1995-12-21 00:29:27# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:29]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög sérkennilegt að formaður efh.- og viðskn. vilji ekki fara ofan í þetta bréf Sjálfsbjargar. Hann vill heldur bíða eftir því hvort niðurstaða umboðsmanns Alþingis verði sú að hér hafi verið um að ræða brot á stjórnarskránni. Mér finnst þetta mjög einkennileg vinnubrögð af hálfu Alþingis.

Í stjórnarskránni er kveðið á um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Það eru ekki allir jafnir fyrir lögum ef það er verið að taka út einn ákveðinn hóp í þjóðfélaginu, skoða hvaða vaxtatekjur hann hefur haft á þessu ári og láta þær skerða síðan bætur á árinu 1996. Þetta heitir að koma aftan að fólki og ég tel að hér sé um að ræða afturvirkni á skattalögum og brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar vegna þess að ef þessi hópur hefði vitað að það ætti að fara að skattleggja vaxtatekjur eins og vissulega er verið að gera, það er ekki hægt að mótmæla því, þá hefði hann kannski hagað sínum fjármálum með öðrum hætti á þessu ári en hann gerði. Núna rétt fyrir áramótin á að festa í lög fjármagnstekjuskatt á gamla fólkið sem ríkissjóður notar síðan til að skerða bætur til þessa hóps. Ég tel að annað eins hafi nú verið athugunarefni fyrir eina nefnd í þinginu. Og mér finnst það mjög alvarlegt ef formaður efh.- og viðskn. ætlar að láta þessa aðvörun fram hjá sér fara og bíða bara eftir því hvort niðurstaða umboðsmanns verði sú að um brot sé á stjórnarskránni að ræða. Mér finnst þetta sérkennileg vinnubrögð. Ef það gengur eftir að formaður efh.- og viðskn. hunsar þetta og ef tillaga stjórnarliða verður samþykkt við 2. umr. málsins, hljótum við að neyðast til að flytja brtt. við 3. umr. sem kveður á um að ákvæðið komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið lög um fjármagnstekjuskatt.