Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:03:37 (4372)

1997-03-12 16:03:37# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:03]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég held að það undri engan að leitast sé við að ná sparnaði og ráðdeild í rekstri ríkisstofnana. Auðvitað er það skylda ráðherra að reyna að koma fram ýtrustu hagkvæmni hvar sem er í ríkiskerfinu en kjarni málsins er sá að ekki er sama hvernig að því er staðið. Ég tel að ákvörðun Alþingis um 60 millj. kr. niðurskurð, sumir vilja nú ekki viðurkenna að þarna sé um niðurskurð að ræða, hafi verið ansi yfirborðsleg og það er mjög óljóst hvað í þeirri ákvörðun felst. Ég verð að segja það alveg eins og er að hæstv. ráðherra er alls ekki öfundsverður af því að eiga að framfylgja vilja meiri hluta Alþingis í þessu máli. Mér skilst nefnilega að það verði mjög erfitt víðast hvar að koma fram þessum sparnaði án þess að sjúklingum sé vísað frá. Það er mér sagt alls staðar þar sem ég spyr um þetta. Ef lausnin verður fólgin í því að farið er að vísa sjúklingum frá þá er augljóslega verr af stað farið en heima setið. Það er mjög dýrt að senda sjúklinga suður. Það er bæði dýrt fyrir sjúklingana sjálfa og einnig fyrir heilbrigðiskerfið. Það er sem sagt mjög óhagkvæmt þjóðhagslega séð að fara þá leið. Ég verð því, í þessu flókna máli sem ekki gefst langur tími til að ræða, að ljúka máli mínu með því að láta þá von í ljós að þetta sjónarmið verði haft í huga við endanlega afgreiðslu þessa máls sem er greinilega hið mesta vandræðamál.