Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:32:46 (4931)

1997-04-03 12:32:46# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:32]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður veit að sjálfsögðu betur en ég um allar þær milljónir sem varið hefur verið til að bæta mengunarvarnir hjá járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði þar sem hann mun vera stjórnarmaður í fyrirtækinu. Það sem ég var að vísa til er tilvitnun í fréttir sem ekki voru svo fáar af starfsemi verksmiðjunnar á sl. ári. Ég man ekki betur en að þar kæmi svo sannarlega fram viðurkenning á því að forsvarsmenn verksmiðjunnar hefðu átt í hinu mesta basli með að bæta mengunarvarnabúnað sem var orðinn úreltur og gamall. Það tók langan tíma að fá niðurstöðu frá Hollustuvernd í því máli vegna þess að Hollustuvernd var engan veginn í stakk búin til að vinna að þeim rannsóknum sem þurfti að gera og því eftirliti sem hún á að hafa með höndum. Það eru þessi atriði sem ég er að vísa. Hvað sem líður vilja forsvarsmanna fyrirtækisins til að standa að mengunarvörnum þá er ég fyrst og fremst með orðum mínum um metnaðarleysi að vísa til metnaðarleysis stjórnvalda sem ekkert getur fengið mig ofan af að halda fram hér vegna þess að þau hafa ekki sýnt þann metnað að gera kröfur um bestu þekktar varnir gagnvart mengun í þeim verksmiðjum sem Íslendingar hafa í landi sínu.