1995-12-21 00:31:26# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að óheppilegt er að setja í lög hluti sem eru afturvirkir með einhverjum hætti. Ég vil þó aftur vekja athygli hennar á því að fyrir þessu er löng hefð og málið liggur í sjálfu sér ljóst fyrir. Hitt er ekki rétt hugsun hjá hv. þm. að tala um þetta sem skattlagningu vegna þess að hér er um að ræða bætur almannatrygginga og (Gripið fram í.) lækkun bóta er ekki það sama og skattgreiðslur til ríkissjóðs. Tala má um jaðaráhrif af einhverjum þáttum í þessu og að sjálfsögðu er rétt að þessar tekjur munu lækka bætur almannatrygginga. Það sem hins vegar er úrvinnsluatriði í öllum svona málum er að sjálfsögðu að þingmenn og stjórnvöld, ég er viss um að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er í þeim hópi, reyna að verja þeim peningum sem til velferðarmála renna til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Sem betur fer hefur stöðugleikinn sem hér hefur byggst upp á undanförnum árum og það vit sem hefur náðst á fjármagnsmarkaðnum gert að verkum að sumt af því fólki sem nýtur bóta hefur allnokkrar fjármagnstekjur.

Það er spurning, þegar menn eru að velta fyrir sér hvert peningunum á að verja, hvort að fólk sem hefur mjög miklar tekjur af fjármagnseign sinni þurfi á sams konar bótum að halda og fólk sem á litlar eignir af þessum toga og hefur ekki sömu fjármagnsstöðu.