Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:21:11 (1887)

1995-12-13 16:21:11# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir fagnar því enn þá að það skuli vera skotið lagastoð undir innritunargjaldið til að aðstoða háskólaráð við að taka þessi gjöld. Ef þessi lagastoð kæmi ekki fram í frv. hjá hæstv. menntmrh. þá væri Háskóla Íslands eftir að álit umboðsmanns er komið fram ekki stætt á því að taka þetta gjald. Ég er ekki alveg viss um að ég og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir séum fullkomlega sammála. Hún er á móti skólagjöldum en hún er samt með skráningargjöldum ef þau væru svolítið lægri heldur en þessi. Ég er ekki alveg klár á að ég fylgi þessari rökfærslu. En látum það nú vera. Ég tel alla vega að 24.000 kr. sé mjög hátt. Mér finnst það vera verulega hátt og ég held að það gæti aftrað fólki frá námi. Kannski ekki þessi upphæð. En það sem ég óttast til framtíðar er það að með verkhagan og vinnusaman ráðherra með skýra stefnu í þessu máli, eins og hæstv. menntmrh. hefur, þá óttast ég að á næstu árum muni hann stórauka innritunargjöldin vegna þess að hann hefur marglýst því yfir að hann sé þeirrar skoðunar að skráningargjöld eða skólagjöld með einhverjum móti eigi að verða snarari þáttur í rekstri skóla. Ég segi það hins vegar fyrir mína parta að mér þótti fróðlegt að heyra það hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur að skráningargjöld auðvelduðu rekstur háskólans. Hún kom hér með dæmi og ég dreg það ekki í efa, hún hefur reynslu af því en ekki ég. Ég hef ekki þessa reynslu. En ég verð hins vegar að segja að það hefur hryggt mig þegar umræða um innritunargjöld við Háskóla Íslands hefur komið upp hversu tvíbent afstaða háskólakennara hefur verið.