Verðbólgureikningsskil

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:40:27 (4077)

1997-02-27 16:40:27# 121. lþ. 81.9 fundur 314. mál: #A verðbólgureikningsskil# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:40]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sú ályktun sem við ræðum hér felur í sér ákveðna skoðun á því að verðbólgureikningsskil séu slæm vegna þess að það stendur í henni að það eigi að kanna hvort hverfa eigi frá verðbólgureikningsskilum hérlendis. Það gefur til kynna að þau séu á einhvern máta slæm.

Nú er það þannig að hagnaður fyrirtækja er mismunur á tekjum og gjöldum og sem mismunatala er hann ákaflega viðkvæmur fyrir sveiflum. Verðbólgureikningsskilin sýna miklu nær raunveruleikanum það tap og þann hagnað sem fyrirtæki hafa. Ef fyrirtæki t.d. skulda mjög mikið, þá kemur tekjufærsla vegna þess að skuldirnar rýrna að hluta til vegna verðbólgunnar og til þess að sýna þann hagnað fyrirtækisins, þá er mynduð tekjufærsla sem hækkar eðlilega tekjur fyrirtækisins og hækkar jafnframt skattgreiðslu þess. Öfugt gerist með peningalegar eignir. Þá er sýnt fram á að þær vaxtatekjur sem fyrirtækið hefur af þessum eignum eru ekki eins miklar og sýnist vegna verðbólgunnar. Eignirnar rýrna jú og þess vegna eru tekjurnar sýndar minni og skatturinn minni. Hvort tveggja hvetur fyrirtækin til þess að skulda minna og eiga meira fé. Og ekki veitir af hér á landi.

Það var rætt um það hér af hv. þm. og frsm., Ágústi Einarssyni, að þetta mundi létta alþjóðlegan samanburð og það er rétt. Það má vel vera að það komi út úr þessu að skynsamlegt sé að fara þá leiðina. Hins vegar þykir mér slæmt ef Íslendingar ætla að hverfa frá kerfi sem hefur sýnt sig að vera mjög gott og miklu betra heldur en víðast hvar annars staðar. Og það hefur þann góða eiginleika að ráða við verðbólgu eins og hér var á árum áður og ráða líka við litla verðbólgu eins og nú er. Mér þykir því heldur miður ef menn hugsa sér að hverfa frá þessum verðbólgureikningsskilum, en að sjálfsögðu mun hv. efh.- og viðskn. ræða þessi mál þegar þau koma til hennar.