Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 18:23:06 (4004)

1997-02-26 18:23:06# 121. lþ. 79.2 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[18:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin gerðust þau tíðindi að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar samþykkti að öll fjárframlög til starfsmenntunar og starfsnáms skyldu vera sérstakt viðfangsefni Atvinnuleysistryggingasjóðs og hér á að festa inn í lög um Atvinnuleysistryggingasjóð að þetta sé sérstakt verkefni sjóðsins. Þetta er fráleit tilhögun og alveg einstaklega metnaðarlaust að ætla að velta á þennan hátt ábyrgðinni af þessum þætti menntunar í landinu yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð í staðinn fyrir að hafa það fjárlagalið eins og vera ber og efla hann á komandi árum eins og mikið er talað um. Það má vera hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar hér til háðungar og skammar ef hún vill reisa sér þetta minnismerki og ég veit ekki hvors sök er verri í því, hæstv. félmrh. eða hæstv. menntmrh. En heldur er lágt á þeim báðum risið, það verð ég að segja, þessum görpum, að ætla að láta þetta verkefni, sem mikið hefur verið talað um að nauðsyn beri til að sinna betur en gert hefur verið, þ.e. öllu sem lýtur að starfsmenntun og endurmenntun og öðru slíku, vera verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þessi tenging er óviðurkvæmileg. Þetta fyrirkomulag er óeðlilegt og við greiðum því atkvæði gegn þessu, herra forseti.