Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:51:37 (5271)

1997-04-16 13:51:37# 121. lþ. 103.9 fundur 511. mál: #A skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. En á sama tíma og ég þakka fyrir svörin verð ég að segja að þau hryggja mig og það setur að manni hroll. Hvað er eiginlega að gerast í fiskiskipaflotanum? Hvað er eiginlega að gerast í öryggismálunum? Hver er að gera kröfu til hverra? Hvar standa sjómenn sjálfir í þessu máli? Getur það verið að þarna skarist annars vegar samgrn. og dómsmrn., þ.e. samgrn. sér um að skoðun fari fram og síðan er það dómsmrn. að hafa eftirlit með málum?

Þetta er óeðlilegt og hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort ekki sé eðlilegt að Siglingamálastofnunin sé undir dómsmrn. sem hefur á að skipa skipum sem geta verið á miðunum til þess að fylgjast með þessu. Þetta er ekkert smámál eins og kom fram hjá dómsmrh. Ef miðað er við þau 1.722 skip sem Landhelgisgæslan hefur skoðað á þessu tímabili, þá eru þetta um tvö skip á dag sem skoðuð eru og af þessum skipum er búnaðarskoðun í 58,3% tilvika ekki í lagi og í 53% tilvika eru réttindi og skráningar ekki í lagi. Og í 19 skipti hafði búnaðarskoðun ekki farið fram. Ég hélt, virðulegi forseti, að Siglingastofnunin hefði þetta nokkuð í hendi sér hvaða skip væru á sjó, það væri mjög auðvelt að afla þeirra upplýsinga og mundi tafarlaust stoppa þessi skip ef búnaðarskoðun hefði ekki farið fram. Getur verið að ríki nánast frumskógarástand í þessum málum í fiskiskipaflotanum? Sem betur fer passa fjölmargir skipstjórnarmenn mjög vel upp á öryggisbúnað og öryggi sinna manna á skipum. En samt sem áður eru hér nokkrir aðilar, og allt of margir, sem þarf að taka hressilegu taki svo að slík óáran sem birtist í máli dómsmrh. fái ekki að viðgangast lengur.