra samtaka launafólks á Íslandi, sem andóf nokkurra einstaklinga. Það voru tveir, þrír menn á Lækjartorgi, sagði hæstv. félmrh. hér í ræðustól. Við hin sáum 8.000--9.000 manns. Hæstv. félmrh. sá tvo eða þrjá. Kannski er þessi þjóð ekki til. Kannski er bara til hin meiri háttar ríkisstjórn sem þarf ekki að hlusta á þjóðina eða hlíta óskum hennar í einu eða neinu. Hvers konar veruleikafirring er þetta eiginlega? Þetta er allt orðinn einhver ímyndarveruleiki. Það var enginn á torginu í gær. Ályktanir og mótmæli frá hverju einasta verkalýðsfélagi í landinu eru ekki til. Hins vegar er það umhugsunarefni þegar prófessor við háskólann bendir þeim á að það sem þeir eru að aðhafast kunni að stangast á við alþjóðlegar skuldbindingar, eitthvað sem hugsanlega verður tekið upp á fínum fundum í útlöndum. Þá taka menn við sér. En þjóðin, hún er ekki til. Það voru tveir eða þrír á Lækjartorgi. Þetta er allt saman misskilningur. Þetta eru allt saman ímyndaðar deilur. Kannski ímynduð þjóð.

Ég kom hins vegar upp til að fá upplýsingar um starfsfólk fræðsluskrifstofa og annað starfsfólk, stuðningsfulltrúa í skólum. Hæstv. menntmrh. hefur svarað þeirri spurningu á þann veg að það þurfi að taka einstaklingsbundið á málum þar, það sé að mörgu leyti erfiðara að eiga við þann hóp starfsmanna en kennara að því leyti að menn þurfa að skoða málin einstaklingsbundið. En finnst hæstv. menntmrh. ekki ástæða til þess að erindum frá samtökum launafólks sé svarað og það sé þá gengið til samninga um þessi efni? Mér finnst það. Það sem öllu máli skiptir þó er að farsæl lausn fáist á þessum málum og ég vona að hæstv. menntmrh. tryggi að svo verði.