Óþörf fjárfesting í húsnæðiskerfinu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:34:47 (722)

1995-11-06 15:34:47# 120. lþ. 27.1 fundur 67#B óþörf fjárfesting í húsnæðiskerfinu# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að gera einhverja lögreglurannsókn á því hvernig þessar félagslegu íbúðir hafa verið reistar. Hitt er aftur augljóst mál að það eru vandamál í mörgum sveitarfélögum og félagslega íbúðakerfið þarfnast endurskoðunar. Það hafa ekki orðið þau úrræði fyrir fátækt fólk eða tekjulágt fólk sem því var ætlað að verða í upphafi. Í mörgum tilvikum hafa íbúðirnar orðið of dýrar. Kaupskylda sveitarfélaganna gerir það að verkum að þeim er skilað til sveitarfélaganna en sveitarfélögin verða að leysa þær til sín, sitja uppi með þær og þær standa í mörgum tilfellum auðar. Svarað var fyrirspurn um auðar íbúðir í skriflegu svari sem liggur á borðum hv. þm.

Ég hef í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga sett nefnd á fót til þess að leita lausna á þessum vanda í félagslega húsnæðiskerfinu. Sú nefnd er að störfum. Hún er ekki búin að skila mér áliti en ég hef fullan hug á að vinna að því á næstunni að reyna að kippa þessu í lag í góðu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga. Mér sýnist sjálfum fljótt á litið að e.t.v. sé eina leiðin til þess að koma þessum auðum íbúðum í gagnið að færa þær niður í verði með einhverjum hætti þannig að þær verði annaðhvort seljanlegar á almennum markaði eða þá að sveitarfélögin geti rekið þær sem leiguíbúðir á viðráðanlegum kjörum fyrir leigjendurna og sveitarfélagið. Ég vil láta þess getið að ég held að eitt af því sem vantar í húsnæðiskerfi okkar og þurfi að ráða bót á séu öruggari, traustari og rýmri leigumarkaðir.