Störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:46:22 (4328)

1997-03-12 13:46:22# 121. lþ. 88.1 fundur 338. mál: #A störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt því út af fyrir sig er ekki meira að segja um efni fyrirspurnarinnar sjálfrar. En varðandi störf nefndarinnar vil ég minna á að það voru nokkuð skiptar skoðanir um hvernig staðið var að því að taka sérstaklega upp samninginn um sauðfjárræktina, sem ég taldi þó nauðsynlegt að gera og var gert áður en samningstíminn var útrunninn. Því tel ég að ekki hafi staðið á að landbrn. og núverandi landbrh. hafi reynt að bregðast við hvað það varðaði af því að menn voru almennt sammála um að staða sauðfjárræktarinnar væri þess eðlis að nauðsynlegt væri að taka á málum hennar áður en samningstíminn væri útrunninn. Ég vil síðan ítreka að þó að nokkuð hafi dregist að koma þessu nefndarstarfi í gang aftur á seinasta ári, þá var það ekki fyrir það að minn vilji stæði ekki til þess. Ég reyndi lengi að ná nefndinni saman og átti viðræður við menn til þess að koma nefndarstarfinu á og ég held að fullyrða megi að það sé í fullum gangi þó að ég hefði gjarnan viljað að nefndin væri fullskipuð eins og ég greindi frá áðan en hef ekki fleiri orð um það að sinni.

Sala dilkakjöts hefur að vísu dregist lítillega saman á seinasta ári, en þó má nefna það sem huggun harmi gegn að það er þó mikill munur frá því sem hefur verið á árum þar á undan. Það hefur verið gríðarlegur samdráttur í neyslu kindakjöts á undanförnum árum þangað til á seinasta ári. Og þar sem hv. þm. tók til, ég held að ég hafi náð rétt, verulegur samdráttur fyrstu þrjá mánuði ársins 1996, (Gripið fram í: Síðustu þrjá mánuði ársins 1996.). Síðustu þrjá mánuði 1996, þá hef ég það ekki nákvæmlega fyrir framan mig. En ég minni á að það hefur auðvitað skekkt nokkuð samanburð á milli einstakra mánaða að menn hafa verið hér í alls konar söluherferðum, m.a. útsölu á hverju hausti eða síðsumars, reglubundið undanfarið, en ég vona að það tímabil sé afstaðið því að nú eru ekki neinar umframbirgðir kjöts í landinu. Gert er ráð fyrir að við getum markaðssett kjötið nokkuð öðruvísi heldur en verið hefur og ég vona að það komi landbúnaðinum til góða. Einnig má nefna, því að hv. þm. sagði að sala erlendis hefði ekki gengið eftir, að þá hafa að vísu orðið áföll þar eins og með Bandaríkjamarkaðinn, en annars staðar hefur okkur gengið betur. Við höfum fengið aukna sölu á ESB-markaði og verð til sumra þeirra landa hefur verið nokkuð bærilegt þó að auðvitað það sé ekki eins og verðlagsgrundvöllur gerir ráð fyrir.