1997-04-16 00:36:02# 121. lþ. 102.19 fundur 432. mál: #A endurskoðun kennsluhátta# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það virkar nú þannig á mig að lesa þessa tillögu og hlýða á mál flm. að hér sé verið að leggja til um of mikla samræmingu á kennsluháttum í landinu. Mér fannst ræðumaður fjalla þannig um málið að kennsla á Íslandi færi fyrst og fremst fram í fyrirlestraformi og hann virtist lítt upplýstur um þann veruleika sem á sér stað í íslenskum skólum en hann er býsna frábrugðinn þessum fyrirlestraveruleika sem mér fannst ræðumaður birta okkur fyrst og fremst með lýsingum sínum á því skólastarfi sem hann þekkir. (Gripið fram í: Það er misskilningur.)

Ég veit ekki hvort hv. flm. hefur hlýtt á Jón Torfa Jónasson afhjúpa þær þjóðsögur sem eru í gangi um nám og kennslu. En þær eru í rauninni þannig að við höldum að tölvur, myndbönd, segulbandsspólur, geisladiskar og öll þessi tæki, sem eiga að gera kennarann óþarfan, séu að gera það. Smám saman muni það vera að gerast. Það hafi verið að gerast. En þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að nemendur sem gátu fengið fyrirlestra á interneti eða gátu fengið kennarann á myndbandi mættu eigi að síður í tíma vegna þess að nám er ekki bara þekkingaröflun, menntun virðist vera miklu fremur í því fólgin að eiga samskipti við annað fólk, að geta átt samræður um það efni sem til umfjöllunar er fremur en að vera viðtakandi. Og þegar frsm. talar hér um jafnrétti til náms þá fyndist mér eðlilegra að tala um jafnrétti til þekkingaröflunar. Það er vissulega rétt að það er meira nú en oft áður en það er samt sem áður svo eða a.m.k. finnst mér, sem hef hlýtt á Jón Torfa fara yfir þessar þjóðsögur, að hvað sem svo öllum kenningum hefur liðið og tækni og nýju umhverfi þá virðist leita í það farið að mannleg samskipti séu fyrst og síðast það sem skiptir máli þegar menntun er annars vegar. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim hjálpartækjum sem bjóðast og hafa boðist í kennslu. En ég vara við oftrú á þeim og ég vara við trú á því að tölva eða myndband geti komið í staðinn fyrir þau mannlegu samskipti sem hafa allt frá tímum Sókratesar, af því hér var vitnað í hann áðan, verið uppistaðan í þeirri menntun sem kynslóðirnar hafa öðlast og fengið í arf hver frá annarri.