1997-04-16 00:26:00# 121. lþ. 102.18 fundur 423. mál: #A afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands# þál., Flm. SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:26]

Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. menntmrh. fyrir ágætar undirtektir við málið. Tilgangur minn með flutningi tillögunnar var kannski ekki síst sá að koma málefnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hér á dagskrá almennt þannig að það væri hægt að ræða þau. Þau hafa reyndar ekki verið rædd mjög lengi. Það hafa ekki verið fluttar tillögur eða þingmál um sinfóníuhljómsveitina mjög lengi. Það er kannski vegna þess að það hefur að einhverju leyti verið óþarfi. En það er kannski líka vegna þess að menn hafa ekki haft nægilegan áhuga á starfsemi hennar. En ég heyri á orðum hæstv. menntmrh. að hann er að hugsa fyrir ýmsum hlutum sem mér þykir vænt um að heyra hann nefna og ég tel að það sé einkar vel til fundið að tengja þessa umræðu við 100 ára afmæli Jóns Leifs. Það er kannski dálítið skemmtilegt að rifja það upp í tilefni af þessari umræðu að platan með Sögusinfóníunni eftir Jón Leifs var í fyrra valin ein af þremur bestu plötum ársins í öllum heiminum af The Times, hvorki meira né minna. Þannig að sinfóníuhljómsveitin hefur verið að gera gríðarlega stóra og skemmtilega hluti á alþjóðlegan mælikvarða og þess vegna er full ástæða til að þakka henni með viðeigandi hætti á afmælisárinu eða fyrr, þótt ekki sé nokkur vafi að hitt skiptir langmestu máli, þ.e. að búa henni húsnæði þannig að hún geti stundað starfsemi sína á skaplegan hátt. Best væri ef hægt væri að halda upp á árið 2000 með því að það húsnæðið yrði opnað.