Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 23:28:47 (2244)

1995-12-20 23:28:47# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[23:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þingheim með afskaplega langri ræðu eins og hugur minn stendur þó til en ég vil þó spyrja hæstv. forseta: Hvað dvelur nú orminn langa sem jafnan heldur til í sæti hæstv. heilbrrh.? Er hann ekki hér í kvöld?

(Forseti (RA): Ég geri ekki ráð fyrir að þingmaðurinn eigi við hæstv. ráðherra.)

Svo er þó.

(Forseti (RA): Þá bið ég hann að gæta orða sinna. En ég skal aðgæta hvort hæstv. heilbrrh. er nærstaddur.)

Herra forseti. Ég mun reyna að gæta hófs í ummælum mínum um framsóknarmenn, jafnt hæstv. ráðherra sem aðra. En mér þætti vænt um ef hæstv. heilbrrh. kæmi innan stundar í sæti sitt vegna þess að ég þarf að eiga orðastað við Framsfl. í kvöld.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hafa verið umræður í gangi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um breytingar á því frv. sem við höfum hér til umræðu í kvöld, þ.e. hinum fræga bandormi. Ég hef verið afskaplega undrandi á þeim vinnubrögðum sem hafa verið uppi, sérstaklega af hálfu hæstv. heilbrrh. Það má orða það svo, herra forseti, að nýjar tillögur hafi verið að koma fram alveg fram á síðustu stund. Bendir margt til þess að þær tillögur sem hafa komið fram undan hatti hæstv. heilbrrh. séu í rauninni ekki hennar smíð heldur séu þær búnar til í allt öðru ráðuneyti, þ.e. í fjmrn. Það er svo mikil handarbakavinna, herra forseti, að sérfræðingar hæstv. heilbrrh., sem hafa komið til fundar við heilbr.- og trn., hafa ekki getað skýrt lykilatriði. Orsakirnar fyrir því eru einfaldlega eftir því sem gengur fram af þeirra munni: Það er ekki búið að útfæra þær breytingar sem varða þó fjölda manna gríðarlega miklu. Ég nefni dæmi: Það er búið að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar samtals um 50--60 millj. Það er eðlilegt að þingheimur spyrji hæstv. heilbrrh. um það, sem hefur nú gengið í salinn öllum til óblandinnar gleði og ánægju, ekki síst okkur unnendum Framsfl. á þessu þingi.

[23:30]

Það er eðlilegt, herra forseti, að eftirfarandi spurningum sé varpað til hæstv. heilbrrh.: Hvernig verður útfærslan á hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöðvar? Hvað mun það t.d. þýða varðandi gjaldtöku fyrir börn sem koma á heilsugæslustöðvar? Er það til að mynda rétt að gjaldtaka vegna komu barna á heilsugæslustöðvar muni aukast um 50%? Ég spyr vegna þess að það hefur komið fram í tveimur fjölmiðlum. Ég spyr vegna þess að sendimenn hæstv. heilbrrh. sem komu á fund heilbr.- og trn. gátu ekki svarað þessari spurningu.

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með hvernig tillögur hafa komið úr heilbrrn. síðustu daga. Einn af þingreyndustu mönnum stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, lýsti yfir í ýtarlegri, málefnalegri ræðu sinni fyrr í dag að hann hefði ekki yfirlit yfir hvernig staðan væri því að svo margar og miklar hefðu breytingarnar verið. Því hefur verið lýst yfir af hálfu stjórnarsinna að þetta sé nauðsynlegt fyrir ýmissa hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna þess að dregnar hafa verið til baka tillögur sem hafi leitt til þess að það þurfi að finna nýjar fjárlindir. Þessar tillögur voru til að mynda innritunargjöldin sem hæstv. heilbrrh. lagði á sínum tíma fram. Nú er það svo að hæstv. heilbrrh. lagði fram tillögur um innritunargjöld og auðvitað má hafa sérstakt mál um það. Framsfl. lýsti yfir megnri andstöðu við innritunargjöld í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það sem meira var, hæstv. heilbrrh. gekk fram fyrir skjöldu og lýsti yfir sérstakri andúð sinni og mótstöðu við það sem hún kallaði sjúklingaskatta. Hvað var það sem hæstv. heilbrrh. kallaði sjúklingaskatta? Það voru þjónustugjöld. Það voru m.a. gjöld fyrir komur barna og annarra á heilsugæslustöðvar. Hæstv. heilbrrh. lýsti sérstakri andstöðu við þetta. Nú, þegar hæstv. heilbrrh. er spurð að því hvernig standi á því að henni dettur í hug sú ósvinna að hækka gjöld fyrir komur þeirra sem þurfa að leita læknis á heilsugæslustöðvar þá segir hún: ,,Það er vegna þess að ég dró til baka tillögur um innritunargjöld.`` Hæstv. heilbrrh. var á móti innritunargjöldum í tíð síðustu ríkisstjórnar og hún var líka á móti þjónustugjöldum. Eigi að síður grípur hún nú til þeirra ráða þegar hún fellur frá innritunargjöldum, sem hún var sjálf á móti, að hækka komugjöld vegna heimsókna á heilsugæslustöðvar. Hæstv. heilbrrh. var á móti því á síðasta kjörtímabili. Það er rétt að ítreka það, herra forseti, að allt það sem hæstv. heilbrrh. leggur til í bandorminum eru atriði sem hún var á móti í síðustu ríkisstjórn. Það er hægt að taka dæmi, lítil dæmi sem litlu skipta, en sýna þau algjöru umskipti sem hafa orðið í kolli hæstv. ráðherra. Ég nefni t.d. tillögu í bandorminum um að fella niður ekkjulífeyri. Samkvæmt greinargerð fjmrn. þá er sparnaðurinn afskaplega lítill, 5 millj. kr. eða þar um bil. Rökin fyrir því, hver eru þau? Rökin sem koma frá hæstv. ráðherra eru að ekki sé rétt að hafa kyntengdan lífeyri með þessum hætti. (Gripið fram í.) Herra forseti, þessi hugmynd var líka rædd á síðasta kjörtímabili. Það er hægt að finna ræðu hjá hæstv. heilbrrh. þar sem hún er einmitt að ræða þetta atriði og þá leggst hún gegn því að ekkjulífeyririnn sé felldur niður en segir: ,,Hvers vegna ekki í staðinn að taka upp ekklalífeyri?`` Með öðrum orðum, hún var á móti því sem hún gerir núna í tíð síðustu ríkisstjórnar, jafnvel í hinum smæstu atriðum.

Herra forseti. Fyrst ég er kominn út í það sem mér liggur mest á hjarta í kvöld, þ.e. það sem ég kalla hina svívirðilegu framkomu Framsfl. í garð aldraðra, öryrkja og þeirra sem minna mega sín þá finnst mér rétt að fara nokkrum orðum um það.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með hringlandahætti hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég minni t.d. bara á þær umræður og ótrúlegu hamskipti sem hafa orðið í viku hverri á hæstv. ráðherra þegar kemur að bílakaupalánum öryrkja. Það er sem betur fer búið að sigla því máli í höfn. En nú spyr ég hæstv. ráðherra, ef hún vildi fylgjast með máli mínu: Er ekki rétt að þegar tryggingaráð tók ákvörðun um að fella niður bílakaupalán til öryrkja þá hafi það verið gert ef ekki að ósk hæstv. ráðherra þá a.m.k. með samþykki ráðherrans? Hæstv. ráðherra hefur í þessum sölum ítrekað varið þessa aðgerð með því að segja að þetta stafi af því að lagastoð skorti fyrir bílakaupalánum til öryrkja og hefur vísað til skýrslu Ríkisendurskoðunar um það. Þegar hæstv. ráðherra varð, ekki síst vegna andstöðu í þinginu og reyndar í þjóðfélaginu líka, knúinn til þess að skipta um skoðun þá var henni bent á það að hún hefði sjálf sagt að það væri ekki til lagastoð fyrir þessum litla útgjaldaflokki hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún bauð upp á samvinnu við heilbr.- og trn. um að flytja slíka lagabreytingu. Í ljós kom að hæstv. ráðherra var það ókleift. Hæstv. heilbrrh. hafði bersýnilega ekki haft tóm til eða ekki gefið sér tíma til að ræða þetta við hinn stjórnarflokkinn í heilbr.- og trn. sem lagðist gegn málinu. Staðan er núna sú að þrátt fyrir að hún hafi verið knúin til þess að taka upp þessi lán á ný og hafi sjálf eftir umræður í þinginu beitt sér fyrir því innan tryggingaráðs þá er samt sem áður engin lagastoð fyrir málinu samkvæmt skilgreiningu ráðherrans. Við í stjórnarandstöðunni höfum boðið upp á flutning tillögu til þess að gera þetta löglegt og festa þetta endanlega í sessi. Þannig að hún, ef henni býður svo við að horfa, eða einhver annar ráðherra geti ekki fellt þessi lán niður aftur. Framsóknarmenn í hv. heilbr.- og trn. tóku undir málstaðinn en Framsfl. treysti sér ekki til þess að fylgja málinu eftir, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. heilbrrh. Hvaða ályktun dreg ég af því? Ég dreg þá ályktun að í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum hefur Sjálfstfl. valtað yfir Framsfl. Sjálfstfl. hefur ekið eins og stór jarðýta yfir Framsfl. í þeim málum sem tengjast velferðinni.

Herra forseti. Til þess að ítreka þetta frekar þá vildi ég gjarnan rekja hérna lítillega hluta af því sem Framsfl. notaði sem kosningastefnuskrá sína. Það var þessi bæklingur, undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi og undirfyrirsögnin er Sáttmálinn milli kynslóðanna. Á grundvellinum sem birtist í þessum bæklingi háði m.a. hæstv. heilbrrh. farsæla kosningabaráttu sína sem var sigursæl. Hvers vegna? Vegna þess að fólkið trúði hæstv. heilbrrh., vegna þess að fólkið trúði forustu Framsfl. ,,Sáttmálinn milli kynslóðanna.`` Hvað segir í honum? Herra forseti, mig langar að lesa, með ágætu leyfi forsetans, nokkrar setningar úr kafla sem Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl. og núv. hæstv. utanrrh., skrifar í þennan bækling. Þau orð eru svofelld og vildi ég nú gjarnan að hæstv. heilbrrh. hlýddi á mál mitt vegna þess að þetta er sú stefna sem hæstv. ráðherra byggði á þegar hún háði kosningabaráttu sína. Nú ætla ég að bíða, hæstv. forseti, á meðan ráðherrann lýkur símtali sínu.

Herra forseti. Það er velkomið að ég geri hlé á ræðu minni á meðan ráðherrann sinnir ýmsum símtölum við vildarmenn úti í bæ.

(Forseti (GÁS): Forseti væntir þess að ráðherra leggi nú við eyrun og forseti fer þess á leit við hæstv. heilbrrh. að hann geri það nú þegar, enda kemur það í ljós.)

(Heilbrrh.: Þetta var mjög áríðandi samtal ...) Að sönnu geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi ekki komist í kast við hv. þm. Árna Johnsen og hafi þess vegna tvö eyru heil og geti léð mér þau bæði.

Herra forseti. Það sem hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. segir hér í texta undir fyrirsögninni ,,Sáttmálinn milli kynslóðanna`` er m.a. eftirfarandi:

,,Við sem fylkjum okkur undir merki Framsóknarflokksins lítum svo á að í gildi sé sáttmáli milli kynslóðanna sem eigi að vera undirstaða að allri umræðu um þjóðfélagsmál. Stjórnmálamönnum er trúað fyrir þessum óskráða en órjúfanlega sáttmála og mega aldrei hrófla við meginmarkmiðum hans.``

Hver er þessi sáttmáli, herra forseti, sem ekki má rjúfa? Síðan segir:

,,Okkur ber skylda til að nýta almannafé í því augnamiði að rétta hlut þeirra sem minna mega sín, liðsinna sjúkum og fötluðum, gefa hinum ungu tækifæri til að þroskast og hinum eldri færi á hvíld eftir unnið dagsverk.``

Undir sérstökum lið sem heitir ,,Sáttmáli sem ekki má rjúfa`` segir, herra forseti, með þínu góða leyfi, og það er verið að tala um fyrri ríkisstjórn:

,,Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur rofið þessa sætt með því að stórauka álögur á sjúklinga, öryrkja, ellilífeyrisþega og aðra þá sem þurft hafa að leita sér læknisaðstoðar. Fjárveitingar til sjúkrahúsanna hafa verið skornar niður og hefur jafnvel þurft að loka einstökum deildum.``

Síðan segir og það er lykilsetningin í þessum texta, herra forseti:

,,Framsóknarflokkurinn telur brýnt að horfið verði af þessari braut.``

Þetta eru merkileg orð. Merkileg í ljósi sögu undangengins missiris. ,,Framsóknarflokkurinn telur brýnt að horfið verði af þessari braut.`` Hvernig hefur hæstv. heilbrrh. beitt sér fyrir því að horfið verði af þessari braut? Hún hefur aukið það sem hún sjálf kallaði sjúklingaskatta, sem eru komugjöld, m.a. barna, á heilsugæslustöðvar. Hún hefur aukið álögur á þá sem eru eldri en 67 eða 70 ára. Og það sem mér þykir verst, háværust svikin sem bókstaflega kalla framan í hæstv. ráðherrann, er hvernig hún hefur lagt fram tillögur í bandorminum sem rjúfa þá sátt sem hefur árum saman ríkt í þjóðfélaginu um kjör aldraðra og öryrkja.

Á Íslandi ríkir ákveðin sátt og hefur ríkt um nokkurra áratuga skeið um að þessir hópar, þeir sem hafa lokið dagsverki sínu og þeir sem vegna slysa eða meðfæddrar fötlunar geta ekki með sama hætti og við hin tekið þátt í hinu daglega lífi þjóðfélagsins, skuli njóta þróunarinnar, hagsældarinnar, og þess þegar vel gengur. Það kemur líka niður á þeim þegar illa gengur. Það hefur verið bundið í lög um almannatryggingar að bætur til atvinnulausra, til aldraðra og til öryrkja skuli fylgja því sem hefur jafnan verið grunneining á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e. vikukaupi verkamannsins. Þegar vel árar í þjóðfélaginu þá hækkar þetta vikukaup, þegar illa árar hefur það að sjálfsögðu tilhneigingu til að lækka miðað við verðlag. Bætur til þessara hópa sem einhverra hluta vegna standa ekki jafn vel að vígi og við hafa fylgt þessu. Það hefur verið eins konar sátt í þjóðfélaginu, sátt þess hjarta jafnaðarmannsins sem slær í flestum Íslendingum, að við þessu verði ekki hróflað. Á dauða mínum, herra forseti, hefði ég fremur átt von en að það yrði flokkurinn sem gekk til baráttunar undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi, undir kjörorðinu Sáttmálinn milli kynslóðanna sem rýfur þessa sátt. En það er svo, herra forseti. Það er Framsfl. sem gengur fram fyrir skjöldu og er hálfu verri en Sjálfstfl. í þessum efnum. Hálfu verri segi ég vegna þess að það er Framsfl. sem fer með þessi ráðuneyti, sem gaf þessi loforð, sem er að svíkja þessi loforð. Sárast er að sú vaska þingkona sem gat sér gott orð sem talsmaður Framsfl. í heilbrigðismálum á síðasta kjörtímabili, þáv. hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, sem ábyggilega vann hug og hjörtu margra aldraðra Íslendinga, margra úr hópum öryrkja, margra þeirra sem lásu t.d. stefnuskrá Framsfl. frá flokksþinginu sem haldið var í Reykjavík 24.--27. nóv. á sl. ári. Þar var m.a. lofað að standa vörð um bílakaupamálin og standa vörð um þessa sátt. En það er þessi fyrrv. þingkona, núv. hæstv. ráðherra, sem leggur fram tillögurnar sem rjúfa þessa sátt. Það er hæstv. heilbrrh. sem með einu hnífsbragði ætlar að skera sundur kaðalinn sem heldur uppi öryggisnetinu sem þessir hópar hafa lagt sinn hlut í.

[23:45]

Þetta er fólkið sem við tökum arf eftir, þetta er fólkið sem hefur byggt þjóðfélagið sem við tökum í arf og er býsna gott og þetta eru systur okkar og bræður sem einhverra hluta vegna, vegna slysa eða meðfæddrar fötlunar, geta ekki tekið þátt í þjóðlífinu með sama hætti og við. Það getur hent okkur öll að verða fyrir slíku slysi. Flest okkar, m.a. ég, eigum nána ættingja sem hafa allt sitt á þurru út af þessu öryggisneti. Ef það er eitthvað eitt sem Íslendingshjartað hefur slegið með þá er það að standa vörð um hlut þessa fólks. Sá vörður er ekki staðinn lengur, ekki af hálfu ríkisvaldsins, örugglega ekki af hálfu Framsfl. og því miður ekki af hálfu hæstv. heilbrrh. sem hefur svikið hvert einasta loforð sem forusta flokks hennar gaf gagnvart þessu fólki undir kjörorðunum: Sáttmáli milli kynslóðanna og Fólk í fyrirrúmi. Hennar brigð eru meiri en annarra vegna þess að hún var talsmaður flokksins í þessum efnum á síðasta kjörtímabili. Það var hún sem gaf loforðin. Það var hún sem sagði: ,,Framsóknarflokkurinn mun breyta þessu.`` Og það var Framsfl. sem sagði að það væri jafnvel svo að það hefði þurft að loka einstökum deildum. Herra forseti, hvað blasir við núna? Það blasir við að ef þær tillögur sem hæstv. fjmrh. hefur gert fyrir hönd hæstv. heilbrrh. um sjúkrahúsin á Íslandi verða að veruleika, munu lokanir ekki verða af svipuðu tagi og á síðasta kjörtímabili þegar þær fóru á Ríkisspítulunum hæst í 11,6% af öllum legurúmum. Aukningin á fjölda auðra legurúma verður nánast 90%. Það blasir sem sagt við á árinu 1996 að allt að 20% allra legurúm á Ríkisspítölunum muni standa auð vegna þess að hæstv. heilbrrh. hefur gert sínar tillögur um fjármál spítalanna. Þær eru með þeim hætti að hennar eigin flokksmaður, Guðmundur G. Þórarinsson, stjórnarformaður Ríkisspítalanna, fyrrv. þingmaður Framsfl., hefur á fundi heilbr.- og trn. lagt fram útreikninga sem sýna svart á hvítu að ef tillögur hæstv. heilbrrh. verða að veruleika þá muni fimmta hvert legurúm á Ríkisspítölunum standa autt.

Hæstv. heilbrrh. hélt ræðu á síðasta kjörtímabili hér í þessum þingsal. Þar líkti hún því nánast við glæp að loka deildum. Það má líka benda á að hæstv. heilbrrh. hélt nokkrar ræður um geðverndarmál á síðasta kjörtímabili og eina ræðu eftir að hún var orðin heilbrrh. þar sem hún m.a. gat þess að það yrði tekið sérstaklega á þeim málum sem varða geðvernd barna og unglinga. Hæstv. heilbrrh., ég bið bara um einn greiða. Getur ráðherrann bent mér á hvar hún hefur efnt þessi orð. (Heilbrrh.: Já.) Hún getur það ekki. Vegna þess að það er meira að segja svo illa staðið að geðverndarmálum undir hennar stjórn að það fæst ekki einu sinni fjármagn til að ljúka við ákveðna tilraun sem gerð var með dagdeild. Þetta hefur komið fram á fundum yfirlæknis deildanna með heilbr.- og trn.

Herra forseti. Það er eitt annað mál sem mig langar að gera að sérstöku umræðuefni hér í kvöld. Það eru þær breytingar sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt til að verði gerðar á lögum um bætur til handa fórnarlömbum ofbeldis. Ég minni á það, herra forseti, að mér er málið skylt vegna þess að ég var einn fjögurra eða fimm flutningsmanna að því frv. á síðasta kjörtímabili. Það er svo, herra forseti, að þegar það frv. var afgreitt frá þinginu var enginn þingmaður á móti því, ekki nokkur einasti maður. Þetta frv. átti sér þann aðdraganda, herra forseti, að við fjórir eða fimm þingmenn, þ.e. einn þingmaður frá hverjum þáverandi flokka sem áttu sæti hér á þingi, lögðum fram þáltill. þar sem lagt var til að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota. Þessi tillaga spratt ekki fullsköpuð úr okkar höfði heldur kom hún í kjölfar umræðu sem hafði átt sér stað í þjóðfélaginu um að þolendur kynferðisbrota sem hefðu fengið dæmdar bætur hefðu ekki getað innheimt þær. Þessi tillaga var samþykkt hér, herra forseti, og í kjölfar þess lagði hæstv. dómsmrh. fram frv. um það. Það er að vísu svo að ég taldi á þeim tíma að hugur hæstv. dómsmrh. með þessu máli væri ekki mjög fastur. Ég vísa til þess, herra forseti, að þegar hæstv. dómsmrh. hélt framsöguræðu sína með þessu frv., sem við töldum að bryti í blað, var hún einungis 27 línur. En frv. var samþykkt og hlaut náð fyrir augum allra þingmanna. Ég tel að það hafi verið sögulegt og hafi gengið lengra en svipuð löggjöf í öðrum málum. Nú gerist það hins vegar, herra forseti, að þetta frv. sem hefur hlotið þrjár umræður á þinginu og mjög ítarlega umfjöllun af hálfu þingmanna kemur skyndilega fram í bandormi, eitt af 33 málum, 33 lagabálkum sem ríkisstjórnin hyggst breyta. Það á að limlesta þetta frv. Ég segi það fyrir mig, herra forseti, að ég get ekki fallist á það. Ég mun aldrei greiða því atkvæði og mun gera allt sem í mínu valdi stendur hér á þessu þingi til að koma í veg fyrir að sú tillaga sem er í bandorminum verði samþykkt. Ég vísa líka til þess, herra forseti, að þegar þetta mál var til umfjöllunar hið fyrsta sinni 23. nóv. hjá allshn., sem er sú fagnefnd sem á að fjalla um það, var lagst harkalega gegn því af allri nefndinni. Hv. allshn. hafði þá til umfjöllunar fjárlög þar sem gert var grein fyrir því að ein af forsendum fjárlaga væri sparnaður sem næmi 40 millj. kr. með því að gjörbreyta eðli þessara laga, sem er algerlega óásættanlegt. En það verður að segjast meiri hlutanum í hv. allshn. til hróss að hann lagðist gegn þessu og sendi fjárln. álit sitt og ég vitna hér í það, með leyfi hæstv. forseta: ,,Leggur nefndin til að leitað verði annarra leiða þannig að meginmarkmiðum laganna verði náð.`` Þegar kom til umfjöllunar um bandorminn í allshn. þá klofnaði nefndin að vísu. En minni hlutinn var harkalega á móti þessum breytingum og í áliti meiri hluta allshn. kom líka fram mjög sterk andstaða gegn því. Þessi andstaða og þetta álit meiri hlutans í hv. allshn. varð þess valdandi að ég átti hér í munnhöggi við hv. þm. Villhjálm Egilsson vegna þess að mér sýndist að hann hefði ekki tekið nokkurt einasta tillit til umsagna, hvorki meiri hluta né minni hluta. Og þótt samningaviðræður hafi verið millum stjórnar og stjórnarandstöðu síðan á föstudag hef ég ekki enn séð útfært endanlegt samkomulag um að þessu verði breytt. Og ég mun aldrei fallast á það og gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta verði samþykkt eins og í bandorminum stendur.

Herra forseti. Að lokum langar mig að drepa á nokkur atriði sem varða heilbrigðiskafla bandormsins. Mig langar sérstaklega að ræða um 30. gr. þar sem gert er ráð fyrir að leggja eigi fjármagnstekjuskatt á þá sem þiggja lífeyri frá hinu opinbera. Nú er það svo, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að taka upp fjármagnstekjuskatt hið bráðasta. Alþfl. gerði það sem hann gat í tíð síðustu ríkisstjórnar til að fá slíkan skatt upp tekinn en Sjálfstfl. lagðist gegn því. Enda er ég sannfærður um að Sjálfstfl. mun leggjast gegn því aftur á þessu kjörtímabili. Ég deili ekki hinni bernsku sýn hæstv. heilbrrh. sem sagði hér í umræðum í gær að hún væri sannfærð um að fjármagnstekjuskattur yrði lögfestur fyrir 1. sept. á næsta ári. Ég segi og býð upp á það fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, eins og við höfum áður gert, ég er reiðubúinn til að samþykkja þetta ákvæði svo fremi sem hnýtt verði aftan í það: Enda verði fjármagnstekjuskattur tekinn upp.

Nú veit ég, þrátt fyrir efasemdir sem ég hef haft uppi um þær tillögur sem hæstv. heilbrrh. hefur fært fram í þessari umræðu, að hún hefur gott hjartalag. Ég veit að það er ekki hennar ósk að níðast sérstaklega í þessu tilliti á öldruðum og öryrkjum umfram aðra. Hvers vegna getur hún þá ekki fallist á þetta? Ef hún er í hjarta sínu sannfærð um að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp fyrir 1. sept. eins og hún sagði hér í umræðunni í gær, hvers vegna getur hún þá ekki fallist á þetta góða boð stjórnarandstöðunnar? Við yrðum þá samferða inn í þessa nýju veröld fjármagnstekjuskattsins.

Í annan stað, herra forseti, er grein í bandorminum sem varðar þá sem ekki hafa sinnt lagaskyldu um greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð. Það hefur verið tillaga hæstv. heilbrrh. að hvað slíkt fólk varðar verði gert ráð fyrir að viðkomandi hafi greitt í lífeyrissjóð þegar kemur til útreikninga bóta. Þarna kemur að því sem hefur verið einkenni á hæstv. heilbrrh. í þessari umræðu og aðdraganda þessarar umræðu, hringlandahátturinn. Hæstv. heilbrrh. hefur ítrekað verið spurð að því hvað þetta ákvæði þýddi. Hverjir eru þessir hópar sem eiga að gjalda þessa ákvæðis? Hæstv. heilbrrh. svaraði fyrirspurn frá mér í fyrri viku og sagði hiklaust, ,,Það sem ég á við eru atvinnurekendur.`` Ég þráspurði hana og hún sagði að þetta væru atvinnurekendur. Í umræðum hér í gær við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kom í ljós að það voru ekki bara atvinnurekendur heldur sagði hún: ,,T.d. atvinnurekendur.`` Og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Er hún reiðubúin til að lýsa því hér skorinort yfir að það séu bara atvinnurekendur? Ef svarið er nei bið ég hana að lýsa því skorinort yfir að engir öryrkjar muni verða í þeim hópi sem kunni að gjalda þessa. (Heilbrrh.: Það eru engir öryrkjar.) Ég spyr vegna þess að hæstv. heilbrrh. hefur ekki getað haldið sig við eina skoðun í þessu máli, eins og fram hefur komið. Ég spyr vegna þess að síðast í kvöld komu forráðamenn öryrkja og fatlaðra bréfi í hendur formanna þingflokka og stjórnarandstöðunnar þar sem þeir eru enn að lýsa þessum áhyggjum sínu. Og þessar áhyggjur eiga sér þá stoð að talsmenn þessara hópa fóru á fund hæstv. fjmrh. í síðasta mánuði og komu heldur skelfdir um þetta atriði þaðan. Það hefur sýnt sig því miður að þegar það er ágreiningur á milli hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh., er það jafnan hæstv. heilbrrh. sem lætur undan víkja og í þann poka sem minni er.

Mig langar líka, herra forseti, þótt það sé ekki á fagsviði minnar nefndar, hv. heilbr.- og trn., að víkja hér að þeim breytingum sem lagðar eru til um málefni fatlaðra. Þar er gert ráð fyrir því að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra á næsta ári til tiltekinna rekstrarverkefna. Gott og vel. Ég get fallist á þetta. Þetta hefur forusta öryrkja og fatlaðra á Íslandi fallist á undanfarin ár. En það hefur jafnan verið á þeirri forsendu að þær tekjur sem hafa runnið í sjóðinn úr erfðafjársjóði væru óskertar. Nú gerist það hins vegar í fyrsta skipti að það á að skerða þær tekjur um, að því er mér sýnist, u.þ.b. 130 millj. Á þetta er ekki hægt að fallast, herra forseti. Ég spyr hæstv. félmrh. hvort hann geti ekki á grundvelli þeirra yfirlýsinga sem ég hef rakið hér frá forustu Framsfl. og á grundvelli þess ágæta kafla um málefni fatlaðra sem hann samþykkti með öðrum forustumönnum Framsfl. á flokksþinginu 24.--27. nóv., lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að breyta þessu? Vegna þess að hérna brýtur Framsfl. í blað með afskaplega neikvæðum hætti. Ég verð að segja, herra forseti, að hæstv. félmrh. er sá ráðherra Framsfl. sem hefur staðið sig langbest. Það hefur ekkert komið mér á óvart en hann hefur staðið sig vel. En þetta er ekki bara ljóður á ráði hans, þetta er blettur á ráðherraæru hans. Og ég veit að hæstv. ráðherra er umhugað um að hún skíni spegilfögur ekki síður en sá gljáandi skalli sem er að finna á þeim manni sem situr við hlið hans núna, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem ég gæti um þetta sagt.

[24:00]

Það er eitt sem ég vil spyrja um undir lok ræðu minnar. Það er 61. gr. frv. Ég hygg, ef hæstv. félmrh. mætti hlýða á mál mitt, að þar sé um að ræða grein sem er á hans verksviði. Það er breyting á lögum um ráðningu starfsmanna og um húsnæðismál ríkisstofnana. Er það ekki á sviði hæstv. félmrh.? (Gripið fram í.) Enginn hefur sagt mér frá því en það skiptir ekki máli. Ég vildi gjarnan að hæstv. félmrh. mundi þegar líður á nóttina, svona í kringum tvöleytið þegar ég hef lokið ræðu minni, gera grein fyrir því hvað þessi grein þýðir. Hvað þýðir að hlutaðeigandi ráðherra verði heimilt að semja við sveitarfélög eða einkaaðila um að þeir taki að sér að veita þjónustu sem tiltekinni ríkisstofnun er ætlað að veita? Þýðir það t.d., hæstv. félmrh., að þarna sé komið ákvæði sem heimili hæstv. menntmrh. að einkavæða hluta af skólakerfinu? Hæstv. menntmrh. hefur nýverið haldið ræðu þar sem hann hefur lýst yfir pólitískri stefnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hún felur í sér að lyfta eigi undir einkaskóla. Við höfum fengið forsmekkinn af því hvernig það er gert. Það er t.d. hægt að gera það með því að gera sérstaka verkefnasamninga við skóla. Einn slíkur hefur verið gerður við Kvennaskólann í Reykjavík. Hann er merkilegur að ýmsu leyti. Hið jákvæða við slíka samninga, herra forseti, er að það gerir viðkomandi stofnunum kleift að hnitmiða starfsemi sína, gera sér skýrari grein fyrir sínum eigin verkum. Ég leggst ekkert gegn verkefnastjórnun en mér þótti afskaplega merkilegt þegar ég kynnti mér samninginn við Kvennaskólann í Reykjavík. Þar kemur t.d. fram að það má ekki hnika til launum kennaranna. Hvernig í ósköpunum, hæstv. félmrh., sem er í hjarta sínu samvinnusinnaður eins og sá þingmaður sem hér stendur, ættu t.d. ríkisskólar að geta keppt við einkaskóla undir slíkum kringumstæðum? Er hér ekki, með 61. gr., verið að búa til tæki sem til að mynda gerir hæstv. menntmrh. kleift að ýta fram stefnu sinni um að flytja t.d. hluta af skólakerfinu yfir í einkageirann? Ég spyr, herra forseti, vegna þess að mér finnst allt í lagi að ræða um einkaskóla, mér finnst það, og ég tel að tími sé kominn á það, eins og ég sagði í ræðu fyrir tveimur vikum, að ræða það til hlítar. En það er ekki hægt að taka það með 32 öðrum lagabálkum á einu kvöldi. Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. félmrh., sem ég tel skynsamastan þeirra ráðherra sem enn eru með rænu í þessu húsi, svari þessu fyrir mig.

Herra forseti. Ég sé að mér hefur e.t.v. ekki tekist mjög vel upp með þessari ræðu. (Gripið fram í: Nei.) Eitt hefur mér þó tekist og það er að vekja hæstv. félmrh. af dvala sínum. Og væri ég til í, herra forseti, að eyða öðrum klukkutíma af lífi mínu, jafnvel annarri nóttu, jafnvel einhverjum hluta af vinstri hönd minni, ef það mætti verða til þess að vekja Framsfl. af dvala sínum. Framsfl. er þrátt fyrir allt stofnaður af sama manni og stofnaði Alþfl. Hann er þrátt fyrir allt afsprengi Jónasar frá Hriflu. Og ég get veitt hæstv. félmrh. það siðferðisvottorð að hann er sannkallað afsprengi Jónasar frá Hriflu. Hann hefur lent í ógöngum. Hann er kominn í vondra manna hendur. Hann er kominn í björgin. En hann er samt sem áður af þeim meiði sprottinn, lítil grein að vísu, en tilheyrir honum samt, sem ég kalla heiðarlega samvinnumenn. Hvernig stendur þá á því að svona menn taka þátt í því að leggja fram ákvæði sem gera þetta kleift sem ég var að ræða hér um áðan, einkavæða skólakerfið?

Nú er það svo að hæstv. félmrh. hefur gaukað að mér ýmsu meðan á okkar samvinnu hefur staðið, m.a. núna á litlum miða sem segir að þessi grein falli brott. Það er mér mikið fagnaðarefni en ég spyr samt sem áður: Hvernig datt hæstv. félmrh. í hug að vera aðili að slíku frv.? Mér þætti vænt um ef hann gæti svarað mér. Hvað fólst í þessu? Hinu veit ég að hann getur ekki svarað, hvað var það sem gerðist í brjósti og hugum framsóknarmanna þegar þeir leyfðu sér þetta, eftir að hafa háð kosningabaráttu sem m.a. byggðist á því að gera sáttmála milli kynslóðanna, á milli Framsfl. og aldraðra Íslendinga, á milli Framsfl. og öryrkja. Hvernig í ósköpunum geta þeir þá horft í spegilinn í augu sjálfra sín á morgnana eftir að hafa lagt fram frv. sem rífur þá sáttagjörð sem hefur þrátt fyrir allt verið aðall þeirrar jafnaðarstefnu sem einkennir alla flokka á Íslandi ekki. Ég veit að þetta er erfitt fyrir hæstv. félmrh. vegna þess að hann er að upplagi ærlegur Húnvetningur sem hefur lent í tröllahöndum. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég vildi gefa mikið til að heimta hann úr þeirri helju.