Bókhald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 16:33:58 (4607)

1997-03-18 16:33:58# 121. lþ. 92.13 fundur 446. mál: #A bókhald# (viðurkenndir bókarar) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um bókhald, með síðari breytingum. Þetta mál er eins og hæstv. forseti benti réttilega á 446. mál þingsins og er að finna á þskj. 758.

Þetta frv. er einfalt. Það eru engin ákvæði í íslenskum lögum um starfsemi þeirra sem hafa atvinnu af því að færa bókhald og annast gerð reikningsskila og skattskila fyrir fyrirtæki. Þannig eru engar kröfur gerðar í lögum til menntunar eða hæfni þeirra sem selja slíka þjónustu.

Í frv. sem hér er til umræðu er ekki gert ráð fyrir að búin verði til ný lögvernduð stétt manna heldur að stjórnvöld hlutist til um að haldið verði námskeið og síðan próf þar sem þeir sem þess óska geti sannreynt fagþekkingu sína í bókfærslu, reikningsskilum og skattarétti og fengið síðan opinbera staðfestingu á þeirri þekkingu. Ég undirstrika þetta, þ.e. að hér er ekki verið að lögvernda starfsréttindi heldur verið að festa í lögum ákveðið heiti yfir þá menn sem hafa staðist tilskilin próf. Geri þeir það fá þeir sérstaka viðurkenningu ráðherra á faglegri hæfni sinni og þá er einnig gert ráð fyrir því að ráðuneytið haldi sérstaka skrá um þá einstaklinga sem hlotið hafa slíka viðurkenningu. Ég vil taka það fram að hægt er að sjálfsögðu að semja við fræðslustofnun, t.d. Háskóla Íslands eða Stjórnunarfélag Íslands eftir atvikum, um að standa að námskeiðum sem hér þyrftu að koma til skjalanna. Ráðuneytið bæri síðan ábyrgð á prófum eins og ráðuneytið gerir gagnvart löggiltum endurskoðendum sem þó hafa að sjálfsögðu miklu meiri menntun heldur en hér er verið að ætlast til að menn hafi.

Í dag eru þetta háskólamenntaðir menn, sjálfmenntaðir, verslunarskólamenntaðir o.s.frv. sem standa í störfum á borð við þessi. Margir þeirra vilja vera á skrá þar sem, vegna neytendasjónarmiða t.d., hægt sé fyrir aðila sem heldur skrána að geta bent á að þessir menn hafi hlotið tilskilda menntun, hafi þekkingu til að bera og af því að annars er hætta á því að menn sem gefa sig út fyrir slíka starfsemi séu meðal þeirra án þess að vera færir um að taka sér vinnu fyrir aðra í bókhaldi og reikningsskilum og skyldri þjónustu.

Viðurkenning ráðherra yrði þannig staðfest á því að viðkomandi hefur fullnægt ákveðnum almennum hæfisskilyrðum, þ.e. viðkomandi sé heimilisfastur hér á landi, lögráða og hafi forræði á búi sínu auk þess að hafa staðist próf þau sem hér er kveðið á um.

Ég vil minna á það að lokum, virðulegi forseti, að á sínum tíma þegar gefin var út árið 1993 að minni tilhlutan svokölluð skattsvikaskýrsla --- til var nú reyndar önnur skattsvikaskýrsla --- kom fram í niðurstöðum hennar að huga þyrfti að ábyrgð þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi við færslu bókhaldsgerð, gerð skattframtala og ársreikninga fyrirtækja og síðan sagði orðrétt, í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Tryggja þarf með einhverjum hætti ákveðna lágmarkskunnáttu þessara manna á reikningsskilum og gildandi lögum og reglugerðum.``

Með þessu frv. er komið til móts við þessi sjónarmið auk þess sem ég minni á að á sínum tíma samþykkti Alþingi Íslendinga að fela fjmrh. að flytja frv. um þetta efni.

Ég leyfi mér að lokum, virðulegi forseti, að mælast til þess að frv. verði sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.