Fíkniefnamál

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:52:55 (4659)

1997-03-19 14:52:55# 121. lþ. 93.6 fundur 429. mál: #A fíkniefnamál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MagnA
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Magnús Aðalbjörnsson):

Virðulegi forseti. Framtíð þjóðarinnar býr í unga fólkinu. Því skiptir máli að búið verði vel að ungviði þjóðarinnar með kærleiksríku uppeldi, góðri og hagnýtri menntun og aðhaldi. Sem betur fer er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af meginþorra ungs fólks í dag en allt of mörgum er hætta búin að ánetjast hvers kyns eiturlyfjafíkn. Við megum einskis láta ófreistað að stöðva þessa ógn með öllum tiltækum ráðum og það gerum við með því að búa vel að lögreglunni.

Lögreglan býr við fjárskort, er of fáliðuð miðað við þau störf sem henni er ætlað að vinna. Með þessu er góðum rannsóknarlögreglumönnum gert erfitt fyrir í starfi. Við þurfum á kröftum bestu manna að halda til þess að hafa hendur í hári þeirra sem tæla æsku Íslands til fíkniefnaneyslu hvar svo sem þeir eru, götusalarnir, milliliðirnir eða þeir sem fjármagna illvirkin og glæpina.

Það ætti að vera afmarkaðra verkefni og auðveldara að koma í veg fyrir innflutning ólöglegra vímuefna vegna legu landsins. Það er því bagalegt ef fjárskortur og ónóg þjálfun lögreglumanna verður til þess að það sé fýsilegur kostur fyrir útlenda eiturlyfjabaróna að hafa Ísland sem nokkurs konar dreifingarstöð eiturlyfja til Evrópu.

Það virðist vera nokkuð ljóst að sumarhátíðir, t.d. um verslunarmannahelgina úti á landi, eru kjörinn vettvangur fyrir fíkniefnasalana. Til þess að lögreglumenn eigi betra með að hafa yfirsýn yfir meinta fíkniefnasala yrði það til mikilla bóta að lögreglumenn landsbyggðarinnar gætu leitað í tölvutengdan myndbanka til upplýsingaöflunar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. í þremur liðum. Í fyrsta lagi hvort myndir af dæmdum fíkniefnasölum verði inni á þeirri málaskrá sem ráðuneyti dómsmála vinnur að. Ég tel brýnt að svo verði. Í öðru lagi spyr ég um það hvaða venjur gilda hjá lögreglu um upplýsingar til foreldra, skóla og vinnuveitenda varðandi grunsemdir um fíkniefnaneyslu ungs fólks. Í þriðja lagi spyr ég hvort ráðherra telji rétt að skylda lögreglu til að upplýsa foreldra, skóla og vinnuveitendur um grunsemdir varðandi fíkniefnaneyslu og/eða fíkniefnasölu. Ég tel það vel koma til greina.