Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:59:58 (3226)

1997-02-06 16:59:58# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriðið er að ekkert af þessu hefði gerst án Atlantshafsbandalagsins. Berlínarmúrinn hafði ekki fallið án Atlantshafsbandalagsins. Samstarf í þágu friðar hefði ekki orðið til án Atlantshafsbandalagsins og Norður-Atlantshafssamvinnuráðið hefði heldur ekki orðið til án Atlantshafsbandalagsins þannig að Atlantshafsbandalagið er grunnurinn að þessu öllu saman og það vita allir. Rússar hafa gengið til samstarfs við Atlantshafsbandalagið í fyrrum Júgóslavíu og Rússar hafa gengið til samninga við Atlantshafsbandalagið um sín mál og það er engin ástæða til annars en að ætla að það verði leyst tiltölulega farsællega.

Þar er verið að ræða ýmislegt annað eins og t.d. aðgang Rússa að samstarfi stærstu iðnríkja heims, um afvopnunarmál, um efnahagsaðstoð við Rússa og hjálp Vesturveldanna að því er varðar uppbyggingu lýðræðis þar. Það er því ekki lítið mál að þar takist vel til og ég veit að hv. þm. er mér sammála um það.