Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:33:55 (3093)

1997-02-04 20:33:55# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:33]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Af orðum hæstv. ráðherra er ljóst að ég og hæstv. ráðherra erum ekki ósammála um að nauðsynlegt sé að Ríkisendurskoðun hafi eðlilegan aðgang að Landsvirkjun og geti haft nauðsynlegt eftirlit með fyrirtækinu eins og gildir um aðrar stofnanir í meirihlutaeigu ríkissjóðs. En okkur greinir á um hvort ákvæði í frv. um Ríkisendurskoðun sé nægjanlegt. Sérákvæðin sem gilt hafa hingað til um Landsvirkjun hafa komið í veg fyrir að Ríkisendurskoðun geti haft þetta eftirlit. Það er enn verið að herða á þessum sérákvæðum. Þess vegna er nauðsynlegt að í frv. komi skýrt fram og lögunum um Ríkisendurskoðun, að þrátt fyrir þau ákvæði sem eru í þessu frv. um Landsvirkjun þá gildi lög um Ríkisendurskoðun um Landsvirkjun. Ég held að nauðsynlegt sé að ég og hæstv. ráðherra ræðum þetta milli funda til að það liggi skýrt fyrir að tryggt sé lagalega að Ríkisendurskoðun hafi þennan aðgang. Sama gildir um breytingartillöguna um Samkeppnisstofnun, um að starfsemi Landsvirkjunar falli undir samkeppnislög. Ég lít svo á eftir ræðu ráðherrans að við séum sammála um að nauðsynlegt sé að samkeppnislög nái til Landsvirkjunar. En eins og ákvæðið er sett upp í 8. gr. þá er sagt að stjórn Landsvirkjunar setji gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Það kemur í veg fyrir að Samkeppnisstofnun geti haft afskipti af gjaldskránni eða gripið inn í hana t.d. ef kvartað er um of háar gjaldskrárbreytingar, hvað þá að Samkeppnisstofnun geti gert það að sjálfsdáðum. Ef ráðherrann er sammála mér um að lög um Samkeppnisstofnun nái til Landsvirkjunar hvers vegna er ráðherrann þá ekki tilbúinn að festa það niður í lagatextanum sjálfum eins og hér er lagt til?