Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:49:29 (3178)

1997-02-06 13:49:29# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:49]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á sl. ári var gerð sú breyting á sölu áfengis hér á landi að áfengisverslun var að hluta til færð frá ÁTVR til innflytjenda sem ýmist voru þá heildsalar eða veitingamenn. Margir vöruðu við þessari breytingu á sínum tíma, töldu að þarna slaknaði á nauðsynlegu innra eftirliti en hún var samt samþykkt undir merki markaðsfrelsis eins og fleira. En Adam var ekki lengi í Paradís.

Nú hefur komið á daginn að virðisaukaskattsskil frá veitingastöðum hafa orðið mun minni á síðasta ári en áætlað hafði verið án þess þó að þess hafi orðið vart að þjóðin hafi tiltakanlega þornað upp eða aðsókn að vínveitingastöðum hafi farið minnkandi svo eftir því hafi verið tekið. Í lok árs komst svo upp um stórfellt vodkasmygl. Síðustu fréttir segja að fjórir gámar a.m.k. hafi þannig komið inn í landið og hafði þegar upp komst nánast allt runnið niður í landann einhvern veginn fyrir utan lög og rétt, kannski á vínveitingahúsum sem auðvitað skiluðu þá ekki virðisaukaskatti af þvílíku góssi. Það er full ástæða til að ætla að sú tilslökun sem gerð var á síðasta ári í sölu áfengis hafi ekki leitt til þess velfarnaðar sem boðaður hafði verið. Þvert á móti hafði hið rómaða markaðsfrelsi þarna verið misnotað og þetta hafi einmitt getað gerst vegna þeirrar slökunar á innra eftirliti sem margir höfðu, m.a. á hinu háa Alþingi, varað við.

Hinar nýju tillögur stjórnar ÁTVR um breytingar á stefnu í áfengis- og tóbakssölu þjóðarinnar í þágu markaðsfrelsis vekja upp ný varnaðarorð. Sporin hræða.