Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:10:31 (5463)

1997-04-18 17:10:31# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get í aðalatriðum tekið undir andsvarið með hv. þm., þetta var eiginlega samsvar ef svo má að orði komast við minni ræðu. Því má svo bæta við til viðbótar því sem hv. þm. upplýsti réttilega um hagkvæmni þess að reka stóra og öfluga samtryggða lífeyrissjóði borið saman við kannski allt niður í pínulítil fyrirtæki sem þarna eru að spreyta sig, að lífeyrissjóðirnir hafa á undanförnum árum verið að taka mjög myndarlega til í sínum rekstri. Lífeyrissjóðir hafa sameinast í stórum stíl og stækkað og rekstur þeirra hefur batnað og það hafa almennt orðið faglegri vinnubrögð í rekstri þeirra að ég hygg. Ég gæti tekið dæmi t.d. af verulegri hagræðingu og endurskipulagningu lífeyrismála í mínu kjördæmi eða reyndar á Norðurlandi öllu þar sem er t.d. Lífeyrissjóður Norðurlands, þar sem velflestir stærstu lífeyrissjóðir á öllu Norðurlandi runnu saman og myndaður var einn tiltölulega öflugur sjóður sem auðvitað hefur mikla yfirburði í rekstrarlegu tilliti frá því sem áður var.

Frv. sem hér er á ferðinni vísar veginn til frekari hagræðingar í lífeyrissjóðakerfinu í þessa átt m.a. með ákvæðum um lágmarksfjölda aðildarmanna þannig að ég er í engum vafa um að verði þessi lagagrundvöllur undir starfsemi lífeyrissjóðanna á komandi árum festur í sessi, þá munum við sjá enn frekari þróun og hagræðingu í rekstri.

(Forseti (ÓE): Það er rétt hjá hv. þm. að þetta var alveg á mörkum þess að vera andsvar.)