Kennara- og uppeldisháskóli Íslands

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:12:48 (5226)

1997-04-15 22:12:48# 121. lþ. 102.11 fundur 532. mál: #A Kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil fagna því að hér er komið fram frv. um uppeldisháskólann sem við erum mörg hver búinn að tala um í nokkur ár. Þó að hann eigi nú að heita Kennara- og uppeldisháskóli þá gildir það einu, hér er greinilega sama meginhugsun á ferðinni. Í rauninni verið að tala um að þeir hópar sem sinna kennslu og uppeldi og hafa verið að færa menntun sína á háskólastig muni þarna verða undir einu og sama þaki. Það er íhugunarefni og segir okkur hversu ör þróunin er, að fyrir 25 árum var kennsla allra þeirra stétta sem þarna á að sameina í einum háskóla á framhaldsskólastigi. Ef ég man rétt þá var þroskaþjálfanámið tveggja ára nám á framhaldsskólastigi, fóstrunámið sem svo hét þá var þriggja ára nám, kennaranámið fjögurra ára nám og íþróttakennaranámið sjálfsagt eitthvað svipað. Hér er orðin gjörbreyting. Það er reyndar nokkuð síðan þessir skólar aðrir en Kennaraháskólinn, sem varð formlega háskóli fyrir aldarfjórðungi eða svo, fóru að krefjast stúdentsprófs sem inntökuskilyrði þó að þeir væru ekki formlega flokkaðir sem háskólar. En þetta er býsna ör þróun eigi að síður og nú erum við sem sé að horfa til þess að í næstu framtíð verði hér Kennara- og uppeldisháskóli þar sem allar þessar stéttir verði menntaðar.

[22:15]

Ég vil strax taka undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði athugasemd við hér áðan og það var orðið umönnun. Ég er ekki viss um að það eigi heima í þessu frv. né inni í lögum um uppeldis- og kennaraháskóla. Hann nefndi iðjuþjálfun sem dæmi um stétt sem væri heimilislaus og kannski yrði hægt að pota þarna inn ef orðið ,,umönnun`` yrði áfram þarna inni. En við erum kannski sammála um að sú stétt eigi ekki heima í uppeldis- og kennaraháskóla. Hins vegar gætu athvarfsiðjuþjálfar átt þarna heima en það hópur sem starfar að uppeldismálum og ég held að sé ekki búið að finna betra orð yfir. En hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason nefndi áðan að menntun íþrótta- og æskulýðsfulltrúa gæti farið fram á þessum vettvangi og kannski er það þá hliðstætt.

Það sem mér finnst skipta miklu máli þegar við stofnum þennan nýja háskóla er að þarna verði til öflug rannsóknastofnun, öflug stofnun sem sinni rannsóknum í uppeldi og kennslu. Það fara sannarlega einhverjar rannsóknir fram í dag á vegum Kennaraháskólans og einnig á vegum Háskóla Íslands í uppeldisfræði og í kennslufræðum, en ég bind vonir við það að þegar þessi nýi háskóli verður búinn að ná fótfestu að þá munum við eignast þarna öfluga stofnun sem geti sinnt markvissum bæði grunn- og hagnýtum rannsóknum á þessu sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt að þroskaþjálfar og leikskólakennarar komi þarna að eða menntun þeirra og þeir kennarar sem þeim kenna vegna þess að hingað til hafa engar rannsóknir farið fram innan veggja þeirra skóla sem hafa menntað þessar stéttir. Ég bind líka vonir við að skipulag náms þeirra stétta sem sinna uppeldis- og kennslumálum verði markvissara. Það gleður mig þegar ég les þetta frv. yfir að sjá hversu mikið sjálfdæmi skólanum er gefið varðandi innra skipulag og varðandi ákvarðanir um það nám sem þar á að fara fram. Ég tel að þær ákvarðanir séu vel komnar í höndum þeirra aðila sem þar eiga um að véla og tel að með því að skólinn fái þetta sjálfdæmi varðandi menntun þessara mikilvægu stétta þá getum við vænst þess að námið verði skipulagt markvissara en verið hefur, en jafnframt gefist því fólki sem kýs að leggja fyrir sig kennslu og uppeldismál fjölbreyttari möguleikar til sérhæfingar.

Á þessu stigi er ekki, herra forseti, meira um þetta mál að segja. En ég vildi fagna þeirri meginhugsun sem kemur fram í frv. og taka undir með þeim sem hér hafa áður talað.