Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:45:54 (5119)

1997-04-14 17:45:54# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:45]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um endurgreiðsluhlutfallið og við höfum talað um að það væri ekki merkilegt að lækka það um 0,25%, en þá hafa menn dregið upp 7% sem eru í lögunum eins og það væri sá veruleiki sem menn væru að búa við núna. Svo er ekki. Það hefur enginn borgað meira en 5% enn þá og miðað við það sem nú stendur til, þá mun enginn gera það. En af því að hv. þm. vill endilega tala um 7% sem veruleika og reikna út frá 7%, þá væri fróðlegt að vita --- vegna þess að í 7. gr. laganna er talað um vexti, að þeir séu breytilegir, teknir hafa verið 1% vextir en þeir mega vera allt að 3% --- hvort hann óskar þá eftir því að við högum umræðunni miðað við 3% af því að þessi 3% eru í lögunum, hvort það er þá sá veruleiki sem hann telur rétt að reikna út frá og hvort það er þá jafnframt sá veruleiki sem við munum sjá á næstunni fyrst 3% eru ekki tekin út úr lögunum með því frv. sem hér liggur fyrir.